Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 16:44:09 (2708)

1999-12-10 16:44:09# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[16:44]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. nefndi í upphafi máls síns að í þessum frv. sem hér væru til umræðu væri ekki nein framlög til að takast á við byggðaröskunina. Hv. þm. gat þess reyndar líka að þingmönnum Frjálslynda flokksins hefði ekki unnist tími til að lesa þessi gögn og það hlýtur að vera skýringin á því að hann heldur þessu fram því að í þessu frv. er auðvitað fjöldamargt sem afsannar þessa kenningu hans. Í fyrsta lagi eru stóraukin framlög til niðurgreiðslu húshitunar, en í þál. sem samþykkt var um byggðamál á Alþingi í vor var sett það markmið að innan þriggja ára skyldi húshitunarkostnaður hvergi verða dýrari en sem nemur meðaldýrum hitaveitum. Þarna er stigið mjög stórt skref í þá átt.

Í öðru lagi eru stóraukin framlög til jöfnunar námskostnaði sem er náttúrlega gríðarlega mikilvægt atriði fyrir ungt fólk af landsbyggðinni sem þarf að sækja menntun um langan veg.

Það eru 300 millj. til að stofna eignarhaldsfélög úti á landi annað árið í röð og á móti kemur sama framlag frá heimamönnum. Þessi eignarhaldsfélög munu verða til þess að stórauka atvinnustarfsemina á landsbyggðinni sem ekki er vanþörf á og hér eru enn aukin framlög til atvinnuþróunarstarfs á landsbyggðinni sem er núna alfarið á forræði heimamanna og hefur gefist afskaplega vel þannig að það er ekki hægt að halda svona löguðu fram.

Fleira mætti tína til eins og vegagerð, hafnargerð og flugvelli. Það er sem sagt verið að hrinda í framkvæmd þál., sem samþykkt var í vor, mjög myndarlega í þessu frv.

Einnig er rétt að geta þess, af því að hér kemur hver þingmaðurinn á fætur öðrum og talar um að stjórnvöld standi sig ekki í þessari byggðaröskun, að þessi byggðaröskun hefur staðið í 18 ár. Síðan 1981 hefur fækkað um 500--1.800 manns á landsbyggðinni þannig að þetta er ekkert nýtt. Þessi ríkisstjórn hefur brugðist við því á miklu myndarlegri hátt en nokkur önnur ríkisstjórn. Það fullyrði ég. Ég verð líka að minna hv. þm. á að Frjálslyndi flokkurinn dreifði brtt. við fjárlagafrv. í morgun þar sem lagt er til að lækka framlög til vegagerðar um 550 millj. Er það stuðningur við landsbyggðina, hv. þm.?