Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 16:46:23 (2709)

1999-12-10 16:46:23# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, GIG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[16:46]

Gunnar Ingi Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Við gerðum okkur grein fyrir því að ekki yrði vinsælt að leggja til að lækka framlög til vegagerðar um rúm 10%. Við gerðum okkur hins vegar líka grein fyrir því að það mundi ekki skipta sköpum.

Varðandi það að við höfum ekki lært frv. utan að og ekki fundið þau atriði sem hér voru rakin um stuðning við dreifðari byggðir landsins, þá er það rétt að við höfum haft takmarkaðan tíma. En yfirlýsing okkar byggist kannski fyrst og fremst á því að við höfum ekki sömu áherslur á hvað gera skuli til þess að koma í veg fyrir byggðaröskun. Við leggjum áherslu á að það séu fyrst og fremst fiskveiðistjórnarmál sem valdi byggðaröskun á Íslandi. Auðvitað eru ástæðurnar fleiri. Það er í sjálfu sér jákvætt að huga að húshitunarmálum, námskostnaði og eignarhaldsþáttum en séum við að tala um tóm hús og verðlaus vegna byggðaröskunar og annað í þeim dúr, þá duga þeir þættir skammt.