Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 17:08:39 (2716)

1999-12-10 17:08:39# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[17:08]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ekki er mikið að segja um það sem hér kom fram er. Stjórnendur stofnananna og stjórnir stóðu frammi fyrir miklum vanda á árinu og hann var um margt sérstakur og það vitum við hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Það voru samningar við sjúkrahússlækna, samningar við hjúkrunarfræðinga, aðlögunarsamningar og klínískir samningar. Þetta fór allt langt fram úr áætlunum. Þeir stóðu frammi fyrir massífum hópuppsögnum og vandi þeirra á heilbrigðisstofnunum var auðvitað mikill, því er ekki að leyna. En nokkrir stóðust samt álagið og þar vil ég nefna sérstaklega framkvæmdastjóra og stjórnir og starfslið sjúkrahúsanna á Akureyri og Sauðárkróki. (ÖS: Hvernig er þeim umbunað?) Þeim er umbunað með því að vera ekki skornir niður við trog aftur núna eins og gerðist í fyrra og þeir fá ekki skammarverðlaun eins og í fyrra upp á eina milljón, heldur er þeim umbunað með allt öðrum hætti sem skýrist af því að þeirra hlutur er ekki skertur í grunninum.

Herra forseti. Auðvitað verða gerðir þjónustusamningar og það er það sem út af stendur núna, þjónustusamninga er eftir að gera við svo margar heilbrigðisstofnanir og það er auðvitað sú vinna sem menn fara í mjög fljótlega.