Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 17:10:23 (2717)

1999-12-10 17:10:23# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[17:10]

Frsm. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna ummælum hv. þm. Hjálmars Jónssonar um það að væntanlega væri vænlegast að fjalla um frv. til fjáraukalaga á haustdögum og það er nákvæmlega sá tími sem við í minni hluta fjárln. nefndum þegar við ræddum í 2. umr. fjáraukalaga að eðlilegast væri að fjáraukalög væru til afgreiðslu í þinginu á haustdögum. Ég tek því undir þau orð hv. þm. og ítreka skoðanir okkar í þeim efnum og væntum þess að við fáum stuðning hv. þm. í nefndinni til þess að svo verði á haustdögum.

Það eru örfáar spurningar til hv. þm. í framhaldi af því sem hann fjallaði um varðandi vanda heilbrigðisstofnana. Fyrsta spurningin er hvernig hv. þm. telur heilbrrn. í stakk búið til að taka á þeim vanda sem þar er við að etja miðað við fyrri reynslu. Að því er við vorum upplýst um í fjárln. er ekki búist við neinum breytingum í heilbrrn. varðandi mannahald og starfsemi. Því væri fróðlegt að fá að heyra hvort hv. þm. hefur trú á því að ráðuneytið standist þá raun sem fram undan er í þessum efnum.

Þá er önnur spurning sem er ekki síður mikilvæg vegna þeirrar áherslu sem hv. þm. lagði á skýrslu Ríkisendurskoðunar og allt það eftirlitshlutverk sem komið væri að því er mér skildist helst í hendur fjárln. Spurningin er því til hv. þm., hvert verður að hans mati hlutverk fjárln. í því eftirliti sem fram undan er á heilbrigðisstofnunum árið 2000?