Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 17:16:02 (2720)

1999-12-10 17:16:02# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[17:16]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ekki neita ég því að ég hef áhyggjur af heilbrigðisstofnunum á næsta ári. Hins vegar hefur það komið fram að lagt er upp úr því að gera þjónustusamninga við stofnanirnar og ég vil fulltreysta því að ekki verði gengið til slíkra samninga án þess að menn séu vissir um að þeir geti staðist. Það er í öllu falli afar mikilvægt. Við komum að þessu núna í hv. fjárln. og löggjafarvaldið í heild sinni með nýjum hætti og ég vona að nú sé brotið í blað og menn sjái það að hlutirnir munu ganga til muna betur á næsta ári og innan fjárheimilda svo sem frekast er kostur, þótt auðvitað sé aldrei hægt að fyrirbyggja það að aftur þurfi að leggja fram frv. til fjáraukalaga á næsta ári. En ég á von á því að þær tölur sem þar muni birtast verði til muna lægri en núna.