Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 18:35:26 (2729)

1999-12-10 18:35:26# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[18:35]

Össur Skarphéðinsson (frh.):

Herra forseti. Ég var þar kominn í ræðu minni sem ég var að greina frá því að í dag hefðu borist merkar upplýsingar um þróun efnahagsmála á Íslandi. Í stað þeirrar óskhyggju hæstv. forsrh. og fjmrh. sem kom ítarlega fram í yfirlýsingum þeirra í síðasta mánuði þá er verðbólgan því miður farin af stað aftur. Í dag sendi Hagstofan frá sér yfirlýsingu þar sem bent er á að nú hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,4% frá fyrri mánuði og sl. 12 mánuði hefur hún samtals hækkað um 5,6%. Miðað við þetta, herra forseti, er ljóst að samkeppnisstaða okkar Íslendinga hefur versnað stórlega. Verðbólgan í ríkjum ESS hefur, frá október 1998 til október 1999, einungis aukist um 1,3% að meðaltali mæld á sama kvarða. Þetta skiptir höfuðmáli, herra forseti.

Ég var einnig að rekja það að hæstv. ráðherrar, Geir H. Haarde og Davíð Oddsson, höfðu rangt fyrir sér þegar þeir héldu því fram út allt þetta ár, frá því fyrir kosningar, að viðskiptahallinn mundi minnka þegar liði á árið. Í dag sendi Seðlabankinn frá sér álit þar sem frá því er greint að viðskiptahallinn á þriðja ársfjórðungi þessa árs hafi verið meiri en á sama tíma í fyrra og allt bendi til þess að hann verði líka meiri á fjórða ársfjórðungi. Samkvæmt því er ljóst að viðskipahallinn á þessu ári verður meiri en í fyrra. Þetta þýðir, herra forseti, að áhlaup á gengi, þrýstingur á verðbólgu er nú öllu meiri en áður og það skiptir máli.

Herra forseti. Ég var þar kominn í ræðu minni að ég sagði að allir þeir sem vélað hafa um hagstjórnina væru þeirrar skoðunar að ákaflega nauðsynlegt sé fyrir ríkisstjórnina að reyna að beita þeim fjárlögum sem hérna liggja fyrir í aðhaldsskyni. Innlendar jafnt sem erlendar stofnanir hafa lagt þunga áherslu á að fjárlögunum verði beitt til þess að draga úr þenslunni og reynt verði að hafa hemil á ríkisútgjöldum. Niðurstaðan er hins vegar sú, herra forseti, að í reynd hafa frv. hennar til fjárlaga og fjáraukalaga, sem einnig liggja til umræðu í þinginu, leitt til þess að ríkisstjórnin virðist vera að leggja til ný útgjöld upp á röska 12 milljarða kr. Það er ekki nauðsynlegt við þessar aðstæður, herra forseti. En það er einfaldlega engu líkara en allar stíflur hafi brostið og síðustu missiri hafa útgjöldin vaxið stjórnlítið.

Herra forseti. Þetta skiptir miklu máli þegar við horfum til þess að við erum að öllum líkindum stödd nálægt lokum góðærissveiflunnar. Hvað hefur hins vegar gerst varðandi útgjöld ríkisins á síðustu árum? Við í minni hluta fjárln. höfum látið reikna út fyrir okkur hvernig ríkisútgjöldin hafa þróast á verðlagi ársins 1998 frá árinu 1994--1998. Hvað kemur þá fram, herra forseti? Þar birtist svart á hvítu að ríkisútgjöldin hafa vaxið um 55 milljarða og allt bendir til þess að frá árinu 1998 og til loka ársins 2000 bætist við aðrir 20 milljarðar. Þetta eru gríðarlegir peningar, herra forseti, og í þessu teljum við felast verulega hættu. Í hverju er þessi hætta fólgin? Hún felst í því að sloti góðærinu þá situr samfélagið uppi með þessa útgjaldaaukningu upp á 10 milljarða án þess að hafa tekjur til þess að standa undir þeim. Það þarf auðvitað ekki að mála sterkum litum hversu alvarlegar og erfiðar aðhaldsaðgerðir ágætir menn á borð við þá hv. þm. í fjárln. Hjálmar Jónsson og Jón Kristjánsson þyrftu þá að beita sér fyrir.

Herra forseti. Þetta er hættan sem við stöndum frammi fyrir í dag. Þetta er mesta váin sem að okkur steðjar. Ef okkur tekst ekki að treina góðærið eða lenda mjúklega a.m.k. þá getur farið svo að við stöndum allt í einu frammi fyrir verulegu tekjufalli hjá ríkinu á annan kantinn. Á hinn kantinn erum við með útgjaldaaukningu síðustu ára upp á tugi milljarða. Hvernig ætla menn þá að bregðast við?

Ég hef reynsluna af því, herra forseti, að þurfa að taka til höndum í kreppu og það er ákaflega erfitt. Það verður ákaflega erfitt, eftir góðæri eins og fjárlagafrv. ber með sér, að neyðast til þess að grípa til harkalegra aðhaldsaðgerða. Í raun er það svo að þetta fjárlagafrv. felur í sér a.m.k. vísi að niðursveiflunni. Hví segi ég það, herra forseti? Vegna þess að ég held að þetta fjárlagafrv. birti ekki bara agaleysi heldur og taumleysi á útgjöldum ríkisins. Það er auðvitað merkilegt að það er undir forustu Sjálfstfl. sem þessi mikla útgjaldaþróun hefur orðið.

Sjálfstfl. hefur helst talið sér það til tekna gegnum árin að hann er sá flokkur sem best fer með fé skattborgaranna að eigin sögn. Hann er sá flokkur sem á að vera vörn borgaranna gagnvart þenslu og hann hefur kallað til kjósenda eftir fylgi í krafti þess að hann geti treyst stöðugleikann. Nú blasir við að gríðarleg þensla hefur orðið á útgjöldum undir fjármálaráðherrum Sjálfstfl. á síðustu árum. Eins og ég sagði áðan hafa þau aukist á nokkrum árum um 55 milljarða á verðgildi ársins 1998. Þetta leiðir til þess, herra forseti, ef ekkert verður að gert, að verðbólgan spretti aftur úr spori og aftur verði óáran í samfélaginu. Ég held þess vegna að þegar maður horfir yfir feril ríkisstjórnarinnar þá megi greina þar óslitna röð af mistökum þegar kemur að hagstjórninni.

Ég hef áður vakið máls á því að hæstv. ríkisstjórn urðu á veruleg mistök á síðasta kjörtímabili. Ég held að þegar hún greip til þess að lækka tekjuskatta þá hafi hinn aukni kaupmáttur sem af því spratt leitt til aukinnar þenslu og þar með verulegrar aukningar á innflutningi sem ýtti að sjálfsögðu undir viðskiptahalla sem sett hefur þrýsting á gengið. Við vitum að ef ekki verður hægt að létta á honum þá mun það leiða til þess að verðbólgan fari aftur af stað.

Herra forseti. Ég vísa til þess að í þeim frv. sem við erum að ræða hér kemur fram að þá miklu húsnæðisþenslu sem við höfum séð í samfélaginu síðustu mánuði megi beinlínis rekja til þess að ekki hafi verið farið að fjárlögum. Í fjáraukalagafrv. kemur fram að gríðarleg aukning hafi orðið á útgáfu húsbréfa sem svarar 8 milljörðum kr. Þannig má fara yfir sviðið og komast að þeirri niðurstöðu, herra forseti, að þessi ríkisstjórn hafi því miður ekki reynst vandanum vaxin. Hún hefur ekki sýnt þá ábyrgð sem til þarf. Núna stendur hún fyrir því að leggja fyrir þingið frv. til fjáraukalaga og fjárlaga sem auka útgjöld ríkisins allverulega ofan á það að Sjálfstfl. hefur verið í forustu fyrir því að auka útgjöldin frá því 1994, um meira en 50 milljarða. Menn hljóta að velta því fyrir sér hversu megnug þessi ríkisstjórn verður til að takast á við þann vanda sem blasir núna við.

Þjóðhagsstofnun og Seðlabankinn hafa lýst því yfir að eins og staðan er sé nauðsynlegt að skila enn meiri afgangi á fjárlögum en fram kom í frv. Hvernig hefur hæstv. ríkisstjórn brugðist við því? Með því að leggja fram tillögur sem að öllu óbreyttu minnka hann. Ég held þess vegna, herra forseti, að það besta sem þessi þjóð gæti gert til að treina sér góðærið væri að losa sig við þessa ríkisstjórn.