Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 18:47:01 (2731)

1999-12-10 18:47:01# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[18:47]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson gat þess hér að ekki aðeins hæstv. heilbrrh. bæri ábyrgð á þessari þróun heldur líka hæstv. fjmrh. vegna þess að þeir komu saman að þessu máli. Það er rétt hjá hv. þm. en ég spurði hv. þm.: Hvernig stendur á því að álit meiri hluta fjárln. er þess eðlis að ekki er með nokkrum hætti hægt að sjá að annar af ráðherrunum en hæstv. heilbrrh. beri ábyrgð á stöðunni?

Staðreyndin var sú, eins og hv. þm. gat hér um, að hæstv. heilbrrh. greindi frá því í fjárln. að hún hefði sagt hæstv. fjmrh. frá þeim mikla vanda sem blasti við í maí þegar meira en 100 stofnanir voru að fara verulega fram úr fjárlögum. Hún gat þess jafnframt að menn frá báðum ráðuneytunum hefðu sest niður til að gera tillögur. Að því er varðar útfærslu á samningunum þá hefði hæstv. heilbrrh. gert hæstv. fjmrh. viðvart um að í ráðuneyti hennar væri ekki kunnátta til þess að veita forstöðumönnum leiðsögn í þessu máli. Með öðrum orðum liggur fyrir að hæstv. heilbrrh. hefur sett fram ákveðnar varnir í málinu og greint frá því að hún hafi reynt að fá hæstv. fjmrh. til samstarfs en það hafi ekki tekist betur. Þá spyr ég hv. þm. þess sem hann var að reyna að svara hérna áðan: Hvernig stendur á því að hann lætur hv. þingmenn Sjálfstfl., Hjálmar Jónsson og aðra, kúga sig svo í fjárln. að þetta komi ekki fram? Þar kemur fram að faghópur heilbrrn. hafi komið í málið. Hið sanna er að hæstv. fjmrh. var líka kallaður til liðveislu. Frá því er ekki greint í álitinu. Hv. þm. segir síðan að það skipti ekki máli hverjir séu dregnir til ábyrgðar. Ja, herra minn, hverjir voru það sem komu í þennan ræðustól og sögðu að rétt væri, ekki bara að draga forstöðumenn til ábyrgðar heldur reka þá og nefndu töluna, helst 4--5 í kippu, öðrum sem víti til varnaðar? Það var ekki stjórnarandstaðan. Það voru þingmenn Sjálfstfl. Þeir hafa komið hingað til að kalla menn til ábyrgðar.