Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 20:31:44 (2750)

1999-12-10 20:31:44# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[20:31]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek ekkert nærri mér þó að hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni hitni í hamsi undir þessari umræðu þegar hann talar um sjávarútvegsmál. Ég veit að hann er hatrammur andstæðingur Hafrannsóknastofnunar og þeirra fræða sem þar eru stunduð. Ég hef alla tíð talið fræði þeirra þau bestu sem við hefðum. (GAK: Þetta eru allt tölur frá Hafró.) Hafrannsóknastofnun hefur fram að þessu notið virðingar um allan heim og aðferðir þeirra hafa verið notaðar víða.

Ég ætla því ekki að fara að munnhöggvast um hvort þessi tonnafjöldi er nákvæmlega réttur en þetta eru þær upplýsingar sem Hafrannsóknastofnun gefur. Ég var fyrst og fremst að velta fyrir mér þeim endimörkum sem væru. Ég ætla ekki að deila um það hvort þau geti orðið 360, 370 eða 330 en ég held að það sé mikill misskilningur hjá hv. þm. að einhvern tíma geti orðið 400 eða 450 þús. tonna ársafli í þorskveiðum við Íslandsstrendur miðað við þær aðstæður sem nú eru.