Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 20:32:57 (2751)

1999-12-10 20:32:57# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[20:32]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Mönnum hefur í dag verið tíðrætt um þá hækkun sem er á kostnaði við heilbrigðiskerfið. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að ákveðnar launahækkanir hafi orðið hjá heilbrigðisstéttum. Ég bendi á að 2/3 af hækkunum til heilbrigðiskerfisins nú varða laun. Ég vil minna fólk á við hvaða aðstæður laun voru hækkuð annars vegar hjá læknum og hins vegar hjá hjúkrunarfræðingum sem sérstaklega eru teknir fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Þegar gerðir voru samningar við lækna var flótti í læknastéttinni sem krafðist þess að tekin yrði ákvörðun um að hækka laun til lækna sérstaklega. Hið sama var með hjúkrunarfræðinga þegar gengið var til samninga við þá varðandi aðlögunarsamningana sumarið 1998. Þá var almenn samstaða um það í samfélaginu og ákvörðun ríkisstjórnarinnar að sérstaklega þyrfti að bæta hjúkrunarfræðingum þau laun sem voru um 15--20% lakari en hjá sambærilegum stéttum.