Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 20:55:09 (2758)

1999-12-10 20:55:09# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[20:55]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Í minnihlutaáliti sem liggur fyrir er verið að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir ofþenslu í ríkisútgjöldum. (ÖS: Ertu ósammála því?) Ég kem að því í ræðu minni hér á eftir. Það hefur enginn sagt neitt um það. Það er ekki frágengið mál hvort tekjuafgangur muni minnka nokkuð frá 1. umr. eða ekki. Við munum ræða það við 3. umr. (Gripið fram í.) Það eru ýmsar aðferðir til þess að auka tekjur ríkisins. (Gripið fram í.) Það veit ég mjög vel (Gripið fram í: Við 3. umr.?) en kannski flytja menn líka tillögur um það. Áhugamenn um skatta hafa verið innan dyra fyrr.

Ég spyr aftur: Er hv. þm. sammála minnihlutaáliti stjórnarandstöðunnar sem hér liggur fyrir sem átelur aukningu ríkisútgjalda og þenslu ríkisins? Er hann með því eða er hann á móti því? Eða er stjórnarandstaðan á sama tíma sammála um að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir það að eitthvað sé of lítið um leið og það er of mikið? Ég skil þetta þannig. Í allan dag hafa menn rætt um að verið sé að veita allt of mikla hækkun, sérstaklega í heilbrigðiskerfið. Ég veit ekki annað en margir stjórnarandstæðingar hafi í gegnum árin hafi verið að kvarta yfir því að einmitt þessi málaflokkur hafi ekki nógu mikla peninga.

Hvort er hv. þm. sammála minnihlutaálitinu eða ósammála því?