Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 20:58:26 (2760)

1999-12-10 20:58:26# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[20:58]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér voru afar áhugaverð orðaskipti áðan. Ég held að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann komst þannig að orði að til væru ýmsar aðferðir til að auka tekjur ríkissjóðs og það eina sem vantaði var að bæta við: við 3. umr. fjárlaga. Það eru alkunnar aðferðir að mæta þá allt í einu með nýuppgötvaðar þjóðhagsforsendur sem skrúfa upp tekjurnar eins og þarf til að þetta liti vel út. Það hét hérna fyrr á öldinni að ljúga saman fjárlögunum við 3. umr. Þá hagræddu menn tekjuforsendum eftir þörfum og bættu í hér og teygðu á þar (EOK: ... í fyrra.) og þá kom þetta saman. Nú hefur að vísu ekki þurft að ljúga þeim saman upp í núllið eins og stundum var. Nú hafa menn verið að baksast við að sýna afgang og loksins rættist það að einhver afgangur varð. Hann var að vísu að mestu leyti til kominn með því að ganga á eigur þjóðarinnar, þ.e. ríkisins. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson veit að það er skammgóður vermir að selja frá sér eigur sínar. (EOK: Tekjurnar jukust meira en ... ) Það gerir maður ekki nema einu sinni.

Herra forseti. Það er mikill bjartsýnismaður, forseti þingsins, verð ég að segja. Ég hló með sjálfum mér þegar ég sá dagskrá fundarins í morgun og sá að liður nr. 2 á álnarlangri dagskrá var 2. umr. fjárlaga. Síðan komu ein 20 frumvörp í viðbót sem er þá væntanlega til marks um það að forseti hefur ekki talið það fullt dagsverk þegar hann setti upp dagskrána að ræða fjárlögin. Mér sýnist að eitthvað þurfi að hyggja að því að endurskoða þetta því að enn lifir nokkuð af umræðunni og klukkna orðin 9 enda hefur það reynst alveg þokkalegt dagsverk að komast í gegnum 2. umr. fjárlaga. Ég hygg að við látum kannski þar staðar numið þegar þetta verður rætt og ekki meira um það, herra forseti.

[21:00]

Herra forseti. Frá því er sagt í merkilegri bók að merkilegan mann, sem ég kann nú ekki að nafngreina en var leiðtogi síns ríkis, dreymdi fyrir eitthvað um 2.500--3.000 árum síðan merkilegan draum. Í draumnum komu fyrir sjö kýr. Síðan var fenginn annar merkilegur maður til að ráða drauminn og úr því kom þetta: Það mundu ganga sjö feit ár og síðan sjö mögur ár yfir landið. Af fyrirhyggjusemi gerðu menn ráðstafanir í því sambandi. Ég hef hugsað um það hvort þetta kunni að ganga eftir hér uppi á ísaköldu landi þúsundum árum síðar, að það verði kannski sjö feit ár en vonandi þó færri mögur.

Þannig háttar til að nú er fram undan sjöunda árið í uppsveiflunni í landinu ef við miðum hana og mælum við þau tímamót er hæstv. forsrh. þáv. og núv., Davíð Oddsson, setti upp sólgleraugun, þegar skyndilega birti til um mitt sumar 1994 og forsrh. boðaði þjóðinni góðæri. Sumir settu það að vísu í samband við væntanlegar alþingiskosningar að vori en hitt er reyndar staðreynd að um það leyti, á árabilinu 1993--1995, fór hagsveiflan upp á við og við tókum að vinna okkur upp úr öldudalnum. (Gripið fram í.) Þá var Framsfl. ekki kominn í ríkisstjórn, hv. þm., og ég held að Framsfl. hafi haft ósköp lítið með það að gera að í garð gengu góð ár í sjávarútveginum. Mikil verðmæti bættust við í greininni vegna veiða á fjarlægum miðum. Góðar vertíðir í uppsjávarfiskum komu til sögunnar o.s.frv. Eins og ég er býsna iðinn við að minna á þá var það eins og venjulega og hefur alltaf verið og verður sjálfsagt lengi enn, íslenski sjávarútvegurinn sem dreif þjóðina upp úr öldudalnum. Það var að sjálfsögðu sú verðmætauppspretta sem kom hjólunum af stað en síðan hefur margt fleira bæst við og hjálpað til.

Því er ég að ræða um þetta, herra forseti? Ekki langar mig til að vera að spá fram undan hallæri og harðindum og svo sannarlega vona ég að ekki gangi eftir gömul egypsk speki, að hér fylgi sjö mögur ár öðrum jafnmörgum feitum. Einhvern veginn er það þó þannig að ég hef býsna sterklega haft það á tilfinningunni, um svona hálfs til eins árs skeið, að nú væri vissara að fara að vara sig. Nú væru ýmis teikn á lofti um að við værum að komast á gamalkunnugan stað í þessu sveifluferli, þessari hringrás. Ég held að það sé því miður þannig að ýmis hættumerki séu við sjóndeildarhring. Sum þeirra eru í þessu frv. sem við erum að ræða um, önnur liggja annars staðar.

Það er t.d. ljóst að við erum að glíma við hefðbundin vandamál, mörg og gamalkunn, sem fylgja langvarandi uppsveiflu í efnahagslífinu og þenslu í þjóðarbúskapnum. Það er augljóst mál. Að sumu leyti sjáum við að við höfum verið að plata okkur sjálf að undanförnu. Það er t.d. enginn vafi á því að kosningarnar á sl. vori höfðu áhrif á það hvernig menn gengu frá málum um síðustu áramót í fjárlögunum fyrir yfirstandandi ár. Þar var gengið langt í að reyna að láta líta út eins og allt væri slétt og fellt. Síðan hefur ýmislegt komið á daginn. Stjórnarsinnar verða að viðurkenna að varnaðarorð stjórnarandstæðinga um stórfellda vanáætlun á útgjöldum í heilbrigðiskerfinu hafa gengið eftir. Það þýðir ekki annað en horfast í augu við það.

Ég held líka, herra forseti, að burt séð frá pólitískum meiningum manna um hvað sé hóflegt stig skattlagningar í landinu eigi að vera hægt að viðurkenna að skattalækkanirnar á undangengnum tveimur, þremur árum voru mistök. Þær eru mjög óheppilegar í ljósi efnahagsþróunarinnar sl. eitt, tvö ár. Það blasir við okkur núna. Það hefði verið betra að hafa þessa fjármuni í ríkissjóði, hafa stöðu hans betri.

Alvarlegasta hættumerkið, herra forseti, fyrir þjóðarbúið til lengri tíma litið er þó auðvitað viðskiptahallinn. Við vorum að fá alvarlegar áminningar um hann enn einu sinni og hefur það svo sem ekki þurft. Þeir sem fylgjast með hagtölum mánaðarins sjá hvernig okkur miðar, hvort okkur miðar í rétta átt eða öfuga frá mánuði til mánaðar. Að frádregnum eðlilegum sveiflum sem stundum verða þá er ljóst að væntingar manna um að eitthvað mundi slá á viðskiptahallann hafa runnið út í sandinn núna á síðari hluta þessa árs. Það kann vel að fara svo að þetta ár reynist enn verra hinu síðasta hvað viðskiptahallann snertir og hann fari í eina 35 milljarða kr. eða rúmlega það. Það er auðvitað mikið hættumerki, herra forseti.

Ég tel óhjákvæmilegt að viðurkenna að ýmis mistök hafi orðið í hagstjórninni. Margt hefur að vísu gengið okkur í haginn og ytri skilyrðin hafa verið hagstæð um sumt. Mönnum hefur að sumu leyti heppnast að snúa og þróa málin í rétta átt sem auðvitað er jákvætt. Að það stefni í afgang ríkissjóðs er jákvætt að sjálfsögðu, að lánsfjárjöfnuður ríkissjóðs sé nú jákvæður ár eftir ár og að við séum að borga niður skuldir. Fleira mætti þar telja en annað hefur ekki gengið jafn vel.

Það sem ég tel alvarlegast er að ég tel að góðærinu, að svo miklu leyti sem samkomulag gat tekist um ráðstöfun þess, hafi ekki verið rétt ráðstafað. Ég held ekki. Góðærinu átti ekki að ráðstafa í skattalækkanir við þessar aðstæður. Það átti ekki að gera það. Þetta eru flatar almennar skattalækkanir, t.d. í tekjuskatti sem hafa komið hátekjufólki best, barnlausu hátekjufólki, hópi sem hefur aukið kaupmátt sinn meira en nokkur annar í þjóðfélaginu. Það er staðreynd og liggur óhrekjandi fyrir, m.a. úr launakönnun kjararannsóknarnefndar og víðar.

Þeim fjármunum hefði verið betur varið til þess að rétta á nýjan leik stöðu þeirra sem hallað hefur á að undanförnu. Þeim hefði verið betur varið til að hækka grunnlífeyri örorkubóta og ellilífeyris. Þeim hefði verið betur varið til að hækka tekjutrygginguna, draga úr tekjutengingu t.d. örorkubóta við laun maka og hækka skattleysismörkin og/eða, sem þó hefði verið betra, að gera aðrar breytingar á skattkerfinu t.d. með nýju þrepi sem hefði létt skattbyrðina á lágtekjufólki og miðlungstekjufólki, sérstaklega barnafólki. Þetta hefur ekki verið gert. Með slíkum ráðstöfunum hefðu menn notað góðærið eða ávinning þess, a.m.k. að hluta til, til að styrkja á nýjan leik innviði velferðarkerfisins á Íslandi. Það hafa menn ekki gert. Þvert á móti hefur launa- og aðstöðumunurinn haldið áfram að aukast í góðærinu og það hefur dregið enn meira og hraðar í sundur heldur en áður var.

Annað sem menn hafa talað um að þörf væri á að gera á Íslandi og flestir verið sammála um, a.m.k. í orði kveðnu, að við þyrftum að gera sjálfra okkar vegna hefur ekki verið gert. Það hefur t.d. ekki verið lagt það aukna fjármagn í rannsóknar- og þróunarstarf og í umbætur í menntakerfi landsins sem flestir segja þó, a.m.k. á tyllidögum, að væri einhver allra besta fjárfesting okkar til framtíðar. Okkur hefur miðað allt of lítið í þeim efnum. Framlög til rannsóknar- og þróunarstarfsemi á Íslandi eru enn sorglega lág og langt á eftir því sem gerist hjá þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Ég vil helst ekki nefna þau lönd sem við tilheyrum í þessum flokki. Það á auðvitað ekki að fara hér í nafngreiningar en í þeim löndum eru lífskjör og aðstæður slíkar að dags daglega berum við okkur ekki saman við þau. Þar stöndum við, sitjum eða kannski liggjum ætti að segja, varðandi framlög til rannsókna og þróunarstarfs, til vísinda.

Heilbrigðiskerfið fær vissulega aukna fjármuni og menn hafa neyðst til að horfast þar í augu við stóraukna fjárþörf. Ég hef ekki að öllu leyti verið sammála þeirri umræðu sem orðið hefur um það í dag, að það sé eitthvað nýtilkomið eða óvænt í þessari umræðu að þörf sé á stórauknu fé inn í heilbrigðiskerfið. Síðan hvenær urðu það fréttir þeim sem fylgst hafa eitthvað með þróun þessara mála núna sl. þrjú, fjögur, fimm ár? Það hefur lengi legið fyrir að þar væri stóraukin þörf. Það hefur lengi legið fyrir að þetta kerfi hefur verið svelt mörg undanfarin ár. Sveltið gat auðvitað ekki haldið áfram endalaust. Það hafa menn vitað. Menn hafa verið sveltir í mannahaldi, tækjakaupafé og einfaldlega fjárveitingum til að mæta þróun í þessari grein sem kallar á aukna fjármuni ef menn ætla að njóta góðs af þeim framförum sem þar eru að verða. Það er auðvitað spurning hvort menn eru tilbúnir til að afsala sér þeim. En þegar ný lyf, ný tæki og nýjar aðferðir gera mögulegt að leysa vandamál í heilbrigðiskerfinu sem áður voru kannski illleysanleg eða óviðráðanleg, þá standa menn frammi fyrir því hvort þeir vilja eða geta nýtt sér möguleikana sem í framförunum eru fólgnar. Það mun kosta fjármuni hér eins og annars staðar þar sem menn standa frammi fyrir því að nútímalæknisþjónusta og heilbrigðisþjónusta er útgjaldafrek starfsemi. Sú starfsemi hefur tekið til sín, eiginlega alls staðar á byggðu bóli þar sem slík þróun hefur verið, vaxandi skerf af þjóðartekjunum.

Svo bætast fleiri hlutir við sem gera það að verkum að algerlega var sjálfgefið að hér rynnu verulega auknir fjármunir til heilbrigðismála. Þar ber náttúrlega fyrst að nefna kjarasamningana sem ríkisstjórnin sjálf ber auðvitað fulla ábyrgð á og þá ekki síst hæstv. fjmrh. Af einhverjum furðulegum ástæðum hefur hann ekki sést við umræðuna. Það hefur réttilega verið bent á að hann er sérkennilega til hlés í þessu máli, sá hæstv. ráðherra sem fer með ábyrgð á samningagerð fyrir ríkið.

Ég ætla ekki að gerast sá sem stendur hér og hrópa eins og himinn og jörð séu að farast út af þeim kjarasamningum sem voru gerðir eða sakfella þá menn sem fyrir því stóðu. Auðvitað þurfti að leysa þau mál. Þar voru uppi erfiðar aðstæður og kröfur um verulegar launaleiðréttingar, enda að ýmsu leyti tilefni til. Þar voru miklar væntingar um bætt kjör og við manneklu og fólksflótta að stríða, m.a. og ekki síst þegar í hlut á sérhæfðasta fólkið sem hvað mest verðmæti liggja í og nauðsynlegt er að halda í landinu til að halda uppi háþróaðri heilbrigðisþjónustu.

Það sem ég hins vegar, herra forseti, tel gagnrýniverðast í þessu eru vinnubrögðin. Ég tel þau mjög ámælisverð. Ég held að þau séu framhald af aðferðafræði og framgöngu stjórnvalda sem hafi gefist illa undanfarin 3--5 ár og jafnvel lengur.

Hér var rifjuð upp stórstyrjöld fyrrv. hæstv. heilbrrh., Sighvats Björgvinssonar, við heilbrigðisstéttirnar. Það var nokkuð til því sem sögumaður sagði, að hæstv. þáv. heilbrrh. hafi reynt að skera upp herör gegn því sem kallað var alger sjálftaka sérfræðinga, lyfsala og annarra slíkra í kerfinu. Þar var vissulega þörf á að halda aftur af útgjaldaaukningu. Ég held að vísu að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, þáv. hæstv. heilbrrh., hafi ekki að öllu leyti valið sér skynsamlegar aðferðir í þeirri glímu og hafi náð minni árangri en ella vegna þess.

Síðan hafa tekið við aðrir tímar í heilbrigðismálunum og það er fróðlegt í ljósi þeirra staðreynda sem við mönnum blasa að rifja upp æfingarnar undanfarin ár í fjárveitingum til heilbrigðismála og alveg sérstaklega til stærstu og sérhæfðustu stofnananna. Eru menn búnir að gleyma áflogunum í fyrra og hittiðfyrra og jafnvel árið þar áður þegar menn neituðu að horfast í augu við raunveruleikann og þörfina fyrir fjárveitingar til stærstu stofnananna? Menn reyndu að þjarma að þeim með því að skammta þeim minna en þurfti til þess rekstrarumfangs sem í gangi var. Svo voru búnir til pottar til að halda utan um málið og hafa tak á þessum stofnunum. Þar áttu menn síðan að mæta, sækja um, berjast og bítast um sína hlutdeild í þessum pottum. Þessa pottagaldra vorum við að ræða við fjárlagagerðina í fyrra og hittiðfyrra og árið þar áður. Ég varaði við þessu og sagði að út úr þessu mundi ekkert gott koma. Ég taldi að þetta mundi þvert á móti leiða til ófarnaðar. Þetta er ekki rétta aðferðin til að útdeila raunhæfum fjárveitingum, þeim fjárveitingum sem þörf er á fyrir rekstrarumfangið sem heimildir stjórnvalda leyfa að haldið sé úti og láta menn síðan bera ábyrgð á þeim rekstri. Þetta er öfug aðferð.

[21:15]

Afleiðing þessa er að stjórnendur þessara stofnana hafa sagt: Það er ekki hægt að gera þetta svona. Við getum ekki rekið stofnanirnar vegna þess að við fengum minna fé en þarf til þess að halda þeim úti. Þá hverfur sú ábyrgðartilfinning sem annars er hjá þeim stjórnendum sem fá raunhæfar fjárveitingar til starfsemi sinnar. Þeir bera ábyrgðina á að klára málin sjálfir. Að mínu mati var þarna valin kolvitlaus leið.

Þar fyrir utan, herra forseti, fæ ég ekki betur séð en að í mörgum tilvikum hafi þetta leitt til þess að stofnunum hafi verið mismunað. Þetta hefur líka leitt til þess sem jafnvel er enn að gerast t.d. í afgreiðslu fjáraukalagafrv. núna, að mönnum sé refsað fyrir að sýna ábyrgð og halda sig innan ramma fjárlaga. Því miður virðist mér það enn vera að gerast. Það er mjög alvarlegur boðskapur til þeirra sem gripið hafa til sársaukafullra aðgerða hjá sér. Þeir halda jafnvel aftur af umsömdu framgangskerfi einstakra hópa til að halda útgjöldunum niðri en sjá svo að aðrir gera það ekki en fá það að fullu bætt þegar fjáraukalagafrv. eru til afgreiðslu.

Það eru vinnubrögðin, herra forseti, sem ég held að séu aðalskekkjuvaldurinn. Að hluta til eru það vinnubrögð meiri hluta Alþingis sem ekki hefur lagt skynsamlegan grunn að fjárveitingu til stofnananna undanfarin ár og síðan vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar, fjmrn. og heilbrrn. Hvernig ábyrgðinni er deilt þar á milli skiptir ekki miklu máli að mínu mati. Þær æfingar sem hér hafa verið gerðar í dag um að vega ábyrgðina á milli fjmrh. og heilbrrh., ég gef lítið fyrir þær. Ég hélt að þetta væru ráðherrar í sömu ríkisstjórn eða hvað, herra forseti? Er það ekki? Eru þetta ekki ráðherrar í sömu ríkisstjórn Íslands, bæði heilbrrh. og fjmrh.? Ég gef ekki mikið fyrir það þó að annar sé í Framsfl. og hinn í Sjálfstfl. Þetta eru ráðherrar í ríkisstjórn Íslands og sameiginlega bera þeir ábyrgð á þessum málum, líka forsrh. og líka utanrrh. þó að hann sé mikið í útlöndum.

Auðvitað ber meiri hluti Alþingis, sem staðið hefur að þessum málum undanfarin ár eins og raun ber vitni, einnig verulega ábyrgð. Það kann vel að vera að þeir sem þekkja til aðferðanna finni í vinnubrögðum og hlutskipti fjárln. einhverja afsökun í því að þetta komi allt saman meira og minna tilbúið og matreitt utan úr bæ. Í sjálfu sér er það þó ekki nóg til að leysa menn undan þeirri ábyrgð sem þeir bera með atkvæði sínu á þinginu. Ég held að þetta hafi ekki, herra forseti, gefið mjög góða raun.

Vonandi er sá grunnur sem verið er að leggja undir fjárlög ársins 2000, með þeirri aukningu til heilbrigðismála sem þar er á ferðinni, raunhæfari undirstaða fyrir starfsemina á komandi ári en hingað til hefur verið, sl. þrjú, fjögur ár. Grunnurinn hefur ekki verið raunhæfur. Það er ískaldur veruleikinn. Menn hafa neyðst til að koma með skottið á milli fótanna og lagfæra það sem allir sáu að var ekki í lagi við afgreiðslu fjárlaga undanfarin ár, með fjáraukalögum og auka fjáraukalögum ár eftir ár. Þannig er það enn enda var hér fyrir nkkrum dögum lagt fram fjáraukalagafrv., býsna bólgið ef ég man rétt, einnig í heilbrigðisgeiranum.

Herra forseti. Ég ætla að hafa nokkur orð um byggðamálin sem hv. þm. og formaður fjárln. og framsögumaður gerði að umtalsefni og hefur af skiljanlegum ástæðum reynt að halda inni í umræðunni í viðtölum við fjölmiðla. Þar hefur komið fram að ríkisstjórnin væri sérstaklega að taka á þeim málum. Ósköp finnst mér það nú margurt, herra forseti, sem í raun er hægt að tína til í þeim efnum. Það verður tæplega talið til stórátaka sem þar er á ferðinni. Óskaplega stingur þá í augun aumingjadómur eins og sá að nota tækifærið í góðærinu og skera niður t.d. lið eins og þann að styrkja dreifikerfi raforku í sveitum landsins. Ég veit ekki annað en það standi að mestu leyti óbætt í fjárlagafrv. Kannski á að lappa eitthvað upp á það við 3. umr. en það væri fróðlegt að fá fréttir af því.

Ég verð líka að segja, herra forseti, að mér finnast þetta enn vera óskaplega veikburða tillögur og hálfkák hjá mönnum í þessum efnum. Vissulega er það í áttina ef þingmenn manna sig loks í það við afgreiðslu frv. við 2. eða 3. umr. að setja inn efndir á loforðum og samkomulagi flokkanna frá því í fyrravor um ákveðnar stuðningsaðgerðir í tengslum við afgreiðslu kosningalagafrv. Í ljósi þess hvernig hlutirnir blasa við núna þá finnst mér það nánast smámunir. Mér finnst að menn ættu að ræða aðgerðir af þeirri stærðargráðu að það væri sögulegt til að ráðast gegn þessum svakalega vanda sem menn standa þarna frammi fyrir. Ég hefði viljað sjá einhverjar tilraunir til þess að skapa þverpólitíska samstöðu um stórátak í þeim efnum. Þá værum við að tala um, að svo miklu leyti sem þetta snýst þá um fjármuni, margra milljarða átak til að snúa vörn í sókn og mun ekki af veita. Þá væru menn virkilega að reyna að taka á málum af krafti. Mér finnst þetta vera heldur káklegt, herra forseti. Það er verið að kákla í þessu hér og þar, lofa hlutum hingað og þangað sem erfiðlega gengur að fá efnda. Svo er deilt um hvort yfir höfuð hafi verið staðið við loforðin, t.d. milljarðinn margeftirlýsta sem átti að koma til atvinnusköpunar og formaður stjórnar Byggðastofnunar lýsir gjarnan eftir.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lögðum fyrst hér á haustdögum fram, herra forseti, þáltill. um viðamiklar aðgerðir í 12 liðum til að snúa þarna vörn í sókn. Þær taka að sjálfsögðu aðeins til vissra þátta þessa máls. Við teljum að umtalsverður fjárstuðningur frá stjórnvöldum gæti komið að gagni í mikilvægum málaflokkum, t.d. í samgöngumálum, í fjarskiptamálum og í eflingu framhaldsnáms á landsbyggðinni. Við erum tilbúin að standa að því að reiða þá fjármuni fram. Við erum líka tilbúin til að afla tekna á móti eftir því sem samstaða gæti orðið um slíkt. Ég held að maður þurfi ekki að vera feiminn við að kynna tillögur um umtalsverðar aðgerðir til að reyna að ná jafnvægi í búsetuþróun í landinu. Það er enginn vafi á því að það er leitun að betri fjárfestingu fyrir íslenskt þjóðarbú en að reyna að snúa þróuninni við. Það er alveg borðleggjandi að vart nokkur fjárfesting í landinu er líklegri til að verða jafnarðsöm og farsæl fyrir þjóðarbúið til framtíðar og að fjárfesta í, þó að það kosti mikla peninga, að snúa byggðaröskuninni við. Það er enginn vandi að reikna þá arðsemi út.

Ég ætla, herra forseti, kannski ekki að þreyta menn með tölum sem hafa oft komið fram áður, t.d. um þann milljarða herkostnað hér á höfuðborgarsvæðinu sem tekur við mesta straumnum, um fórnarkostnað þeirra svæða sem missa frá sér fólkið og síðast en ekki síst þann gífurlega kostnað sem hleðst á einstaklingana í þessu sambandi. Sá kostnaður hefur vaxið undanfarin missiri, m.a. vegna þess að mun dýrara hefur verið að koma sér hér fyrir vegna hækkandi húsnæðisverðs og leigu en var til skamms tíma vegna þensluástandsins hér á þessu svæði. Allt ber að sama brunni, herra forseti. Það er öruggt að þótt við settum í það t.d. 5 milljarða á ári í nokkur ár, að gera myndarlegt átak í þessum efnum og næðum þó ekki væri nema einhverjum takmörkuðum árangri, þá væri eiginlega alveg öruggt að sú fjárfesting mundi renta sig mjög vel. Það er alveg borðleggjandi, herra forseti, og mikið betri bisness en stóriðju- og virkjanastefnan sem er eins og kunnugt er einhver dýrasta aðferð í heimi til þess að skapa störf fyrir fólk og snúa við vörn í sókn í byggðamálum, hafi menn trú á því að sú aðferð virki yfir höfuð.

Ekki nema lítið brot af þeim fjármunum sem talað er um að íslenskir aðilar leggi í það dæmi sem nú er mest til umræðu, á nokkurra ára bili, mundi gera gæfumuninn. Ég held að þetta snúist um að aðgerðir stjórnvalda séu nógu trúverðugar, markvissar og miklar til þess að trúin á framtíð byggðarlaganna verði endurheimt. Það eru aðferðirnar sem menn þurfa að beita, þau meðul eiga að miðast við það takmark að bæta aðstæðurnar og breyta andrúmsloftinu þannig að trúin á framtíð byggðanna og landsbyggðarinnar endurheimtist. Um það snýst dæmið. Eftir það læknar meinið sig sjálft. Það held ég að reynslan sýni okkur einnig.

Þegar þau tímabil hafa komið í stjórnmálasögunni að vorað hefur í þessu tilliti á landsbyggðinni, þá hefur allt farið þar á fulla ferð. Þá hefur allt farið að gróa eins og gerðist á áttunda áratugnum. Þá var svo kraftmiklum og massífum aðgerðum hrint af stað að andrúmsloftið breyttist, þá voraði og menn tóku sjálfir til hendinni og þannig læknaðist meinið.

Herra forseti. Ég ætla að gera grein fyrir nokkrum af þeim brtt. sem við flytjum á nokkrum þingskjölum, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Ég tek að mér að mæla fyrir sumum þeirra en félagar mínir mæla fyrir hinum. Ég ætla fyrst að gera grein fyrir þeirri tekjuöflun sem við leggjum til að fylgi þeim útgjöldum sem við tölum fyrir að bætt verði inn í fjárlagafrv. við 2. umr. Við höfum geymt nokkra liði til 3. umr. og munum eftir atvikum flytja brtt. við þar sem okkur sýnist ekki nægjanlega vel að verki staðið. Þar nefni ég sérstaklega lífeyristryggingarnar en í leiðinni get ég skotið því að að við erum þar að mörgu leyti að tala um svipaða hluti og koma fram á brtt. hv. þingmanna Frjálslynda flokksins, á þskj. 348. Þar er einmitt lögð til umtalsverð lagfæring á þeim liðum, lífeyristryggingum og sjúkratryggingum. Við styðjum hins vegar ekki hugmyndir hv. þingmanna um að skera niður í vegamálum sem mér sýnast birtast þarna á sama þingskjali. Þvert á móti leggjum við til að auknir fjármunir verði veittir til úrbóta í samgöngumálum.

[21:30]

Í fyrsta lagi, herra forseti, er á þskj. 353 brtt. frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og er þar 1. flm. hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi þingflokksins í fjárln. 1. tölul. brtt. lýtur að tekjuhlið fjárlagafrv. Við leggjum þar til að þrír tekjustofnar ríkissjóðs verði nokkuð hækkaðir á næsta ári með hækkun þeirrar skattlagningar sem þar er á ferð og þar fer fyrst liðurinn 1.1.1.5 Sérstakur tekjuskattur. Það heitir á daglegu máli hátekjuskattur. Við leggjum til að hann verði hækkaður um nálægt 15% og skili 140 millj. kr. tekjum í viðbót í ríkissjóð. Að Skattur á fjármagnstekjur, liður 1.1.5.1, verði í öðru lagi hækkaður um svipað hundraðshlutfall og fari þá úr 2.800 millj. í 3.220, skili 420 millj. í viðbót í ríkissjóð og í þriðja lagi að liður 1.5.1.1 Tekjuskattur lögaðila, þ.e. tekjuskattur á hagnað fyrirtækja, verði sömuleiðis hækkaður um nálægt sama hundraðshluta, 15%, og fari þá úr 9.550 millj. í 11.000 millj. og skili 1.450 millj. kr. tekjuauka til ríkissjóðs. Samtals gerir þetta tekjuöflun, herra forseti, upp á 2.010 millj. kr. Það nægir ekki alveg til að standa straum af þeim útgjöldum sem við á hinn bóginn leggjum til og skakkar þar sennilega nálægt rétt um þriðjungi, þ.e. út af mundi standa um milljarður kr. sem kæmi fram í minni tekjuafgangi ríkissjóðs ef orðið yrði við öllum okkar brtt. Við teljum það í sjálfu sér ekki úrslitaatriði, enda kannski ekki nein sérstök vísindi á bak við það að hamingjan verði endilega nákvæmlega höndluð með tekjuafgangi upp á þessa tölu frekar en aðra en ljóst er að brtt. af þessum toga mundu í mjög litlu raska þeim áformum sem menn hafa sett sér og eru eitthvað á undanhaldi að vísu miðað við stöðuna í dag um tekjuafgang ríkissjóðs.

Á sama breytingartillöguskjali, herra forseti, er brtt. við liðinn 01-211 Þjóðhagsstofnun. Við leggjum til að Þjóðhagsstofnun verði eyrnamerktir lítils háttar fjármunir, ekki nein ósköp en ein millj. kr. þó til að hefja undirbúning að upptöku grænna þjóðhagsreikninga. (Gripið fram í: Vinstri grænna?) Það þarf ekki að hafa þá vinstri græna en það sakaði ekki, hv. þm., þó að þeir þjóðhagsreikningar væru alveg vinstri grænir en við mundum láta okkur nægja í bili að þeir væru grænir og það kemur til af því, herra forseti, að með öðrum þjóðum er undirbúningi víða langt komið og sums staðar er beinlínis farið að reikna þessa grænu þjóðhagsvísitölu út. Hún fylgir með hinni sem ekki tekur mið af umhverfisútgjöldum og kostnaði eins og hann er metinn af bestu manna yfirsýn og margir spá því að innan skamms tíma hverfi hinir gömlu þjóðhagsreikningar út úr myndinni og muni þykja forneskja innan 10--15 ára og eftir það detti engum mönnum í hug, a.m.k. í þeim löndum þar sem menn eru framsæknastir í þessum efnum, að sýna þjóðhagsreikninga, gera þjóðhagsspár, gera arðsemisútreikninga í atvinnulífinu eða þjóðlífinu almennt öðruvísi en þannig að þeir séu byggðir á þessum forsendum umhverfisins, að kostnaður sem því tengist sé rétt metinn eða reynt að meta hann og honum til haga haldið.

Reyndar skýt ég því að, herra forseti, að auðvitað getur Þjóðhagsstofnun og á að geta af eigin rammleik og/eða þess vegna ýmsar aðrar stofnanir unnið slíka vinnu án þess að það ætti að þurfa að leggja þeim sérstaklega til fé. En ég held að með slíku mundi Alþingi merkja sér það og senda þau skilaboð að beinlínis væri til þess ætlast að stofnunin sinnti slíku verkefni.

Í leiðinni hefði verið gaman að spyrja hæstv. fjmrh., ef hann hefði látið svo lítið að vera við umræðuna, hvað liði þeirri þáltill. sem mig minnir að hafi verið samþykkt eða í öllu falli vísað þá til ríkisstjórnar um að hafist skyldi handa um að undirbúa svonefnda kynslóðareikninga. Við fluttum um þetta tillögu, ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson, fyrir einum tveimur, þremur árum sem fékk afgreiðslu á þinginu og það var heldur vel í þetta tekið af þáv. hæstv. fjmrh., sem nú er í annarri vinnu eins og kunnugt er, en síðan hef ég eiginlega ekkert af þessu máli heyrt. Ég hefði gaman af að vita hvort eitthvað hefur miðað í þessum efnum. Ég hef að vísu ekki, herra forseti, fínkembt svo greinargerð fjárlagafrv. að ég þori að sverja fyrir það að ekki gæti verið eitthvað um þetta fjallað þar. Það var a.m.k. í greinargerð fjárlagafrv. fyrir u.þ.b. tveimur árum komið inn á það að fjmrn. væri svolítið að líta á þetta, reyndar í samstarfi við Hagfræðistofnun háskólans og fleiri aðila sem allt var hið besta mál. En ég held, herra forseti, að einnig að þessu leyti, til viðbótar hinum grænu þjóðhagsreikningum, væri áhugavert að sjá undirbúning á þessu sviði hvað varðaði einnig þetta, að við færum að reyna að átta okkur á þessu með uppstillingu svonefndra kynslóðareikninga, hvernig við værum á vegi stödd og hvert stefndi með stærstu breyturnar í þjóðarbúskap okkar og ríkisútgjöldum næstu 10--25 árin. Menn hafa verið að ræða mikið um að æskilegt væri að komast í að gera rammafjárlög til nokkurra ára og rúlla þeim á undan fjárlagagerðinni hverju sinni og nátengt því er sá hugsunarháttur að fara að reyna að átta sig á því t.d. hvert útgjöld mikilvægustu eða þyngstu málaflokkanna eru að þróast, hvert stefna þau næstu árin, t.d. hvað varðar útgjöld til almannatryggingakerfisins, hvað varðar útgjöld vegna vaxandi fjölda aldraðra, breyttrar aldurssamsetningar og slíkra hluta. Þetta var nú um, herra forseti, græna þjóðhagsreikninga og kynslóðareikninga.

Herra forseti. Má maður spyrja hvar hæstv. fjmrh. er? Hefur hann ekkert verið við umræðuna og er það ekki lenska lengur að fjmrh. láti sjá sig þegar rædd eru fjárlög? (Gripið fram í: Honum kemur þetta ekkert við.) Kemur honum þetta ekki við eða hvað? Eigum við kannski að biðja um kirkjumrh. frekar.

(Forseti (ÍGP): Forseti upplýsir að fjmrh. hefur verið í ráðuneyti sínu í dag og ég veit til þess að hann hefur fylgst með þessari umræðu en hins vegar er hann upptekinn í kvöld.)

Herra forseti. Það er ekki sá svipur á þessum hlutum sem ég hefði viljað hafa og verður hæstv. fjmrh. auðvitað að eiga það við sig, en það er allsérkennilegt að heyra hæstv. forseta upplýsa það úr forsetastóli að hæstv. fjmrh. hafi ekki svo mikið sem komið hér í hús í dag.

Ég minni þá næst, herra forseti, á brtt., tölul. 8, sem við flytjum á þskj. 353. Við leggjum til að horfið verði frá því að leggja fjármuni til upptöku Schengen-samningsins á Íslandi. Það er fróðlegt fyrir hv. þm., áhugamenn um það mál, að átta sig á því að leggja á, ef ég get lagt rétt saman, svo nemur skammt 400 þús. kr., frá 200 millj. í þetta fyrirtæki á næsta ári. Þetta á að kosta okkur 200 millj. mínus 400 þús. kr. Það nú er það. Það væri hægt að nota þá peninga í ýmislegt, þeir kæmu sér víða vel. (Gripið fram í: Í hestamennsku.) Það væri hægt að reisa margar hestamiðstöðvar fyrir það. Það væri líka hægt að hækka t.d. um 199 millj. og 600 þús. framlög Íslendinga til þróunaraðstoðar. Það væri prýðileg ráðstöfun. Það væri smáreisn yfir því að við létum örlitla sneið af góðæriskökunni okkar renna í þá átt og bættum í það sem þó hefur aðeins verið að mjakast upp á við þar síðustu árin. Nei, staðreyndin er sú, herra forseti, að þó að menn séu að reyna að segja að þetta sé bara stofnkostnaður og svo verði þetta meira og minna ókeypis í framtíðinni, þá er ég a.m.k. sannfærður um að menn eru þarna að taka á sig miklu meiri útgjöld en þeir hafa gert sér grein fyrir og það til frambúðar. Þessi pinkill á eftir að síga í á komandi árum ef menn ætla að drösla þessum Schengen-samningi upp á hrygginn á sér. Ég held að menn ættu bara að láta það ógert, a.m.k. væri að mínu mati lágmark að fresta því um sinn að fullgilda samninginn eða semja um að fá lengri frest til að taka hann upp þannig að við gætum skoðað okkur aðeins um bekki í þessum efnum og velt því betur fyrir okkur í rólegheitum og af yfirvegun hvort þetta sé mjög skynsamleg ráðstöfun. Ég held að ekki liggi á að þjösnast áfram með þetta eins og hæstv. utanrrh. öllum öðrum mönnum fremur hefur verið að knýja á um að undanförnu.

Þá geri ég næst, herra forseti, að umtalsefni 11. tölul. brtt., þ.e. fjárveitingar til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Þar er aldeilis ekki góðærinu fyrir að fara. Þar er eitthvað annað upp á teningnum. Þar er farið harkalegar með Framkvæmdasjóð fatlaðra en líklega nokkurn tíma fyrr. Það eru ekki mörg ár síðan sá sérmerkti tekjustofn rann heill og óskiptur til uppbyggingar í þeim málaflokki. Svo fóru menn fyrir allmörgum árum, ég man ekki nákvæmlega hvenær það var, að byrja að krukka í sjóðinn með þeim rökum að þetta ætti bara að fara í rekstur, það ætti að taka pínulítið af hinum sérmerkta tekjustofni í rekstur. Nú er svo komið að mikill minni hluti af hinum sérmerktu tekjum renna til þeirra verkefna sem lögin standa til og ætlunin var, þ.e. til uppbyggingar og úrbóta í málefnum fatlaðra. Það er ekki vegna þess að þörfin hafi gufað upp. Það er ekki vegna þess að ekki sé æpandi vöntun víða á úrræðum í þessum málaflokki því svo er. Nei, það er ósköp einfaldlega vegna þess að menn telja sig ekki hafa efni á því að gera betur og það er dapurlegt úr því að menn gátu þetta við aðrar og erfiðari aðstæður í ríkisfjármálum á umliðnum árum að láta tekjustofninn renna heilan og óskiptan til þess sem hann er hugsaður til. Við leggjum því til að þessi skerðing verði felld niður og tekjustofninn renni heill og óskiptur í Framkvæmdasjóð fatlaðra en fari ekki í ríkissjóð og það verði þar af leiðandi hægt að hefja nýtt átak til uppbyggingar og úrbóta í þessum málum.

Vissulega var lyft grettistaki eftir að sjóðurinn kom til sögunnar og okkur miðaði býsna vel áfram að ýmsu leyti í málefnum fatlaðra á fyrstu árunum þar á eftir. En síðan hefur smátt og smátt verið að draga úr þessu þróttinn og það er harla dapurlegt.

Margt fleira mætti þar, herra forseti, til nefna sem ekki er sem skyldi í þeim málaflokki og þjóðarbúinu, þessu ríka þjóðfélagi, ekki til sérstaks sóma hvernig ýmsum þáttum sem varða málefni og hag fatlaðra er háttað hér í landi. Það er t.d. alveg með ólíkindum hve seint gengur að bæta aðgengismál á Íslandi. Við erum langt, langt á eftir í þeim efnum borið saman við hin Norðurlöndin og ætti ræðumaður að geta sæmilega um það borið því að ég gegni formennsku í Norræna ráðinu um málefni fatlaðra og hef haft ágætis aðstæður til að bera þetta saman og skoða undanfarin tvö ár. Sama mætti segja um ýmsa hluti sem varða fræðslumál og félagsmál fatlaðra. Þar er skammarlega að verki staðið. Það starf býr víða bæði við óviðunandi fjárveitingar og húsakost og er í raun og veru tæpast til nema á fáeinum stöðum á landinu, t.d. skipulagt starf að fullorðinsfræðslu fatlaðra.

Að lokum, herra forseti, leggjum við til að sparað verði í öðrum lið fyrir utan þann sem ég nefndi um Schengen, að þar væri handhæg aðgerð að spara tæpar 200 millj. kr. með því að hætta við að eyða í það fé á næsta ári að taka upp þann samning og á ég þá ekki við þá fjármuni sem eiga að fara til byggingar flugstöðvar í Keflavík. Það er aðskilið mál. En í viðskrn. þar sem hæstv. iðn.- og viðskrh. er húsbóndi, og við vorum að ræða við áðan, fyrr í dag og í gær um bankamál, þá hefur hann hugsað sér að ráðstafa 21 millj. kr. á næsta ári í sérstakt hugarfóstur sitt sem eru alþjóðleg viðskiptafélög. Viðskrn. ætlar að gerast sérstakur áróðurskontór fyrir þetta fyrirbæri á næsta ári og moka í það fé. Það er mjög sérkennilegt í raun og veru, herra forseti, hvernig íslenska iðn.- og viðskrn. hefur oft og iðulega tekið að sér að vera eins konar áróðurskontór fyrir ákveðin mál. Iðn.- og viðskrn. hefur t.d. lengi rekið í samstarfi við hagsmunaaðila sérstakt trúboð fyrir stóriðju og orkuútsölu frá Íslandi með misjöfnum árangri eins og kunnugt er, en þó að vísu því miður allt of góðum í vissum tilvikum því að iðnrn. hefur tekist þetta ætlunarverk sitt að koma íslenskri orku í lóg á útsöluverðum. Fræg er útgáfa ráðuneytisins og markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar fyrir nokkrum árum þegar gefinn var út skrautritaður bæklingur þar sem aðalslagorðin voru lægsta orkuverð í Evrópu. Það var sérstaklega auglýst hvað væri hægt að komast í ódýra orku á Íslandi á niðursettu verði. Það var þessi áróðurskontór markaðsskrifstofu iðnrn. Nú ætlar viðskrh. að setja upp nýjan slíkan kontór, nýjan klúbb til að reka áróður fyrir alþjóðlegum viðskiptafélögum. Það eru skúffufyrirtæki af ýmsum toga og alls konar æfingar í atvinnurekstri í heiminum þar sem menn eru að reyna að hlaupa landa og heimsálfa á milli til að losna undan því að borga skatta. Karíbahafið og ýmsar eyjar við Ermarsundið og fleiri slíkar hafa gjarnan verið vinsælar í þessu skyni.

[21:45]

Ýmsir menn á Íslandi, vonandi þó ekki hæstv. landbrh., eiga sér þá hugsjón að gera Ísland að skattasmugu þar sem fyrirtæki, sum með býsna vafasamt orðspor, geti fengið að skrá sig og vera til heimilis fyrir lítið. Í þetta þjóðþrifamál ætlar varaformaður Framsfl., hæstv. iðn.- og viðskrh., að verja 21 millj. Hæstv. ráðherra hefur ekki efni á því að halda úti þeim litlu framkvæmdum sem þó voru til að styrkja dreifikerfi raforku í sveitum. Nei, það verður að skera það niður um 50 millj. En það eru lausir peningar í að reka áróður og halda úti trúboði fyrir alþjóðlegum viðskiptafélögum.

Íslendingar þekkja þannig fyrirbæri. T.d. hafa útgerðarmenn þurft að notast við sambærilegt fyrirkomulag þegar þeir eru að skrá skip sín á erlenda fána. Það vill svo til að af vissum ástæðum þekkir ræðumaður m.a. fyrirkomulagið sem hefur verið á slíku hjá ákveðnum smáríkjum í Karíbahafinu. Þegar ég kynntist óvænt þessum málum einu sinni þá var það þannig að það var karl í Hamborg með skúffu. Þangað fóru menn og hittu karlinn. Hann dró út skúffuna og þar voru miklir pappírar, stimplar og fínirí. Þetta var tekið upp á borðið, karlinum borgaður svolítill peningur og hann fór á loft með stimplana, stimplaði og þá var búið að vista fyrirtækið á nýju heimilisfangi í nýju landi. Fljótgert. Þannig var það. Sjá menn fyrir sér að framtíðin eigi að vera þannig hjá okkur? Ég hef ekki sérstaka samúð með því að ráðstafa fé almennings í þetta nýja hugsjónamál framsóknarmanna, að selja Ísland sem skattasmugu. Það er sérkennilegt að menn sem telja sig öllum öðrum framsýnni og nútímalegri, eins og framsóknarmenn um þessar stundir, standi í þessu á sama tíma og á alþjóðavettvangi er verið að reyna að koma á samstarfi um að loka þessum smugum. Bæði Alþjóðaviðskiptastofnunin og Efnahags- og framfarastofnunin OECD hafa haldið úti starfi til að reyna að fá aðildarríki til þátttöku í að loka þessum smugum.

Herra forseti. Þá ætla ég aðeins að nefna hér brtt. á þskj. 352, það er 2. tölul. þeirrar brtt., við lið 04-805 Greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu. Við leggjum til, herra forseti, að bætt verði 250 millj. kr. við og það kallað Stuðningur við sauðfjárbændur. Auðvitað er þessi tala allt of lág en hún er þó a.m.k. viðleitni í þá átt að reyna að mæta þeim ógnvænlegu aðstæðum sem þessi stétt manna stendur núna frammi fyrir. Sauðfjárbændur hafa orðið fyrir gríðarlegu tekjufalli á milli ára og ég hlýt að spyrja: Ætla menn virkilega að loka þannig fjárlögunum og fara heim í jólaleyfi að ekki verði a.m.k. sýndur litur til að koma til móts við þessa stétt? Hvað sem hver segir þá blasir við að þarna er víða á ferðinni allt upp í 40% tekjufall, eins og ég hef dæmi um, vegna þess að það hefur orðið algert verðhrun á ull og gærum, menn hafa orðið að taka á sig stóraukinn útflutning og verð hefur lækkað. Ég held að einfaldasta leiðin væri að greiða þessa peninga og þó miklu meira væri, beint til framleiðendanna. Það væri t.d. hægt með þeim einfalda hætti að setja þetta inn að verulegu leyti sem niðurgreiðslur á gærum því að þær þurfa þeir allir að losna við. Það mundi skila sér beint til bænda en verðhrun þar hefur ekki síst bitnað þungt á tekjum bænda.

Við erum sem sagt, herra forseti, til samkomulags um að hækka þennan lið ef vilji væri til þess hjá stjórnarliðinu, jafnvel betur en er í okkar brtt. Það væri þó alla vega til að sýna að hugur okkar stendur til að gera þarna betur.

Loks leggjum við til á þskj. 352, í 4. tölul. brtt. á því þingskjali, að liður sem ég reyndar nefndi áðan í öðru samhengi, Ýmis orkumál, styrking dreifikerfis í sveitum, verði hækkaður myndarlega eða um 200 millj. kr. Þannig yrðu þar til ráðstöfunar 281 millj. í staðinn fyrir það smáræði og skítti sem þar stendur eftir eftir niðurskurðarhugmyndir ríkisstjórnarinnar, 81 millj. kr.

Það er sérstaklega skammarlegt, herra forseti, að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir skuli ráðast svona á þennan lið þegar haft er í huga að þetta er sjálfstæður tekjustofn sem samkomulag var gert um að rynni til að styrkja dreifikerfi raforku í sveitum, þ.e. að drjúgum hluta af tekjuafgangi eða arði Rafmagnsveitna ríkisins yrði á hverju ári ráðstafað í þetta verkefni. Um það var samið. Um það var gert samkomulag við Rafmagnsveitur ríkisins þegar þær tóku á sig skuldbindingar um arðgreiðslur, að þá yrði drjúgum hluta fjármunanna varið, augljóslega í þágu fyrirtækisins í leiðinni, til að styrkja dreifikerfið sem það selur um orku sína.

Nú vita menn, herra forseti, að þetta stendur mönnum meinlega fyrir þrifum, t.d. við uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Þetta er eitt af því sem vefst verulega fyrir mönnum og veldur stórauknum kostnaði þegar þeir eru að byggja upp ferðaþjónustu í sveitum og víðar í dreifbýlinu, þ.e. að þar er ekki þriggja fasa rafmagn. Þar af leiðandi er bæði dýrara og erfiðara að byggja þar upp nútímalega aðstöðu með nútímalegum tækjum.

Ég vona, herra forseti, að við þurfum ekki að standa frammi fyrir því við 3. umr. og eftir afgreiðslu fjárlaganna að þetta verði eins hraksmánarlegt og stjórnarflokkarnir lögðu upphaflega til í sínu fjárlagafrv. Við skulum bíða og sjá en við leggjum a.m.k. til, herra forseti, að þetta verði hækkað myndarlega.

Herra forseti. Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni hef ég þá ónotalegu tilfinningu að ræða um afgreiðslu fjárlagafrv. í þeim anda sem að einhverju leyti hefur svifið yfir vötnunum nokkur síðustu árin í síðasta sinn. Vera kann að það kveðji með öldinni að menn geti af mikilli bjartsýni talið sér trú um að við búum við mikið góðæri og jafnbjartir tímar séu fram undan. Því miður hef ég ekki þá tilfinningu að sú verði staðan hér að ári liðnu. Ég segi það ekki vegna þess að mig langi til að hafa hér uppi hrakspár. Ég met hlutina þannig að við séum einmitt að komast að því ferli sem jafnan er erfiðast, þegar tekjurnar fara að lækka en útgjöldin halda áfram að aukast. Það gera þau og munu væntanlega gera á næsta ári. Allt bendir til þess að sú útgjaldaþensla sem við stöndum frammi fyrir og veldur m.a. því að fjáraukalög og fjárlagafrv. taka breytingum upp á við svo nemur milljörðum kr. muni ekki gufa upp eins og dögg fyrir sólu. Það er mikið í pípunum í þeim efnum. Það er enginn vafi á því og ég þykist vita að hv. þm. Jón Kristjánsson, sem hefur stúderað þetta allra manna mest, sé mér sammála um það. Þar er enn heilmikið í pípunum. Tekjurnar gætu farið að falla og um leið og slær á innflutninginn, viðskiptahallann, þá byrjar ríkissjóður að missa spón úr aski sínum.

Því miður eru ýmis teikn á lofti um að sjálfur lókómótorinn, sjávarútvegurinn, muni eiga í vaxandi erfiðleikum með að skila sínu inn í þjóðarbúið á næsta ári. Það þarf svo sem engar getgátur að hafa uppi um það. Það er ljóst að loðnu- og síldarvertíð á sumrin og haustin hafa meira og minna brugðist. Þar þarf verulega að rætast úr og má ekki dragast lengi ef þess á ekki að sjá stað í mjög alvarlegu tekjufalli í þeirri grein. Hún er jú mikilvæg fyrir fjölmörg stærstu útvegsfyrirtæki landsins.

Fleiri greinar sjávarútvegsins búa við ótryggar aðstæður og þó að menn geti huggað sig við vonina um stækkandi þorskstofn, sem að vísu er deilt um hversu áreiðanlegt sé eins og við heyrðum í gær, þá er ekki víst að það dugi til að vega upp á móti hinu sem er heldur niður á við. Þar má nefna veiðarnar í úthafinu. Það er augljóst að við munum sækja minni verðmæti á djúpmiðin á næsta ári vegna niðurskurðar aflaheimilda á Flæmska hattinum og vegna stórminnkaðs kvóta í Smugunni og ekki verður um aukningu að ræða að neinu marki annars staðar þar sem menn hafa reynt fyrir sér.

Því miður, herra forseti, óttast ég að þær raunir sem menn munu standa frammi fyrir þegar þeir fara að berja saman fjárlög að ári geti orðið býsna þungar. Þá lækkar kannski svolítið gorgeirinn í þeim sem telja sig hafa höndlað hamingjuna varanlega, telja sig vera áskrifendur að eilífu góðæri og eigna sér ofan í kaupið sjálfir með snilld sinni í hagstjórn allan heiðurinn af því. Út af fyrir sig er léttbært að pexa um hvað sé hverjum að þakka meðan vel árar. Ef svo gerir sannanlega, þá er það gott og stendur fyrir sínu. Menn mega eigna sér það alveg eins og þeir mögulega lífsins geta mín vegna. En hitt er alvarlegra ef innstæðurnar reynast ekki fyrir hendi, hv. þm. Hjálmar Jónsson.

Nú sé ég að hv. þm. Hjálmari Jónssyni er orðið mjög órótt, herra forseti. Ég er að hugsa um að fara héðan úr ræðustólnum, ganga til hans, klappa á öxlina á honum og reyna að róa hann niður.

(Forseti (ÍGP): Forseti upplýsir að hingað hafa borist upplýsingar um að hæstv. fjmrh. er lasinn.)