Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 22:00:03 (2762)

1999-12-10 22:00:03# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[22:00]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það sé rétt hjá hv. þm. að við eigum eftir að ræða stóriðjumálin eitthvað svolítið síðar.

Ég tók nú svona til orða, herra forseti, að menn væru stundum að ljúga saman fjárlögunum með því að fikta við tekjupóstana við 3. umr. og það geta menn auðvitað gert á báða bóga. Það er ljóst. En ég held að allir kannist við það að menn eru stundum pínulítið að reyna að ná þessu saman með því að víkja hlutunum þannig til að þetta passi í lokin. Það hljóta fleiri en sá sem hér stendur að hafa upplifað með einhverjum hætti, trúi ég, af reyndum mönnum. Þetta var í beinu framhaldi af orðum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem komst svo snilldarlega að orði að ýmsar aðferðir væru til þess að auka tekjur ríkissjóðs og allir skildu það þannig að menn skyldu bara bíða 3. umr.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni að menn hafa auðvitað rætt um það undanfarin tvö, þrjú ár hvort þeir væru að vanmeta mögulega tekjuaukningu ríkissjóðs, ósköp einfaldlega vegna þess að þeir vissu að uppsveiflan var nokkur og við þær aðstæður er auðvitað alveg laukrétt að það getur verið ákveðin tilhneiging til þess að vanmeta tekjurnar. Ef hagvöxtur, innflutningur og eyðsluskattar ríkissjóðs, tekjur ríkissjóðs af eyðslu í landinu eru að vaxa milli ára, þá getur gætt ákveðins vanmats þegar menn meta þessa hluti út frá tekjum liðins árs. Það hefur sýnt sig að nokkru leyti að oftast, því miður, reynast útgjöldin elta slíkan tekjuauka uppi og stundum jafnvel rúmlega það þannig að ég held að það afsanni ekkert um það sem menn gætu verið að gera hér í þessu tilviki.

Ég get ekkert annað sagt en að mér finnast þessar byggðatillögur vera hálfkák og mér eru það vonbrigði að ekki skuli vera reynt að gera myndarlegar í þeim efnum. Það er bara mitt mat á stöðunni. Ég er kannski of kröfuharður, en þá verður að hafa það.