Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 22:04:21 (2765)

1999-12-10 22:04:21# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[22:04]

Árni Johnsen (andsvar):

Herra forseti. Það eru viðtekin og venjuleg vinnubrögð að endurskoða tekjuspá fjárlaga fyrir 3. umr. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kallaði það að ljúga saman fjárlög að vinna á þann hátt. Það fer ekki hv. þm. vel að vera í hlutverki lambsins enda hefur hann hvorki ytra né innra útlit til þess.

Í lokagerð fjárlaga í september er tekjuspáin metin. Fjárlögin eru lögð fram í október og endurskoðun tekjuliðar í heild í meðförum fjárln. og frv. alls er á þriggja mánaða tímabili.

Í góðæri má vænta hækkunar á tekjulið fjárlaga fyrir 3. umr. Hitt er að tekjuspáin við framlagningu fjárlagafrv. undanfarin ár hefur verið mjög varfærin og líklega varfærnari en ástæða er til miðað við hve fjárlög í heild hafa gengið eftir í flestum þáttum með sterkri fjármálastjórn ríkisstjórna Davíðs Oddssonar eða þess áratugar sem senn er á enda.

Undanfarin ár hefur tekjuhliðin hækkað verulega fyrir 3. umr. Ég sé í sjálfu sér engin hyggindi í að hafa þann takt á. Menn læra strax hrópið: ,,Úlfur, úlfur!`` Þess vegna er mikilvægt að hlutirnir liggi fyrir eins réttir og nákvæmir á hverjum tíma og unnt er. Það hefur því kannski verið of mikið bil á milli tekjuspár við framlagningu frv. og við lokaafgreiðslu. Engu að síður hefur tekjuspáin við afgreiðslu fjárlaga gengið fram sl. ár, og það skiptir mestu máli. Þetta geta menn ekki kallað að ljúga saman fjárlög. Þetta er að meta stöðu á eðlilegan hátt.