Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 22:11:44 (2770)

1999-12-10 22:11:44# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[22:11]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur verið að taka stjórnarandstæðinga upp og prófa þá í nál. minni hlutans. Hv. þm. hefur voðalega gaman af því að reyna að reka menn á gat í því og reyna að leiða fram einhverjar mótsagnir í afstöðu manna.

Auðvitað er útgjaldaaukningin mönnum áhyggjuefni og það er eðlilegt. En það geta verið skýringar fyrir ýmsum þáttum hennar og það var það sem ég var að fara yfir í heilbrigðiskerfinu að mörg af þeim vandamálum sem þar væri við að glíma ættu ekki að þurfa að koma mönnum á óvart og ég held að við stjórnarandstæðingar séum alveg sammála um að margt af því hefur legið fyrir.

Hv. þm. spyr hvort ég sé tilbúinn til að taka upp flata skattahækkun. (Gripið fram í.) Nei, helst ekki. Ég vildi helst gera þetta öðruvísi. Ég vildi reyna t.d. að dreifa skattbyrðinni að einhverju leyti öðruvísi en bara þannig að bakka prósentunni upp flatt yfir alla línuna. Margar fleiri leiðir geta komið þarna til greina, t.d. viðbótarþrep í tekjuskattinum og svo eru það fleiri en launamenn sem hafa fengið lækkun á sínum sköttum. Fyrirtækin sem eru að hirða miklar tekjur inn í hagnað núna hafa t.d. fengið miklar skattalækkanir á skömmum tíma. Ég held að menn hafi gengið þar of langt. Það væri engin goðgá að taka þar eitthvað til baka af hagnaðinum.

Ég held að fjármagnstekjuskatturinn gæti skilað meiru. Hann var að hluta til stórfelld gjöf til hlutafjáreigenda í landinu því að menn notuðu tækifærið undir því yfirskyni að verið væri að taka upp fjármagnstekjuskatt upp á 10%, og lækkuðu skattlagningu á öðrum þáttum fjármagnseigenda úr venjulegum skattprósentum niður í 10% og það var kannski einhver stærsta gjöf síðari ára sem nokkur einstakur hópur hefur fengið. Ég er ekkert síður, herra forseti og hv. þm., að vísa til þess að ýmsa slíka hluti er hægt að gera og ég bendi hv. þm. á brtt. okkar um tekjuöflun upp á rúmar 2.000 millj. kr.