Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 23:17:57 (2775)

1999-12-10 23:17:57# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[23:17]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 15. þm. Reykv. fyrir ræðuna. Ég get verið sammála mörgu sem hún sagði en ég vil láta örfá atriði koma fram.

Í fyrsta lagi að það komi fram varðandi bæturnar að einmitt í þeim fjáraukalögum sem við vorum að takast á um núna fyrir nokkrum dögum voru ákvæði til hækkunar bóta. Mér er kunnugt um að gera þarf betur en eigi að síður vil ég undirstrika að áform eru hjá ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum um að skoða það bótakerfi sem við búum við. Margumtöluð bók Stefáns Ólafssonar er mjög gott innlegg í það mál. Teknir eru þar bæði kostir og gallar á velferðarkerfi okkar og það er fagnaðarefni að sú bók er komin út og öll sú vandaða upplýsingaöflun sem þar er. Ég vil undirstrika að þar er tekið fram að við höfum að mörgu leyti góðan grunn til þess að eiga við þessi mál, m.a. lífeyrissjóðakerfið sem við höfum byggt upp og mun koma af vaxandi þunga inn í þessi mál á næstu árum. Meðan svo er ekki þá þurfum við auðvitað að endurskoða nokkra þætti. Mér er fagnaðarefni að við erum sammála um að afnema ekki tekjuskerðingar á launahæsta fólkið. Ég er sammála hv. þm. í því.