Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 23:19:55 (2776)

1999-12-10 23:19:55# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[23:19]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Kristjánssyni, formanni fjárln., fyrir innlegg hans í umræðuna og viðbrögðin við ræðu minni.

Vissulega hefur það ekki farið fram hjá mér að tillögur voru um hækkun bóta í fjáraukalögunum en ríkisstjórninni ber að hækka bætur samkvæmt lögum. Það er í almannatryggingalögunum að hækka beri bætur.

Ég spyr hv. þm., formann fjárln.: Hversu mikið ætlar hann að hækka lífeyrisgreiðslur almannatrygginga núna í kjölfar launahækkana á vinnumarkaði? Hversu mikið verða bætur almannatrygginga hækkaðar? Verður það eitthvað meira en það lágmark sem er í lögunum? Ég ætla að vona að svo verði. En það væri fróðlegt að fá það gefið upp í umræðunni hversu mikið bætur almannatrygginga munu hækka?

Vissulega bendir Stefán Ólafsson á kosti og galla kerfisins og það er gott að menn ætla að læra af því og ætla að gera eitthvað. En ég vildi gjarnan fá að sjá fljótt að eitthvað verði gert því að við erum komin með mjög mikilvægar upplýsingar, bæði í þessari úttekt og víðar sem geta hjálpað okkur við að leiðrétta kerfið.

Ég minni hv. þm. á að þó að lífeyrissjóðakerfið okkar sé gott og muni taka yfir stóran hluta lífeyristrygginganna, þá er þarna stór hópur sem fær aldrei úr lífeyrissjóðakerfinu. Það er bara því miður þannig í samfélaginu. Þar er fólk sem aldrei getur farið út á vinnumarkað og mun aldrei fá nokkrar vinnutekjur. Þessum hópi verðum við auðvitað að koma til hjálpar, þetta fólk verður að fá sinn stuðning úr velferðarkerfinu. Við getum ekki alltaf ætlað því algjörlega botninn.