Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 23:24:18 (2778)

1999-12-10 23:24:18# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[23:24]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. þessi svör. En er það raunverulega svo að ríkisstjórnin og heilbrrh. og þeir sem vinna að fjárlagagerðinni hafi ekki enn þá gert það upp við sig hversu mikla kjarabót lífeyrisþegar eiga að fá á næstunni umfram það sem er lögbundið? Er það virkilega svo að við göngum frá fjárlögum án þess að búið sé að gera það upp í ríkisstjórninni hvort menn ætla að hækka lífeyrisgreiðslurnar um 3% eða meira? Ég trúi bara ekki mínum eigin eyrum, herra forseti, að menn hafi ekki glóru um það hvernig þeir ætli að hækka og bæta kjör lífeyrisþega.

Það eru nú reyndar ekki bara lífeyrisþegar sem þurfa meira, það eru líka sjúklingarnir eins og margoft hefur verið bent á og tillögur liggja hér fyrir um.

Það er dálítið þreytandi, herra forseti, þegar alltaf er verið að skoða málin. Vissulega þarf að skoða ýmislegt en það er búið að gera það ansi lengi. Búið er að skoða þessi lífeyrismál og almannatryggingarnar í 30 ár. Menn hljóta að vera búnir að sjá hvar pottur er brotinn. Sérstaklega þegar búið er að gera faglegar úttektir á því að þá ættu menn að vita hvar þeir þurfa að grípa inn í og hvernig þeir þurfa að laga til svo velferðarkerfið standi undir nafni.

Ég verð að segja það, herra forseti, ég er orðin ansi óþreyjufull fyrir hönd þessa fólks. Mér finnst óþolandi að það skuli vera fólk í samfélaginu sem fær ekki almennilegar kjarabætur þegar við sjáum hvað aðrir eru að fá. Þetta er fólk sem býr við fátækt.