Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 23:28:36 (2780)

1999-12-10 23:28:36# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[23:28]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg fullvissað hv. þm. um það að ég dreg ekki fram dekkstu myndirnar vegna þess að mér finnst ekki smekklegt að koma með þær hérna. Þær eru þannig.

Aftur á móti dreg ég fram raunveruleg, sönn dæmi um hvernig fólk hefur það. Þetta eru ekki tilbúin dæmi sem ég nefni, þetta eru staðreyndir. Því miður er þetta raunveruleikinn.

Aftur á móti er alveg rétt hjá hv. þm. að auðvitað er til fólk sem hefur það bara ansi gott og það er fullt af öldruðum sem eru sterkefnaðir. (ÍGP: ... meginþorri landsmanna er ... ) Ég er að tala um lífeyrisþega, hv. þm. Það eru auðvitað sterkefnaðir aldraðir til. En það eru líka til bláfátækir aldraðir. Það er fólkið sem ég er búin að vera benda á sem á ekki rétt í neinum lífeyrissjóðum, sem þarf að lifa á strípuðum almannatryggingagreiðslunum sem eru 45 þús. kr. á mánuði, hv. þm., fyrir þann sem býr einn og 67 þús. kr. fyrir þann sem býr með öðrum. Og reikni nú hv. þm. hvernig honum tækist nú að framfæra sér á þeim greiðslum á mánuði, hvað þá ef hann ætlaði nú að gera sér dagamun. Þetta fólk fer ekki á veitingastaði, í bíó eða leikhús. Það er alveg greinilegt. Það er þetta fólk sem ég er að tala um, hv. þm., vegna þess að það eru allt of margir í þeim hópi og við eigum auðvitað ekkert að líða það og sérstaklega ekki í góðæri, hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason. Í góðæri eigum við að taka á þessum málum og lyfta gólfinu upp svo að aldraðir og öryrkjar séu ekki undir fátæktarmörkum, undir framfærslumörkum, eins og því miður er í dag.

Varðandi Danmörku þá hefur nú ástandið aldeilis versnað frá því að ég var að bera þetta saman fyrir fimm árum ef það er svo að það er ekki verra hér en í Danmörku.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill minna hv. þm. á að samkvæmt þingsköpum má ekki ávarpa einstaka þingmenn.)