Fjárlög 2000

Mánudaginn 13. desember 1999, kl. 12:03:16 (2826)

1999-12-13 12:03:16# 125. lþ. 43.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, EMS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 125. lþ.

[12:03]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Í upphafi atkvæðagreiðslu vil ég fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar segja eftirfarandi:

Hér hefur ríkisstjórnin lagt fram sína pólitísku stefnu í efnahagsmálum með því fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir. Það er því á ábyrgð ríkisstjórnarmeirihlutans sem afgreiðslan fer fram í dag. Eðlilega er sums staðar í tillögum stjórnarmeirihlutans að finna góðar tillögur. Hins vegar ber frv. og brtt. þess einkenni að um þenslufjárlög er að ræða. Með fjáraukalögum og fjárlögum eru lagðar til um 12 milljarða kr. aukafjárveitingar og þetta gerist á sama tíma og gríðarleg þensla er í þjóðfélaginu. Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun hafa lagt mikla áherslu á að fjárlögum verði beitt til þess að draga úr þeirri þenslu. Undir forustu Sjálfstfl. fer ríkisstjórnin þveröfuga leið.

Herra forseti. Enn vantar tekjuhlið frv. Við þingmenn Samfylkingarinnar munum því sitja hjá við þær tillögur sem hér liggja fyrir.