Lokaafgreiðsla fjárlaga og fjáraukalaga

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 13:41:53 (2861)

1999-12-14 13:41:53# 125. lþ. 45.91 fundur 215#B lokaafgreiðsla fjárlaga og fjáraukalaga# (aths. um störf þingsins), EMS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[13:41]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni um störf fjárln. Það er auðvitað upplifun fyrir okkur sem störfum þar í fyrsta skipti að sjá hvernig unnið er að tekju\-áætlun frv. Við sátum marga fundi í nefndinni í gær þar sem fulltrúar úr fjmrn. komu og smátíndu í okkur þessa merku tekjuáætlun. Hún breyttist jafnvel um nokkra milljarða frá morgni og fram yfir hádegi. Síðan var fundum frestað fram eftir kvöldi meðan meiri hlutinn réði ráðum sínum eða safnaði gögnum úr fjmrn. eða annars staðar að. Síðan vorum við á fundi í morgun sem átti að vera lokafundur til að afgreiða fjárlög út úr nefndinni en enn þurfti að fresta fundi, m.a. vegna þess að umsögn efh.- og viðskn. vantaði og jafnframt virtist okkur að meiri hlutinn hefði ekki lokið störfum sínum.

Herra forseti. Það er afar mikilvægt að fram komi að aldrei í þessu ferli hefur staðið á minni hlutanum að sinna þessum störfum. Minni hlutinn mun að sjálfsögðu halda áfram að sinna störfum sínum þannig að hægt sé að standa við áætlanir. Ég vil hins vegar taka undir með hv. þm. Jóni Kristjánssyni. Það er nauðsynlegt að gert verði hlé hér á þingfundi þannig að meiri hlutinn í fjárln. geti lokið störfum sínum. Okkur vantar umsögn efh.- og viðskn. þannig að við getum tekið fjárlagafrv. út úr nefndinni og í kjölfarið hafið 3. umr. um fjárlög.

Hins vegar er ljóst, eins og fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að forstjóri Þjóðhagsstofnunar sat á fundi með fjárln. í morgun til að gefa skýringar á þeirri tekjuáætlun sem við höfum fengið frá fjmrn. Við erum hins vegar bundin trúnaði fram yfir klukkan 4 í dag til þess að ræða þau mál. Þess vegna, herra forseti, m.a. ítreka ég ósk mína og tek undir ósk formanns fjárln., hv. þm. Jóns Kristjánssonar, um að fundi verði frestað til að ljúka megi þessum störfum sómasamlega.