Lokaafgreiðsla fjárlaga og fjáraukalaga

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 13:49:55 (2866)

1999-12-14 13:49:55# 125. lþ. 45.91 fundur 215#B lokaafgreiðsla fjárlaga og fjáraukalaga# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[13:49]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það mátti heyra ákaflega sérkennilega skýringu af hálfu varaformanns fjárln., hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, á hlutverki efh.- og viðskn. við yfirferð og mat á tekjuhlið fjárlagafrv. Hann leit á það sem formsatriði að þessi sérfræðinefnd þingsins færi yfir málið og gæfi sitt álit til fjárln. Það er auðvitað langtum meira en formsatriði heldur er að því gengið og við það miðað í þingsköpum að þessi sérfræðinefnd þingsins fari yfir málið til að fjárln. gæti fengið það álit og yfirfarið og lagt mat sitt á grundvelli þess. Hér er alger misskilningur á ferðinni og ég undrast að hv. þm. skuli ekki vita betur hafandi verið lykilmaður í hv. efh.- og viðskn.

Í annan stað er auðvitað fagnaðarefni að menn hafi metnað til þess að halda sig við þingsköp og starfsreglur þingsins. Á hinn bóginn hélt ég að það væri metnaðarefni líka fyrir hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmeirihluta að menn vönduðu vinnubrögð ekki síst í ljósi þess að tekjuhlið fjárlaga yfirstandi árs gefur til kynna að það væri ástæða til þess að menn vektu yfir því og vönduðu það verklag fyrir það ár sem fer í hönd þannig að þær forsendur stæðust þegar til kastanna kemur en afgreiddu þetta ekki með vinstri hendi án þess að fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir.

Ég var viðstaddur á fundi fjárln. sem staðgengill Össurar Skarphéðinssonar í gærkvöld og einnig í morgun og ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst málið af hálfu meiri hluta nefndarinnar langt í frá fullfrágengið. Ýmsir lausir endar eru enn til staðar sem meiri hlutinn á eftir að hnýta, hvað þá að nauðsynlegar upplýsingar til handa minni hlutanum liggja allar skýrar fyrir. Mikið vantar upp á að málið sé hér þingtækt þó að það geti verið það að forminu til. Efnislega er það algerlega vanbúið og ber að fresta því a.m.k. um heilan sólarhring að taka það til umræðu á hinu háa Alþingi.