Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 16:53:10 (2879)

1999-12-14 16:53:10# 125. lþ. 45.1 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[16:53]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Ég harma þessi viðbrögð hæstv. forseta. Ég fékk ekkert svar við spurningu minni. Ég ber hana því fram aftur: Hvað eiga þeir þingmenn að gera sem vilja hvort tveggja vera viðstaddir þessa umræðu og skila af sér áliti til fjárln. sem óskað hefur verið eftir hið fyrsta? Hvað eiga þeir að gera, herra forseti? Við hvaða aðstæður vill hæstv. forseti að menn vinni störf sín hér í þinginu?

Mér þykir miður að forseti skuli ekki sjá sér fært með einhverjum hætti að skipuleggja þingstörfin á þessum klukkutímum þannig að a.m.k. sé eitthvert tillit tekið til óska af þessu tagi, þó ekki væri nema lengra hlé um kvöldmatarleytið. Slík viðleitni af hálfu forseta væri þó a.m.k. vottur um að minnsti vilji væri til að koma til móts við óskir þingmanna. Hins vegar er hægt að gefa hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur orðið hvenær sem er ef hv. þm. liggur mikið á hjarta.

Ég ber þessar spurningar fyrir forseta og tel að þær séu réttmætar. Ég tel engin rök hafa komið fram hjá forseta sem hreki að slíkar aðstæður séu í þinghaldinu í dag. Þar er ekki við okkur stjórnarandstæðinga að sakast, sem mikil tíska er að kenna um allt sem aflaga fer. Það er ekki okkur að kenna að Þjóðhagsstofnun ætlaði ekki skila þjóðhagsspá sinni fyrr en á morgun og var með hana á harðahlaupum hér um bæinn af því að meiri hlutinn var búinn að ákveða að þjösna þessum umræðum í gang í dag og á morgun. Þar af leiðandi þýðir ekki að kenna okkur um þó við förum fram á eðlilegan tíma til að skoða þessa hluti og skila áliti okkar. Það er mikil stífni af hálfu virðulegs forseta, ef ég má leyfa mér að orða það svo, herra forseti, að sýna enga viðleitni til að koma til móts við þessar óskir.

(Forseti (GuðjG): Eins og forseti hefur getið um er gert ráð fyrir að gera hlé á þessum fundi í einn og hálfan klukkutíma. Forseti reiknar ekki með að hv. þm. þurfi allan þann tíma til að matast og geti notað eitthvað af þeim tíma hér við umræðurnar til að punkta niður helstu atriðin í nál. sínu.)