Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 17:54:45 (2884)

1999-12-14 17:54:45# 125. lþ. 45.1 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[17:54]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur greinilega misst af fyrri hluta ræðunnar. En það er allt í lagi. Ég skal endurtaka það, herra forseti.

Í fyrsta lagi er bara ein þjóð í þessu landi, hvort sem hún er einkaaðili eða opinber aðili. Það er bara eitt fjármagnspúkk í landinu, herra forseti, hvort sem það er á ráðstöfun einkaaðila eða ríkisaðila. Hvor aðilinn um sig getur ekki gengið sinn veg óháð hinum. En hvar hefur þessi einkaneysla komið fram? Jú, hún hefur komið fram í stóraukinni skuldasöfnun, ekki síst heimilanna og fyrirtækjanna og á því ætti hv. varaformaður fjárln. fyrir löngu að vera búinn að átta sig, herra forseti, á sínum löngu fundum í fjárln. Ég hef reyndar lagt til að það þyrfti að senda fjárlaganefndarmenn --- ég skal fara þar með líka --- á námskeið í uppeldis- og kennslufræðum og til að læra um það hvernig maður mismunar ekki fólki eða minnstu meðbræðrum sínum. (EOK: Gott.)

En varðandi fjáraukalögin, herra forseti, þá hef ég lagt til að Alþingi og fjárln. eigi að taka þessi mál í miklu ríkari mæli í sínar hendur, að það eigi að gera fjáraukalög einu sinni til tvisvar á ári, það eigi að gefa út fjáraukalög að vori á grundvelli samþykktar þings yfir veturinn eða annars þess sem þá hefur upp komið og þá hugsanlega í september. En það er alveg fráleit efnahagsstjórn að semja fjáraukalög samtímis fjárlögum.