Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 18:35:04 (2891)

1999-12-14 18:35:04# 125. lþ. 45.1 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[18:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn gerði athugasemdir við að nokkrir liðir væru færðir á fjáraukalög en ekki fjárlög næsta árs. Þar nefndi hann m.a. Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, vegna framlaga sem þangað eiga að renna á grundvelli samkomulags sem verður væntanlega undirritað á næstunni. Þar er hins vegar um að ræða greiðslur sem falla til á þessu ári.

Hitt atriðið sem hann nefndi var samningur ríkis og Reykjavíkurborgar út af Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Hann gerði athugasemd við að það væri bókfært nú á þessu ári. Sannleikurinn er hins vegar sá að sú skuldbinding féll til þegar mat matsmanna kom á þessu ári. Samkvæmt nýju fjárreiðulögunum ber okkur að gjaldfæra hana á þessu ári þó ekkert sé ákveðið um greiðslur í því sambandi. Ég vil sérstaklega undirstrika það að þessi gjaldfærsla er til þess að uppfylla ákvæði fjárreiðulaganna. Hún er á vissan hátt varúðarráðstöfun gagnvart hugsanlegum greiðslum í framtíðinni, að þá sé búið að bókfæra þær. Samkvæmt samningnum eiga að koma upp í matið sem hér liggur fyrir, upp á 1.650 millj. þegar allt er talið, aðrar eignir til skuldajöfnunar af hálfu ríkisins. Síðan á að greiða þetta með skuldabréfi og um kjör þess bréfs þarf að semja sérstaklega, þ.e. vexti, lánstíma og annað. Ég geri ráð fyrir því að það geti tekið tíma að finna lausn á þessu máli. Þarna er um að ræða margvíslegar eignir sem koma til greina, sem Reykjavíkurborg hefur hugsanlega hug á að fá upp í þessa skuldajöfnun. Það þarf að vinna vel úr því máli áður en slíkt skuldabréf yrði gefið út. Síðan er annað mál hvenær greiðslur samkvæmt því mundu falla til.