Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 18:42:53 (2896)

1999-12-14 18:42:53# 125. lþ. 45.1 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[18:42]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. svar hans um jöfnunarsjóðinn og einnig hrós hans í okkar garð fyrir ábyrga og málefnalega pólítík sem Samfylkingin hefur rekið á haustdögum og mun halda áfram að reka. Hann kallaði eftir tillögum. Ég vil vekja á því athygli, herra forseti, að það er sérkennilegt að heyra hv. þm., annars vegar formann fjárln. og hins vegar hv. varaformann kalla eftir því af hálfu stjórnarandstöðunnar þegar við ræðum fjáraukalög, gerðan hlut ríkisstjórnarinnar sem nú hefur starfað. Það verður illa við það ráðið. Ríkisstjórnin er búin að klúðra þessu. Það er of seint í rassinn gripið. Hins vegar mundum við auðvitað snúa fullkomlega við blaðinu, fengjum við til þess völd og áhrif við fjárlagagerð. Það mundum við einnig gera af ábyrgð. Við mundum ekki galopna allar gáttir, láta peninga renna í stríðum straumum inn og jafnharðan út aftur.