Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 20:56:17 (2903)

1999-12-14 20:56:17# 125. lþ. 45.1 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[20:56]

Steingrímur J. Sigfússon (frh.):

Herra forseti. Ég var kominn nokkuð af stað í ræðu minni um fjáraukalagafrv., var að ræða lítillega um útgjaldaþáttinn, útgjaldaþensluna, m.a. til heilbrigðismála. Sömuleiðis fjallaði ég um mistök sem menn hefðu gert í hagstjórn. Ég var kominn að tekjuskiptavanda ríkis og sveitarfélaga og benti á að það væri eitt af þeim málum sem menn hefðu vanrækt að taka á. Ég hef kannski ekki miklu við þann þátt málsins að bæta. Ég held þó að m.a. það sem er lagt til í brtt. meiri hlutans sem og nefndarstarf af ýmsu tagi sem ríkisstjórnin hefur komið í gang á handahlaupum undanfarna mánuði sé til marks um að þessi samskipti eru ekki í lagi. Menn hafa dregið það úr hömlu að fara í gagngera endurskoðun á tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Við svo búið má ekki standa. Þar er mikið ójafnvægi í afkomu sem lýsir sér í því að sveitarfélög, þar á meðal mörg af stærri sveitarfélögum landsins en þó einkanlega meðalstóru sveitarfélögin og mörg sjávarbyggðarlagasveitarfélögin, eiga í miklum erfiðleikum.

Þetta snertir bæði tekjustofnana sjálfa og skattkerfisbreytingar sem gerðar hafa verið. Þetta kemur inn á verkaskiptingu sem hefur verið endurskoðuð og henni breytt þannig að sveitarfélögin hafa tekið við meiri verkefnum en ekki fengið tekjustofna á móti, a.m.k. ekki til að mæta þeim væntingum um úrbætur í viðkomandi málaflokki, launahækkanir og fleira, sem pakkanum hafa fylgt. Þetta blasir við og kemur einnig inn á byggðamálin, þá fólksfækkun og tekjufall sem orðið hefur í mörgum sveitarfélögum. Síðast en ekki síst kemur þetta inn á stöðuna í húsnæðismálum. Þar fóru menn í lagabreytingar fyrir um ári eða svo sem augljóslega eiga eftir að hafa víðtæk áhrif á stöðu margra sveitarfélaga. Það var gert án þess að gera upp hver ætti að mæta áföllunum og taka á sig afskriftirnar sem óhjákvæmilegar voru í því kerfi.

Nú eru menn að einhverju leyti, herra forseti, þó seint sé, annars vegar í fjárlagafrv. og einnig við afgreiðslu fjáraukalagafrv. og að einhverju leyti við afgreiðslu fjárlaganna, að viðurkenna að þarna sé vandinn óleystur. Hér á að færa 700 millj. kr. inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, skilyrt til ráðstöfunar m.a. til að mæta fólksfækkun og tekjufalli sveitarfélaga sem fyrir því verða og til að greiða jöfnunarframlög til sveitarfélaganna samkvæmt tiltekinni grein sveitarstjórnarlaganna. Þetta er gott og vel, herra forseti, en er þó til marks um það í sjálfu sér að þessi samskipti hafa ekki verið eðlileg.

Ég hef komið inn á það áður og þarf svo sem ekki að endurtaka það í löngu máli en það er eins og til að kóróna vitleysuna í þessu að hæstv. ráðherrar hafa haft það sem sérstakan plagsið að koma helst aldrei fram fyrir hljómnema án þess að nota tækifærið og hnýta í sveitarfélögin. Þeir sparka létt í þau fyrir óráðsíu í fjármálum og ganga jafnvel svo langt sumir, eins og hæstv. forsrh., að tala um fjármálastjórn sveitarfélaganna, þá einkum stærsta sveitarfélagsins, sem stærsta efnahagsvandamálið. Ég held að hæstv. forsrh. ætti að líta sér nær og hafa áhyggjur af einhverju öðru akkúrat þessa dagana þegar ný þjóðhagsspá er að koma á borð okkar og sýnir að hættumerkin í íslenskum efnahagsmálum eru mörg. Þar er verðbólga, bullandi viðskiptahalli og fleira sem ég ætla að koma aðeins inn á.

[21:00]

Herra forseti. Menn voru mjög uppteknir af tekjuauka ríkissjóðs á þessu ári og geta að sjálfsögðu glaðst yfir því eins og hæstv. fjmrh. gerir auðvitað manna frekast að ríkissjóður fái miklar tekjur. Það er gott í sjálfu sér svo langt sem það nær en það er líka nauðsynlegt að hyggja að því hvers vegna ríkissjóður er að fá auknar tekjur og þá er málið ekki alveg jafngott. Ríkissjóður er fyrst og fremst að fá auknar tekjur vegna verðbólgu, vegna mikils viðskiptahalla, þ.e. gífurlegs innflutnings og vegna þenslu sem hefur haldið uppi mikilli veltu í þjóðfélaginu. Það sem verra er er að þessi þensla er að verulegu leyti drifin áfram af eyðslu. Þetta hef ég kallað, herra forseti, eyðslugóðæri. Við höfum færst í ákveðnum skrefum úr því að búa við framleiðslugóðæri, sem segja má að við höfum gert á árunum 1994--1995, þegar aukin verðmætasköpun og aukinn útflutningur var fyrst og fremst drifhvati hagvaxtarins, yfir í það að hagvöxturinn var kannski aðallega drifinn áfram næstu ár þar á eftir af fjárfestingum. Þá voru stórfelldar framkvæmdir í gangi sem eru út af fyrir sig enn eða hafa verið, þó að það sé heldur í rénun. En núna síðustu 1--2 árin og alveg sérstaklega blasir það við okkur núna þegar við skoðum nýja þjóðhagsspá er hagvöxturinn drifinn áfram af eyðslu sem a.m.k. tveimur þriðju hlutum er hrein neyslueyðsla og aðeins kannski þriðjungur fjárfesting. Það eru mjög mikil hættumerki. Þjóðarbúið er að eyða tæpum 40 milljörðum kr. umfram það sem það aflar ef við gerum upp fyrirtækið Ísland hf., eins og er í tísku að hafa alla hluti í dag, og lítum á þetta sem efnahagsreikning í venjulegu fyrirtæki, kannski mundu einhverjir segja næstum því ehf. og vísa þá til hæstv. forsrh. En eigum við ekki að hafa þetta þjóðfélag okkar almenningshlutafélag, þá er það rekið með u.þ.b. 38--40 milljarða halla í viðskiptum sínum við önnur fyrirtæki, þ.e. útlönd.

Nýjar þjóðhagsforsendur, herra forseti, komu á borð okkar þingmanna í morgun og í hádeginu og núna kl. 4 var létt af þeim trúnaði. Það er því miður ekkert annað hægt að gera en horfast í augu við það að þær eru að mörgu leyti mikil vonbrigði vegna þess að væntingar manna um að nú færi að slá á þensluna og jafnvel yrði nokkur hjöðnun á verðlagi á haustmánuðum í kjölfar aðgerða sem menn töldu sig hafa verið að grípa til og bundu vonir við að mundu skila árangri, hafa ekki gengið eftir. Hækkun bindiskyldu Seðlabankans frá því á sl. vetri, endurteknar vaxtahækkanir síðsumars og í haust og skilaboð ríkisstjórnarinnar um að nú yrði um að ræða mjög aðhaldssöm fjárlög og mikinn afgang á ríkissjóði, ekkert af þessu hefur haft þau áhrif sem menn vonuðust til að mundi slá á þensluna og skila einhverjum merkjum um að draga færi úr verðbólgu og viðskiptahalla. Það eru tíðindi dagsins, það er í raun og veru mergurinn málsins úr þeirri nýju þjóðhagsspá sem lögð var á borð okkar í dag. Því miður er það svo að verðbólguspárnar, og í raun allar helstu breytur í þessari nýju þjóðhagsáætlun, eru í óhagstæða átt. Það eina ,,jákvæða`` er að áframhaldandi tekjuauki ríkissjóðs helst miðað við þetta svo lengi sem þenslan varir. Það er alveg ljóst að um leið og þenslan hjaðnar verður þar breyting á. Það er bundið því.

Herra forseti. Þetta ræðum við kannski betur á morgun við 3. umr. um fjárlög, en þetta á að sjálfsögðu einnig erindi inn í umræður um fjáraukalög, því að þau eru viðbrögð við breyttum efnahagslegum aðstæðum. Þau eru viðbrögð við breyttum þjóðhagsforsendum innan þessa árs og auðvitað byggja menn að verulegu leyti á þeim grunni hvað framhaldið snertir. Menn framreikna þær upplýsingar sem nú liggja fyrir úr ríkisbúskapnum, úr þjóðhagslegum mælingum og á þeim grundvelli eru menn síðan að reyna að baksast við að berja saman fjárlög. Getur svo hver metið hversu auðvelt verk það er að hafa það sæmilega trúverðugt þegar á floti eru forsendur af þessu tagi, tekjuáætlun ríkissjóðs hleypur til um milljarða kr., útgjöldin að sjálfsögðu einnig um háar fjárhæðir að ræða og hlutir eins og áætlun um viðskiptahalla og verðbólgu og annað slíkt eru að breytast um háar fjárhæðir. Það munar t.d. um minna hvort viðskiptahallinn verður 20, 25 milljarðar eða tæpir 40 eins og nú er farið að spá. Það er mjög alvaraleg breyting af mörgum ástæðum, bæði vegna þess að auðvitað er mjög slæmt að þjóðarbúið eyði umfram efni en líka vegna þess að þetta er mælikvarði á verulegt tilhlaup í öllum efnahagslegum aðstæðum.

Það sem ég held því miður, herra forseti, að hafi kannski ekki fengið næga athygli í þessu eru þættir sem e.t.v. ber minna á í þessum breytingum en ég tel að mörgu leyti alvarlegri en verðbólgu- og viðskiptahallamælingarnar. Það er t.d. sú staðreynd að þegar við metum stöðu útflutningsframleiðslunnar annars vegar og innflutningsins hins vegar hallast á í báðum tilvikum. Nú metur Þjóðhagsstofnun vöxt útflutnings minni en áður var áætlað, að hann muni aukast um 6,9% í stað þess að þjóðhagasáætlun frá því í haust var upp á 8,3%. Þetta gildir um útflutninginn. Hann dregst sem sagt saman. Horfurnar fyrir næsta ár eru á sömu lund. Í staðinn fyrir að menn gerðu ráð fyrir 2,6% aukningu útflutnings á árinu 2000 er sú spá núna lækkuð niður í 1,9% sem er orðinn óverulegur vöxtur. Ef við lítum á innflutningshliðina þá er hreyfingin líka mjög óhagstæð þar. Innflutningurinn vex mun meira en áður var spáð, eða úr 3,4% sem spáð var samkvæmt þjóðhagsáætlun í 6% nú. Horfurnar fyrir næsta ár eru nánast óbreyttar, þ.e. 1,9% í stað 2% í vöxt. Þetta eru í raun mjög alvarleg skilaboð vegna þess að þetta þýðir að hreyfingin er í öfuga átt á báðum hliðum. Innflutningurinn er að minnka, eða vex ekki með sama hætti og við höfum gert okkur vonir um þrátt fyrir auknar þjóðartekjur og vöxt í efnahagslífinu. Útflutningsframleiðslan heldur ekki nema rétt í horfinu við verðlagið en innflutningurinn vex gríðarlega. Það má sömuleiðis, herra forseti, benda á að viðskiptakjörin fara því miður versnandi. Þau fara versnandi, og meira en við áttum von á. Spáð var viðskiptakjararýrnun eða að viðskiptakjörum mundi hnigna um 1,6%. Nú er sú spá hækkuð í 1,9% á árinu. Hvað þýðir það þegar viðskiptakjörin versna? Það þýðir að hlutfallslegt verðmæti í heimsviðskiptum okkar í útflutningsframleiðslu er að lækka. Það þýðir að við erum óheppin. Verð að breyttu breytanda er að lækka á útflutningsvörum okkar í samanburði við innflutning. Þetta er sömuleiðis mjög óhagstæð þróun. Þegar horft er til verðbólguspárinnar sem er hækkuð um meira en 1%, úr 3,4 í 4,5 og áætlana um viðskiptahalla, þá er þetta allt heldur óhagstætt. Það má segja að nánast hver einasta breyta í hinni endurskoðuðu þjóðhagsspá hreyfist í ranga átt. Viðskiptakjörin versna, innflutningurinn eykst, útflutningurinn minnkar, verðbólgan vex, viðskiptahallinn vex o.s.frv.

Herra forseti. Þetta eru heldur dapurlegar horfur. Þau varnaðarorð og þær áhyggjur sem menn höfðu á miðju sumri og í haust, en hugguðu sig þá við að þetta mundi standa til bóta því að menn bundu vonir við að verðhækkunarkúfurinn væri kominn og nú færi verðlagið að hjaðna, hafa ekki gengið eftir. Ónefnt er þá, herra forseti, það sem ég óttast nú kannski mest að sé vanmetið eða þá ofmetið, eftir því út frá hvorum sjónarhólnum maður nálgast það, er staðan í sjávarútveginum. Ég hef áhyggjur af því að þar eigi menn eftir að sjá meiri erfiðleika en menn eru enn að reikna með í þessum áætlunum. Þess muni sjá stað, nema þá að við verðum þeim mun heppnari á næsta ári og okkur gangi þeim mun betur sem því miður kannski fátt bendir til enn þá í augnablikinu, að þar eigi menn eftir að standa frammi fyrir vaxandi erfiðleikum, bæði í rekstri einstakra fyrirtækja, innan heilla greina í sjávarútveginum og einnig að nokkru leyti hvað varðar markaðsstöðuna og fleira í þeim dúr.

Ónefndur er þá, herra forseti, einn þáttur enn þar sem ég sé ekki betur en að menn séu í mikilli kreppu í hagstjórninni. Og það er að Seðlabankinn --- væri nú æskilegt að hæstv. fjmrh. gæti verið viðstaddur --- hefur verið að reyna að grípa til þeirra ráða til að slá á verðbólgu á árinu að hækka vexti og halda uppi háu gengi. Raungengi krónunnar hefur hækkað umtalsvert á síðustu mánuðum og hefur það þó verið hækkandi og hafði verið hækkandi allt frá árinu 1994. Raungengi krónunnar hefur hækkað á báða mælikvarðana, verðlagsþróun og launaþróun allt frá 1994. Það er núna að nálgast það að vera í svipaðri hæð og það var við upphaf áratugarins og það er hærra en það var á árabilinu frá 1990--1993 eða 1994, og það er hærra en það var á árabilinu frá 1983--1986 eða 1987. Það er má segja í miðjum hlíðum innan hinnar miklu gengishækkunar í fastgengisstefnunni á árunum 1986--1988. Allir vita, herra forseti, hvernig það endaði, hvernig það lék útflutningsatvinnuvegina og hvernig íslenskt efnahagslíf var leikið hér á síðari hluta ársins 1988 í kjölfar fastgengisstefnunnar og þeirrar staðreyndar að menn héldu ekki genginu föstu í verðbólgu og byggðu á algjörlega óraunhæfum forsendum fyrir útflutningsatvinnuvegina og raunar allt efnahagslífið.

Nú ætla ég alls ekki að segja, herra forseti, að aðstæðurnar séu sambærilegar og guð láti gott á vita að þær séu það ekki. Gengið er vissulega ekki enn orðið jafnhátt og það fór hæst í toppunum og vantar talsvert upp á. En það er á uppleið, það hefur hækkað og það er að síga upp úr þeim mörkum sem hefur reynst okkur vel að hafa það í, þegar við lítum til lengri tíma og í sögulegu ljósi í efnahagslífi okkar. En kreppan er sú, klemman sem menn eru í er sú að Seðlabankinn er út af fyrir sig af skiljanlegum ástæðum að reyna að beita þessari stefnu til að halda aftur af verðlaginu. Keyra upp háa vexti og verja hátt raungengisstig krónunnar. En á hinn bóginn er það andstætt markmiðunum að ná niður viðskiptahallanum og það mun í vaxandi mæli reynast útflutningsatvinnuvegunum erfitt. Menn eru því í mikilli bóndabeygju. Hvernig ætla menn að vinna sig út úr henni? Og hver á að sjá um hvað? Seðlabankinn segir væntanlega að tæki hans og úrræði séu takmörkuð í þessum efnum. Vissulega eru þau það. Og þá er vísað á aðra, þá er vísað á ríkisbúskapinn, veita verði aðhald með aðhaldssömum fjárlögum, hvetja verði til sparnaðar almennings o.s.frv. Og að sjálfsögðu er nauðsynlegt að menn ræði öll möguleg úrræði í þessum efnum.

Ég fæ ekki betur séð, herra forseti, en að staðan sé sú að við getum ekki keyrt skútuna miklu lengur áfram í sömu átt. Ég held að það sé þannig. Ég held að það fari að hrikta alvarlega í og alvarlegir boðar fram undan ef við náum ekki verðbólgunni og viðskiptahallanum niður. Ef við þurfum að keyra áfram á þessum háu vöxtum og háa raungengi, þá fer að hrikta í vaxandi mæli. Það er t.d. ábyggilega ekki létt fyrir sjávarútveginn. Tökum uppsjávarfiskagreinarnar eða rækjuiðnaðinn eða aðra sem hafa verið að keyra á lágu verði og hafa núna tekið á sig í rauninni 4% tekjufall gagnvart innlendum tilkostnaði vegna hækkunar raungengisins á síðustu mánuðum. En það er það sem hefur gerst. Núna er gengið að nálgast efri mörkin í vikamörkunum sem er +/- 6% frá meðalgenginu sem menn eru að reyna að verja það innan.

Herra forseti. Ég held að menn verði að fara að horfast í augu við þetta og ræða í einhverri alvöru. Auðvitað er ekki hægt annað en að fá það á tilfinninguna að alveg ótrúleg léttúð sé í sambúðinni við þessi mál hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég held menn hafi svifið áfram á einhverju teppi og haldið að þetta yrði bara allt í lagi af sjálfu sér og trúað spádómunum frá því í sumar að þetta yrði allt í lagi undir áramótin, þá yrði verðlagið farið að hjaðna, verðbólgan kveðin niður og allt væri í himnalagi. En ég sé að menn ganga hér um sofandi eins og jólasveinar og glotta út í annað og hafa engar áhyggjur af þessu og það er auðvitað þeirra vandamál af hvaða ábyrgð og festu þeir vilja nálgast stóru málin í efnahagsbúskapnum og þjóðlífinu.

[21:15]

Ég hef áhyggjur af þessu, herra forseti, ég verð að segja það, eins og maður hefði einhvern tíma sagt úr þessum ræðustól, og tala þar í fullri alvöru. Ég held að ástæða sé til að taka þessi skilaboð býsna alvarlega. Einhvern tímann hefðu það þótt tíðindi í sjálfu sér og þótt verðskulda eina til tvær messur að Ísland væri komið í þann hóp á nýjan leik sem hæsta hefur verðbólguna meðal aðildarríkja OECD. Þar eru kannski finnanleg 2--4 önnur hliðstæð dæmi, jafnvel eitt verra, Tyrkland t.d. eða önnur lönd sem lengi hafa búið við óstöðugleika og óstjórn í efnahagsmálum sínum. En af þeim ríkjum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við, nágrönnum á Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu þá er Ísland því miður farið að skera sig verulega úr á nýjan leik. Við keyrum á þrefalt, fjórfalt hærri verðbólgu og búum við einn mesta viðskiptahallann sem finnst innan OECD, kannski að Nýja-Sjálandi undanskildu.

Við þær aðstæður, herra forseti, er náttúrlega ekki gott að vinnubrögðin við afgreiðslu fjáraukalaga og fjárlaga séu með óvenjulegum miklum losarabrag. Það hafa þau verið núna, t.d. á þessum sólarhring og síðasta og vísa ég þar til vinnuaðstæðna efh.- og viðskn. og fjárln. Maður hefur nú ýmsu kynnst en ég hef ekki oft upplifað að mönnum væri ætlað að haska hlutum eins og raun ber vitni upp á síðkastið.

Það kann vel að vera að Alþingi sé að koma mönnum hér á óvart með því að standa við tímaáætlun og afgreiða fjárlög á tilsettum tíma um miðjan desember. Rétt er að það hefur oftast ekki tekist fyrr en um 20. des. eða jafnvel seinna. Það er gott í sjálfu sér en þá þurfa líka að vera boðlegar aðstæður til þeirrar afgreiðslu. Upplýsingar þurfa að liggja fyrir og þarf að vera meiri bragur á þeim vinnubrögðum en svo hefur ekki verið. Þjóðhagsspá kom allt of seint fram. Það hefur verið allt of mikill losarabragur á því hvenær upplýsingar hafa legið fyrir. Menn hafa síðan haft lítinn tíma til að vega þær og meta og vinna úr þeim. Þar hefðu þurft að gefast a.m.k. 2--3 sólarhringar þannig að þau gögn fengju sæmilega yfirvegaða skoðun.

Ég spái því að annars staðar hefði mönnum þótt ástæða til að taka þau skilaboð sem ný þjóðhagsspá er að senda okkur það alvarlega að menn hefðu jafnvel velt þeim fyrir sér í einn, tvo sólarhringa. Út frá þeim hefði átt að athuga hvort fara ætti út í frekari breytingar. Kostar þetta frekari aðgerðir og ráðstafanir í ríkisfjármálum, í peningamálum, í gengis- og vaxtamálum? Hvernig ætla menn að ná tökum á þessari þróun og komast út úr bóndabeygju hárra vaxta og hás raungengis annars vegar, mikils viðskiptahalla á hina hliðina og versnandi afkomu í sumum greinum útflutningsatvinnuveganna? Þetta er gamalkunnug bóndabeygja og ég trúi ekki öðru en að hæstv. fjmrh. hafi af því nokkrar áhyggjur þó hann geti verið montinn af tekjuauka ríkissjóðs í augnablikinu. Það gæti reynst skammgóður vermir hjá hæstv. ráðherra ef efnahagsstjórnin er að öðru leyti að fara úr skorðum.

Ég hef áður, herra forseti, stungið upp á því við sjálfstæðismenn að þeir fari í skjalasöfn sín og leiti uppi ræður sínar frá árunum á milli 1980 og 1983. Þá héldu þeir margar, langar og skömmóttar ræður yfir þáv. hæstv. fjmrh. Ragnari Arnalds fyrir það að hann væri nú ekki merkilegur kall. Að vísu var hann að reka ríkissjóð með afgangi en það þótti nú ekki mikil kúnst í verðbólgu og viðskiptahalla. Það töldu þeir ekki mikla hagspeki á þeim tíma, sjálfstæðismenn. Nú eru að mörgu leyti skyldar aðstæður. Sem betur fer er verðbólgan að vísu langt frá því í sömu hæðum og þá, en hún er samt á alvarlegu stigi, hún er á alvarlegu róli. Hlutfallslega er verðbólgan, borið saman við það sem hún er í nágrannalöndunum, sennilega ekkert minni hér nú en hún var þá. Þá var frá 10--15% verðbólga víða í nágrannalöndunum en við með á 30--40%. Nú er meðaltalið innan Evrópusambandsins 1,5% en hjá okkur 5--6% á þessu ári. Þannig eru nú, herra forseti, sannarlega ýmsar blikur á lofti.

Að öðru leyti, herra forseti, held ég að ég hafi ekki mörg orð um þetta fjáraukalagafrv. við lokaafgreiðslu þess. Ég vísa til þess sem áður hefur komið fram af hálfu talsmanns okkar, þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Jóns Bjarnasonar sem talaði hér fyrr við þessa umræðu. Ég vísa til þess sem við sögðum við 2. umr. um málið í heild sinni og einstaka þætti eins og heilbrigðismálin sem af eðlilegum ástæðum hafa orðið mönnum umtalsefni.

Ég vona, herra forseti, að úr rætist hjá okkur þrátt fyrir alvarlegar aðstæður. Ég er ekki að gera grein fyrir skilaboðum úr nýrri þjóðhagsspá vegna þess að ég vonist til að eitthvað slíkt gangi eftir. Þvert á móti vill maður trúa því að við náum tökum á málunum. Ég hlýt þó að minna á að fram undan er ýmislegt sem skapar óvissu. Þó að ekkert af þessu hefði legið fyrir hefði verið ástæða til að gefa gaum að því. Þar er að sjálfsögðu stærsta spurningin um komandi kjarasamninga. Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði í landinu verða meira og minna lausir um miðjan febrúarmánuð. Einhvern tímann hefði mönnum þótt það nóg til að hafa nokkrar áhyggjur af þó ekki hefðu bæst við nýjar upplýsingar úr þjóðhagsspá í dag.