Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 21:33:47 (2905)

1999-12-14 21:33:47# 125. lþ. 45.1 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[21:33]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn beindi til mín spurningu sem lýtur að endurgreiðslu lána ríkissjóðs á þessu ári, uppgreiðslu lána ríkissjóðs á þessu ári og tengslum þeirrar aðgerðar við sölu á hlutabréfum í Landsbanka og Búnaðarbanka sem stendur nú fyrir dyrum.

Þarna eru engin tengsl á milli. Hlutabréfasalan var ákveðin alveg sjálfstætt og það er alveg ljóst að við munum ekkert ná, jafnvel þó að það hefði verið ásetningur okkar, að nota allt það fjármagn á þessum stutta tíma til áramóta til þess að greiða upp lán ríkissjóðs innan lands. Það er auðvitað verkefni sem þarf að þrautskipuleggja, að endurgreiða og kaupa upp skuldir ríkissjóðs, hvort sem það er gert með uppboðum eða öðrum hlutum eins og við höfum verið að gera hér og þarf að huga langt fram í tímann að slíku. Þar er ekkert samhengi á milli og þeir peningar munu þá fara til þess að styrkja stöðu ríkissjóðs að öðru leyti, þ.e. þeir munu væntanlega fara beint inn í Seðlabankann og liggja þar á bærilega góðum vöxtum, vona ég.

Þingmaðurinn sagði að með því að borga upp lán innan lands væri verið að setja peninga í umferð. Það er ekki nema hálfur sannleikurinn. Það er engin nýsköpun peningamagns með því að nota afganginn af ríkissjóði til þess að borga upp innlend lán. Þá kemur peningur inn og það fer peningur út. Það sem væri nýsköpun fjármagns í umferð, peningamagns í umferð væri ef Seðlabankinn byggi til peninga og keypti upp skuldabréf ríkissjóðs á opnum markaði eins og alþekkt er nú víða um lönd og sömuleiðis hér á landi. Það er þensluaukandi aðgerð sem er stundum notuð til þess að blása í glæður atvinnulífsins ef það er lægð, en það sem við erum að gera núna hefur ekki sambærileg áhrif, það er hlutlaus aðgerð að þessu leyti til. Hins vegar er það að leggja peninga inn í banka og taka þá í umferð aðgerð sem tekur peningana frá og er þensluminnkandi ef svo mætti segja.