Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 21:36:25 (2906)

1999-12-14 21:36:25# 125. lþ. 45.1 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, JB
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[21:36]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi umræða um fjáraukalög hefur staðfest það sem ég hélt fram í upphafi að bæði ríkisútgjöld og ríkistekjur tækju breytingum svo milljörðum og jafnvel tugmilljörðum skiptir frá samþykktum fjárlögum. Það er engin fjármálastjórn. Sú staðreynd sem við stöndum frammi fyrir er ógnvekjandi ef við eigum að búa við það til framtíðar.

Því vil ég, herra forseti, ítreka að það verður að taka upp breytt vinnubrögð við fjárlagagerðina og framkvæmd fjárlaga. Það verður að styrkja þingið, styrkja nefndir þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Og framkvæmdarvaldið verður að virða löggjafann sem ákvörðunarvald varðandi tekjur og gjöld til ríkissjóðs.

Ég hef bent á leið, herra forseti, sem ég vil ítreka að fjáraukalög verði sett og komi á miðju ári, þau komi þá tvisvar á ári fyrir fram þar sem tekið sé á bæði tekjubreytingum og nauðsynlegum breytingum á gjöldum, fyrir fram samkvæmt ákvörðun Alþingis eins og frekast er kostur en ekki eftir á eins og við hér erum að gera.

Herra forseti. Það er einlæg ósk mín að Alþingi og löggjafarvaldið styrkist við vinnu fjárlaganna.