Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 10:55:54 (2923)

1999-12-15 10:55:54# 125. lþ. 46.3 fundur 270. mál: #A Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga# frv. 113/1999, menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[10:55]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt frv. til laga um breyting á lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingum. Frv. er flutt í tengslum við frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 en frv. byggist á þeim forsendum sem menn setja fram í fjárlögum og hafa verið til umræðu á Alþingi á undanförnum vikum og mánuðum. Raunar liggur fyrir, herra forseti, breyting á þeirri tillögu sem upphaflega var gert ráð fyrir í fjárlagafrv. Ég legg til að það frv. sem ég flyt hér taki mið af því við endanlega afgreiðslu og hv. menntmn., sem mun fjalla um málið, taki mið af þeim niðurstöðum sem verða við afgreiðslu fjárlaga eins og þær liggja fyrir í tillögum fjárln. og verða til afgreiðslu síðar í dag samkvæmt áætlun þingsins.

Gert er ráð fyrir að tekjum af þeim sérstaka eignarskatti sem lagður var á vegna Þjóðarbókhlöðu og endurbóta menningarbygginga verði ráðstafað þannig að af tekjunum renni 146 millj. í ríkissjóð en síðan er einnig gert ráð fyrir að þetta séu þær tekjur sem eru umfram 480 millj. kr. en af þessum 480 millj. kr. er 160 millj. frestað. Þær verða ekki nýttar til framkvæmda á árinu 2000 eins og mönnum er ljóst þegar þeir hafa kynnt sér fjárlagafrv. Hér er um það að ræða að taka mið af afgreiðslu fjárlaganna og breyta þessum lögum frá 83/1989 í samræmi við það.

Ef menn líta á yfirlit sem fylgir fjárlagafrv. sjá þeir til hvaða framkvæmda það fé rennur sem varið verður úr Endurbótasjóði á næsta ári og næsta verkefni sem við sjóðnum blasir á næstu árum er uppbyggingin og endurreisn Þjóðminjasafns Íslands. Það er ljóst að frestun á fjárveitingum og ákvarðanir um að draga úr spennu á höfuðborgarsvæðinu við opinberar framkvæmdir munu leiða til þess að framkvæmdum við endurreisn Þjóðminjasafnsins verður frestað og stefnt er að því að Þjóðminjasafnið verði opnað á árinu 2002 ef mál ganga eftir eins og hér er gert ráð fyrir.

Ég tel einnig að það sé eðlilegt miðað við þá vinnu sem unnin er við endurhönnun á sýningu í safninu að menn gefi sér góðan tíma til að vinna það verk.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa lengri ræðu um þetta mál en legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.