Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 11:24:59 (2936)

1999-12-15 11:24:59# 125. lþ. 46.3 fundur 270. mál: #A Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga# frv. 113/1999, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[11:24]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi Þjóðminjasafnið og endurbætur á því er rétt að það komi fram að það var mun viðameira en menn gerðu ráð fyrir að koma munum úr safninu fyrir í geymslu og það krafðist meiri vinnu en menn áttuðu sig á og meiri kröfur voru gerðar til húsnæðis en menn gerðu sér grein fyrir í upphafi. Við því gat enginn séð í sjálfu sér, en ég fullyrði að nú sé búið þannig um muni úr Þjóðminjasafninu í þessari geymslu að það standist allar kröfur sem unnt er að gera og aldrei hafi jafn vel verið búið að munum til geymslu úr Þjóðminjasafninu eins og nú hefur verið gert. Ég hvet menn til að kynna sér það því að þar er einstaklega góð aðstaða.

Málum er einnig þannig háttað að bjóða á út hönnun sýningarinnar í Þjóminjasafninu. Menn höfðu ekki áttað sig á því þegar þessi áform voru á döfinni að fara ætti þá leið. Það var hins vegar gert og snemma á næsta ári liggur fyrir hvaða leið verður valin við hönnun á sýningunni. Þessar framkvæmdir valda því að þetta getur dregist í nokkurn tíma. Það eru ekki bara fjármunir heldur líka efnislegir þættir sem eiga hlut að máli.