Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 11:27:03 (2938)

1999-12-15 11:27:03# 125. lþ. 46.3 fundur 270. mál: #A Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga# frv. 113/1999, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[11:27]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér á óvart að hv. þm., jafnáhugasöm og hún er um málefni Þjóðminjasafnsins, skuli ekki hafa fylgst með því þegar þetta var auglýst á sínum tíma. Þetta var nýmæli að farið var út í það að auglýsa eftir tillögum um hvernig ætti að hanna og byggja upp sýningar í hinu nýja húsi. Unnið hefur verið að því og það eru þrjú tilboð sem mér skilst að liggi nú fyrir og er verið að vinna úr þeim. Það er eitt atriði.

Hins vegar eru framkvæmdir við bygginguna sjálfa mjög umfangsmiklar og ljóst að verkið á eftir að tefjast. Við höfum einnig tekið ákvarðanir um að fresta fjárveitingu. Verkið verður þannig unnið að 2001--2002 verður Þjóðminjasafnið vonandi komið í þær aðstæður sem við viljum hafa það til langrar frambúðar.