Ráðstöfun erfðafjárskatts

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 11:33:53 (2942)

1999-12-15 11:33:53# 125. lþ. 46.4 fundur 273. mál: #A ráðstöfun erfðafjárskatts# (greiðslur í ríkissjóð 2000) frv. 111/1999, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[11:33]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Vegna þeirrar nýlundu að bera ekki fram bandormsfrumvörp eins og venja hefur verið á Alþingi á undanförnum þingum þá mæli ég fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, með síðari breytingum, á þskj. 374. Þetta frv. er þess efnis að þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laga nr. 12/1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, með síðari breytingum, skuli tekjur af erfðafjárskatti árið 2000 umfram 235 millj. kr. renna í ríkissjóð.

Rétt er að taka fram að í fyrra var að störfum nefnd og gerði tillögur um úrræði í málefnum fatlaðra í Reykjavík og Reykjanesi en þar eru biðlistarnir fyrst og fremst. Nefndin gerði tillögu um að vinna að því að stytta þá á næstu sjö árum. Unnið er eftir tillögum þeirra eða því plani sem nefndin lagði. Á þessu ári og því næsta verða tekin í notkun fimm sambýli í Reykjavík og fimm sambýli á Reykjanesi.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessu máli vísað til félmn. Ég biðst jafnframt afsökunar á því hve seint þetta mál er á ferðinni. Það þarf að afgreiðast með fjárlögum, þ.e. fyrir áramót og fyrir misskilning í ráðuneytinu er frv. svo seint fram komið. Út af fyrir sig er ástæða til þess að biðjast afsökunar á því.