Ráðstöfun erfðafjárskatts

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 11:44:14 (2945)

1999-12-15 11:44:14# 125. lþ. 46.4 fundur 273. mál: #A ráðstöfun erfðafjárskatts# (greiðslur í ríkissjóð 2000) frv. 111/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[11:44]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það verður nú að segjast eins og er að það er mikill ósiður hjá hæstv. ráðherra að leggja þetta mál fram nú í sömu viku og áformað er að ljúka þingstörfum fyrir jól. Hæstv. ráðherra baðst að vísu afsökunar á því. Ég tek auðvitað slíkri afsökun. Hæstv. ráðherra er maður að meiri að hafa beðist afsökunar á þessu. Það breytir ekki því að við höfum skamman tíma til að ræða þetta mál.

Við erum að fjalla um mikinn málaflokk og verulega skerðingu á Framkvæmdasjóði fatlaðra sem hefur áhrif á uppbygginguna í málefnum fatlaðra. Það hefði verið ástæða til að ræða meira um þennan málaflokk, ekki síst, herra forseti, þegar áformað er að flytja hann til sveitarfélaganna. Aðgerðir eins og þær sem liggja fyrir í þessu frv. greiða ekki fyrir því að samkomulag náist milli ríkis og sveitarfélaga um flutning á málaflokknum til sveitarfélaganna. Þess vegna ber að harma hvernig að þessu er staðið.

[11:45]

Þetta að vísu ekkert óvanalegt hjá þessari ríkisstjórn og Framsfl. og Sjálfstfl. sem hefur verið við völd sl. fimm ár að ráðast á þennan málaflokk. Við erum svo sem orðin vön því í stjórnarandstöðunni. Fróðlegt hefði verið ef maður hefði haft tíma til að taka saman skerðinguna á Framkvæmdarsjóði fatlaðra í tíð þessarar ríkisstjórnar. Samkvæmt frv. er áformað að skerða sjóðinn um 340--350 millj. ef ég man rétt og á síðasta ári var sjóðurinn skertur um 230--240 millj. þannig að við erum að tala um samtals á þessu ári og næsta skerðingu á Framkvæmdarsjóði fatlaðra upp á 600 millj., bara á tveimur árum. Ætli við værum ekki að nálgast 1--1,5 milljarða ef þetta væri tekið saman frá 1995? Þetta þyrfti auðvitað að taka saman og hvaða áhrif skerðingin hefur haft á uppbyggingu í þessum mikilvæga málaflokki. Það er saga út af fyrir sig hvernig ríkisstjórnin á tímum góðæris beinir spjótum sínum ávallt að hópi fatlaðra hvort sem það er varðandi framkvæmdarsjóðinn og málefni fatlaðra almennt eða varðandi bætur öryrkja svo dæmi sé tekið en þeir drógust verulega aftur úr ef við tökum það til samanburðar við aðra í þjóðfélaginu á síðasta kjörtímabili og munar þar verulegu. Það er eins og ríkisstjórnin, alveg sama hvað hún hefur mikla peninga, geti ekki séð þennan málaflokk í friði.

Hér höfum við t.d. í Degi í dag yfir mynd af formanni fjárln., Jóni Kristjánssyni --- sem ég vil biðja um að verði viðstaddur umræðuna --- svohljóðandi fyrirsögn: ,,Ríkissjóður veit vart aura sinna tal.`` Á sama tíma og þetta kemur fram í Degi erum við að fjalla um 350 millj. kr. skerðingu á Framkvæmdarsjóði fatlaðra.

Nú er það svo eins og hæstv. ráðherra kom sjálfur inn á áðan að unnin hefur verið áætlun um þörf fyrir búsetuúrræði hjá fötluðum og tengist það væntanlega áformuðum flutningi á þessum málaflokki til sveitarfélaganna. Það hefur komið fram og mér finnst gott að formaður fjárln. er kominn í salinn af því að formaður fjárln. átti sæti í þeirri nefnd sem var að skoða biðlista hjá fötluðum og hvernig staðið skyldi að því að leysa húsnæðisþörfina en formaður fjárln. ásamt núv. sjútvrh. Árna M. Mathiesen, eftir því sem ég veit best, átti m.a. sæti í þessari nefnd. Þar kemur fram að á biðlista fyrir búsetuúrræði og sambýli eru 378 ef ég fer rétt með. Ég spyr hæstv. ráðherra eða hv. þm. hvort hér sé farið með rétta tölu. Þar erum við að tala um í Reykjavík 170 sem bíða eftir búsetuúrræðum, 134 á Reykjanesi og 74 annars staðar. Þetta er alllangur listi.

Hæstv. ráðherra kom inn á það áðan að áformað væri að leysa þessa þörf á sjö árum. Það er að vísu langur tími, fyrir þá sem hafa kannski beðið mjög lengi eftir því að fá sambýli eða lausn á búsetumálum sínum. En ég sé ekki hvernig á að standa við það miðað við þá skerðingu sem er nú áformuð. Það er að vísu svo að ráðherra nefndi 10 sambýli á þessu og næsta ári og er séð fyrir rekstrinum í fjárlögum næsta árs að ég fæ best séð. Ég sé ekki hvernig á að leysa framkvæmdarþörfina vegna þess að þetta kallar á sambýli og uppbyggingu á sambýlum. Ekki er nóg að sjá fyrir reksturinn, það verður líka að sjá fyrir uppbyggingu á búsetuúrræðunum á sambýlunum. Eftir því sem ég er upplýst um þá er sjóðurinn eins og hann stendur núna, og miðað við þær skuldbindingar sem hann hefur, ekki aflögufær til að ráðast í uppbyggingu á þessum sambýlum á næsta ári sem þetta rekstrarfé, sem hefur þó verið séð fyrir, kallar á.

Ég hef heyrt að menn tali um leigu á húsnæði. Ég er ekki farin að sjá að það úrræði dugi. Við erum að tala um mjög þunga einstaklinga sem eiga að fara á þessi sambýli og ég held að mjög erfitt verði að finna eldra húsnæði sem hentar fyrir þessa einstaklinga. Við höfum reynsluna í gegnum árin og það hefur þurft að sérhanna húsnæði fyrir þyngstu einstaklingana. Ég spyr formann fjárln., sem átti sæti í þeirri nefnd sem var að skoða biðlistana, sem var að skoða hvernig var hægt að leysa þessa þörf, hvernig hann sér fyrir sér að hægt sé að standa við þá áætlun sem gerð hefur verið og m.a. að það komi fjögur eða fimm ný sambýli á næsta ári eins og mér skilst að áformað sé. Ég held að það sé nauðsynlegt að við fáum það fram.

Ég spyr hv. þm. Jón Kristjánsson, af því að hann hefur setið lengi sem formaður fjárln., hvort hann viti hve mikið þessi sjóður hefur verið skertur á síðast liðnum fimm árum. Við erum að tala um á þessu og næsta ári 600 millj. kr. skerðingu. Lögin um málefni fatlaðra eru mjög skýr í þessu efni. Það stendur í 39. gr. að sjóðurinn skuli hafa óskertar tekjur Erfðafjársjóðs. Þessi grein kom inn í lögin í tíð minni sem félmrh. og þessi grein, óskertar tekjur af erfðafjárskatti, var forsenda þess að léð var máls á því að sjóðurinn fjármagnaði tímabundið eitthvað annað en framkvæmdir. Við það ákvæði var staðið allt fram til ársins 1995 að sjóðurinn fékk hverja einustu krónu af tekjum af erfðafjárskatti til þess að geta staðið undir viðbótarverkefnum sem honum voru fengin. En hæstv. ráðherra hefur haldið áfram að skerða í sinni tíð tekjur Erfðafjársjóðs ásamt því að hann hefur haft þessi viðbótarverkefni.

Nú eru lögin um málefni fatlaðra mjög skýr og verkefnin sem sjóðurinn hefur eru ærin. Við getum t.d. farið yfir þjónustustofnanir sem sjóðurinn á að fjármagna og hefur hann einungis til þess ef ég veit rétt 235 millj. á næsta ári sem er sama fjárhæð og hann hafði á síðasta ári. Þó að undir mynd af hv. þm. Jóni Kristjánssyni, formanni fjárln., standi að ríkissjóður viti vart aura sinna tal þykir ekki ástæða til að uppfæra þetta miðað við verðlag, hvað þá heldur að ríkissjóður sjái sóma sinn í því miðað við þessar aðstæður að skila einhverju af skerðingunni til baka inn í sjóðinn þannig að hann geti staðið við þær áætlanir sem formaður fjárln. hefur gert fyrir sjóðinn og staðið að ásamt öðrum hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni, hæstv. sjútvrh. En þessi sjóður á samkvæmt lögum að fjármagna uppbyggingu á þjónustustofnunum eins og hæfingar- og endurhæfingarstöðvum, dagvistarstofnunum fatlaðra, vernduðum vinnustöðum, leikfangasöfnum og skammtímavistun. Síðan sambýli, vistheimili fyrir börn, heimili fyrir börn og áfangastaði, svo dæmi sé tekið, ásamt öðrum verkefnum sem á hann eru lögð. Þess vegna spyr ég hv. formann fjárln. eða hæstv. ráðherra, hvorn þeirra sem hefur svör við því, hverjar eru skuldbindingar sjóðsins að frátöldum þeim sambýlum sem á að bæta á hann á næsta ári.

Ég spyr líka hv. formann fjárln.: Nú er það svo að það ættu að hafa komið inn viðbótartekjur úr erfðafjárskatti eða ættu að koma inn á næsta ári miðað við hækkun á fasteignamatinu. Það hefur áhrif á erfðafjárskattinn. Er það tekið með inn í þá áætlun sem nú liggur fyrir varðandi erfðafjárskattinn? Hefur verið gert ráð fyrir viðbótartekjum af erfðafjárskatti á næsta ári vegna hækkana á fasteignamatinu? Ég held að það sé ágætt að það komi fram, ekki að það breyti neitt fyrir uppbyggingu á málefnum fatlaðra eða Framkvæmdasjóði fatlaðra vegna þess að ríkisstjórnin hefur það mottó að stela hverri krónu sem hægt er af þessum sjóði fatlaðra inn í ríkissjóð þrátt fyrir það að á sl. fimm árum höfum við búið við uppsveiflu og nú svo miklar tekjur að það rignir inn peningum og ríkisstjórnin veit varla hvað hún á að gera við þá.

Herra forseti. Af því að við erum að tala um stöðu fatlaðra hefði verið full ástæða til að fara mjög gaumgæfilega yfir það að á sama tíma og við erum að skerða tekjur hjá Framkvæmdasjóði fatlaðra um hvorki meira né minna en 350 millj. fyrir næsta ár eru málefni geðsjúkra eða geðfatlaðra barna í miklum ólestri. Við erum að tala t.d. um að það eru engar hvíldarinnlagnir til eða tímabundnar vistanir eða möguleikar á hvíldarvistun vegna mikið geðfatlaðra barna. Ef sjóðurinn hefði haft peninga og ríkisstjórnin hefði ekki verið að stela þessum peningum af honum inn í ríkissjóð þá hefði þessi sjóður getað veitt úrlausn fyrir þau börn sem er mjög alvarlegt ástand hjá, t.d. með því að setja peninga inn í uppbyggingu á hvíldarheimili svo dæmi sé tekið. Hér er náttúrlega um mjög stóran málaflokk að ræða sem hefur áhrif mjög víða að því er varðar kjör og aðbúnað fatlaðra í þjóðfélaginu og t.d. þeirra tæplega 400 einstaklinga sem bíða núna eftir búsetuúrræðum. Þess vegna hefði verið full ástæða til, herra forseti, að við hefðum getað haft meiri tíma til að ræða áhrifin af þessari skerðingu hjá ríkisstjórninni, ekki bara á næsta ári heldur á umliðnum fjórum árum á tímum góðæris þegar ríkisstjórnin hefur talið sig geta verið að skerða þennan málaflokk.

Ástæða er til þess miðað við þá stöðu sem er í efnahagsmálum og hættumerki víða í þjóðfélaginu að sýna fullt aðhald jafnvel þó að rigni inn peningum. En ég hefði þó haldið að þetta væri það síðasta sem við mundum skerða. Við erum að tala um tekjuauka ríkissjóðs upp á 23 milljarða sem var ekki áformað.

(Forseti (GÁS): Forseti biður hv. þm. afsökunar en vill minna á að gert var ráð fyrir matarhléi kl. 12. Þá mun m.a. verða haldinn fundur í iðnn. Stefnir í lok ræðu hv. þm. eða er skynsamlegra að fresta henni?)

Ég býst við að skynsamlegra sé að fresta henni og ég skal gera það hér og nú ef hæstv. forseti óskar þess.

(Forseti (GÁS): Forseta líst vel á það. Ræðu hv. þm. er því frestað og enn fremur þessari umræðu. Fundinum er frestað til kl. 13.)