Ráðstöfun erfðafjárskatts

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 13:01:26 (2946)

1999-12-15 13:01:26# 125. lþ. 46.4 fundur 273. mál: #A ráðstöfun erfðafjárskatts# (greiðslur í ríkissjóð 2000) frv. 111/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[13:01]

Jóhanna Sigurðardóttir (frh.):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli mínu áðan erum við undir nokkurri tímapressu að ræða mikla skerðingu á Framkvæmdasjóði fatlaðra og er a.m.k. nokkuð stórt mál í augum þeirra sem við það eiga að búa, þ.e. fyrir fatlaða og fjölskyldur þeirra og aðstandendur. Reyndar kom ég inn á það í máli mínu að við hefðum þurft að hafa nokkurn tíma til að ræða þetta stóra mál.

Ég beindi nokkrum spurningum til formanns fjárln. og hæstv. ráðherra sem snerta skerðingu á þessum sjóði og áætlaðar tekjur af erfðafjárskatti. Ég vil bæta spurningu við til formanns fjárln. sem átti sæti í þeirri nefnd sem vann að athugun á þörfinni fyrir búsetuúrræði fyrir fatlaða. Fyrir liggur að þörf sé fyrir 378 búsetuúrræði og sennilega mest á sambýli og ég spyr hver sé áætlaður kostnaður við að leysa þá þörf. Nú hlýtur þörfin að liggja fyrir samhliða því að þessir biðlistar voru kannaðir. Ég spyr um það sem er nokkuð mikilvægt innlegg í þetta mál þegar við erum að skerða sjóðinn.

Ég nefndi áðan að skerðing á sjóðnum á þessu og næsta ári væri um 600 millj. Ég skoðaði þetta mál nokkuð í matarhléinu og mér sýnist að hún sé enn meiri. Mér sýnist að skerðingin fyrir þetta ár sé í rauninni 340 millj. Áætlað var að tekjur af erfðafjárskatti á þessu ári yrðu 480 millj. en í greinargerð með fjárlagafrv. kemur fram að áætlað er að tekjur af erfðafjárskatti á þessu ári verði 575 millj. kr. og af því rennur til framkvæmdasjóðsins 235 millj. Við erum því að tala um að skerðingin sem rennur í ríkissjóð, sem er tekið af framkvæmdasjóðnum, sé 340 millj. á þessu ári sem er álíka fjárhæð og á að skerða á næsta ári. Það eru því upp undir 700 millj. sem framkvæmdasjóðurinn hefur verið skertur um á þessu og næsta ári. Ég hef ekki haft tíma til að skoða það en ég býst við að skerðingin frá 1995, þegar sú ríkisstjórn tók við sem enn situr, sé vart undir 1.200 millj. kr. Ég tel að við hefðum getað farið ansi langt, herra forseti, með það að leysa eða stytta þá löngu biðlista sem við höfum hjá fötluðum.

Maður veltir fyrir sér hvort ekkert sé að marka ákvæði 1. gr. laga um málefni fatlaðra og hvort ríkisstjórnin fari ekkert eftir því sem þar stendur þegar hún er í niðurskurði sínum. Þar stendur í 1. gr.:

,,Markmið þessara laga er að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.``

Ég kalla ekki að unnið sé samkvæmt þessu markmiði þegar verið er að skerða tekjur framkvæmdasjóðs svo gífurlega sem raun ber vitni eða um 700 millj. á tveim árum. Á umliðnum einum til einum og hálfum áratug hefur verið farið út í algera stefnubreytingu hvað varðar búsetumál fatlaðra með mikilli uppbyggingu sambýla um allt land og að halda áfram þeirri uppbyggingu er að skapa fötluðum skilyrði til að lifa eðlilegu lífi.

Við skulum líka athuga að þeir sem eru á þessum biðlistum hafa kannski verið þar árum saman. Nefnd hæstv. félmrh. leggur til að leysa þá þörf á sjö árum og þeir síðustu á þessum biðlistum, sem ég trúi að bætist við jafnt og þétt á komandi árum, þurfa kannski að bíða í sjö ár ef hægt verður að standa við uppbygginguna í framkvæmdunum sem maður verður að draga í efa miðað við hvað framkvæmdasjóðnum er skammtað. Þess vegna er nauðsynlegt að áður en umræðunni lýkur og ef ekki er hægt að fá upplýsingar um það við umræðuna að nefndin, sem fær málið til meðferðar, skoði þær skuldbindingar sem sjóðurinn hefur núna fyrir næsta ár og spyrji hæstv. ráðherra um það hvort hann geti gert ráðstafanir til að nefndin fái þær upplýsingar ef það er ekki hægt við þessa umræðu þannig að ekki þurfi að tefja hana að fá fram núverandi skuldbindingar sjóðsins.

Hæstv. ráðherra var svo sannarlega ekki að finna upp hjólið með því að fara að skerða af Framkvæmdasjóði fatlaðra í rekstur. Það var gert áður og því skal alveg haldið til haga í umræðunni og var byrjað á því í tíð þeirrar sem hér stendur sem félmrh. En þá var einungis um að ræða 25% af fjármagninu, sem fór í sjóðinn, sem fór í rekstur og það var mest í liðveislu sem dregur úr því að þurfi að byggja upp sambýli vegna þess að ef við setjum fjármagn í frekari liðveislu er það a.m.k. tæki til að þjónusta þá sem eru í búsetu án þess að það þurfi þá að byggja fyrir þá endilega. En 25% af tekjum sjóðsins fór þá í rekstur gegn því skilyrði að tekjurnar yrðu óskertar.

Nú er svo komið að við erum að tala um að það eru einungis 40% þannig að 75% fór í stofninn, 25% í rekstur og 75% í stofnkostnað sem gat farið í framkvæmdir en nú eru einungis 40% af tekjum sjóðsins í stað 75% áður sem haldið er eftir til framkvæmda og áfram hefur sjóðurinn að vísu nokkurn rekstur eins og endurhæfingu og hæfingu eins og hér kemur fram í öðru þeirra frv. sem þessu máli tengjast ásamt því að halda uppi rekstri varðandi sjóðinn sjálfan. Það er því alveg sama þó að tekjur erfðafjárskatts verði 500 millj. eða 1.000 millj. Það virðist alltaf vera svipuð fjárhæð sem hæstv. ráðherra heldur eftir í sjóðnum, 235 millj. á þessu ári og 235 millj. á næsta ári. Það er engin hæfa, herra forseti, að búa þannig að þeim sem verst eru staddir í þessu þjóðfélagi og verða að treysta á það varðandi hagi sína og afkomu að sjóðurinn sé ekki skertur og hann sjái þeim sem eru mikið fatlaðir og geta ekki komið sér upp húsnæði með öðrum hætti að sjóðurinn hafi það fjármagn sem þarf til að hægt sé að fjármagna sambýli og önnur nauðsynleg búsetuúrræði fyrir fatlaða.

Ég sé, herra forseti, að tíma mínum er að ljúka. Ég legg mikla áherslu á það að hæstv. ráðherra og formaður fjárln., hv. þm. Jón Kristjánsson, svari þeim spurningum sem hér eru lagðar fyrir þá. Ég vil enda mál mitt með því að spyrja hæstv. ráðherra líka að því hvort hann hafi ekki áhyggjur af því þegar svona er farið með Framkvæmdasjóð fatlaðra að það tefji að hægt sé að vinna að því að flytja þennan málaflokk yfir til sveitarfélaganna.