Ráðstöfun erfðafjárskatts

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 13:12:03 (2948)

1999-12-15 13:12:03# 125. lþ. 46.4 fundur 273. mál: #A ráðstöfun erfðafjárskatts# (greiðslur í ríkissjóð 2000) frv. 111/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[13:12]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Jafnvel þó að hv. þm. tefli fram þeirri hækkun sem er til rekstrarins á næsta ári, 285 millj., þá er það samt lægra en sú skerðing sem sjóðurinn verður fyrir. Þar er um að ræða 340--350 millj. kr. En talan sem hann nefndi í hækkun á rekstri er 285 millj. þannig að þar munar verulegu.

Svo held ég, herra forseti, að hv. formaður fjárln., ef hann vill greiða fyrir umræðunni, komist ekki hjá því að setja sig á mælendaskrá vegna þess að hann getur ekki í stuttu andsvari svarað fjölmörgum spurningum sem ég beindi til hans og mun halda áfram ítrekað í seinni ræðu minni ef ekki koma svör við því. Þetta eru mikilvægar spurningar. Gert er ráð fyrir fjármagni til rekstrar á þeim sambýlum sem á að koma upp á næsta ári. Hvar er gert ráð fyrir fjármagni til þess að hefja uppbygginguna á þessum sambýlum, þ.e. byggja þessi sambýli? Síðan spurði ég hv. þm. um skuldbindingar sjóðsins. Ég spurði hann líka um tekjur sem kæmu til viðbótar á næsta ári vegna hækkunar á fasteignamati, hvernig þær eru áætlaðar. Hv. þm. verður að svara þeirri spurningu vegna þess að hann situr væntanlega hér til að greiða fyrir þeirri umræðu sem hér fer fram.

Ég spyr hv. þm. hvort hann geti ekki verið sammála mér um að verið sé að skerða fjármagn til Framkvæmdasjóðs fatlaðra um tæplega 700 millj. núna á tveim árum. Telur hv. þm. forsvaranlegt þó að við þurfum að búa við aðhald að fara út í þessa skerðingu? Er forgangsröðunin ekki röng hjá hæstv. ríkisstjórn þegar hún sí og æ gegnum árin og líka núna ræðst að þessum sjóði og kjörum þeirra sem við eiga að búa, þ.e. öryrkja og fatlaðra?

Herra forseti. Nauðsynlegt er að hv. þm. svari því sem til hans er beint. Ég spurði líka um áætlaðan kostnað af því að leysa þörfina fyrir þá 378 sem eru á biðlista og vænti ég að hv. þm. svari því.