Ráðstöfun erfðafjárskatts

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 13:16:34 (2950)

1999-12-15 13:16:34# 125. lþ. 46.4 fundur 273. mál: #A ráðstöfun erfðafjárskatts# (greiðslur í ríkissjóð 2000) frv. 111/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[13:16]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þá liggur það fyrir. Ef ekki hefði verið farið út í þessar skerðingar á undanförnum árum, sem ég hef lýst hér, þá væru ekki neinir biðlistar vegna fatlaðra um land allt, 378 manns. Það kostar 1 milljarð að leysa þörfina og skerðingin er varla undir 1.200 millj. kr. Þá liggur það fyrir.

Hv. þm. hefur staðfest það sem ég sagði að þó að einhver aukning sé til rekstrar, þá er hún verulega minni en gert er ráð fyrir í sambandi við að skerða tekjur í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Það er óviðunandi gagnvart þeim sem versta stöðu hafa í þjóðfélaginu að ráðist sé að þeirra kjörum og aðbúnaði eins og hér á að gera. Hv. þm. orðaði þetta mjög óljóst. Það á að leysa þörfina á næsta ári með einhverri leigu. Hefur það verið kannað hvort húsnæði sé til sem hentar fötluðum? Við erum að tala um þá mest fötluðu sem þurfa mjög sérstakt húsnæði. Liggur það fyrir að hægt sé að finna slíkt húsnæði? Hefur það verið kannað? Ef ekki er hægt að leysa þetta með leigu, þá þarf auðvitað að fara út í byggingu eða kaup á nýjum sambýlum og það eru engir peningar til, ef ég skil málið rétt, vegna þess að skuldbindingar sjóðsins eru það miklar. Er formanni fjárln. kunnugt um hversu skuldbindingar framkvæmdasjóðsins eru miklar á næsta ári? Er hann þá nokkuð aflögufær til að byggja ný sambýli eða greiða leigu? Hvað liggur fyrir um leigu á fimm sambýlum á næsta ári sem þegar er gert ráð fyrir rekstur í? Hvað liggur fyrir um það? Ég trúi ekki öðru en að hv. fjárln. hafi fjallað um það atriði um leið og meiri hlutinn mælir með því að sjóðurinn verði skertur.

Það er ekki hægt að ganga þannig frá málum að skilja þetta mál eftir í lausu lofti og við verðum að fá, herra forseti, svör við þeim spurningum sem hér hafa verið lagðar fram sem eru mikilvægar spurningar og snerta hag þeirra sem núna bíða eftir sambýlum. Við verðum að fá svör við þeim við þessa umræðu áður en málið verður sent til nefndar.