Ráðstöfun erfðafjárskatts

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 13:39:04 (2952)

1999-12-15 13:39:04# 125. lþ. 46.4 fundur 273. mál: #A ráðstöfun erfðafjárskatts# (greiðslur í ríkissjóð 2000) frv. 111/1999, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[13:39]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ef hagfræði hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur hefði ráðið á undanförnum árum þá hefði ekki verið afgangur hjá ríkissjóði til að greiða niður skuldir. Aðhaldssamur ríkisbúskapur er undirstaða þess að góðærið nýtist þjóðinni. Endurskoðuð þjóðhagsáætlun sem birt var í gær veldur að sjálfsögðu verulegum vonbrigðum. Ég lít svo á að við séum komin í þá stöðu að óhjákvæmilegt sé að gá að sér. Viðskiptahallinn er hættulegur og verðbólgustigið er komið á krítískt skrið.

Ég tel að aðhalds hafi verið gætt í málaflokkum félmrn. Það er þá undantekningar í þeim tveimur málaflokkum sem hafa haft forgang og mikil þensla er í, þ.e. málefnum fatlaðra og ungmenna. Á þeim tíma sem ég hef verið í ráðuneytinu hafa framlög til málefna fatlaðra í heild hækkað um 85% og til málefna barna og ungmenna um 115%, þ.e. í reksturinn.

Það er rétt hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að skýrslan sem unnin var að hennar frumkvæði, samkvæmt þáltill. sem hv. þm. fékk samþykkta á Alþingi, liggur fyrir í ráðuneytinu. Hún er að sjálfsögðu ekkert leyniplagg og er aðgengilegt fyrir þá sem eftir henni óska. Í ráðuneytinu liggur enn fremur fyrir frv. sem ég mun á næstu dögum eða við fyrsta tækifæri kynna í ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarinnar um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem lögin um málefni fatlaðra eru felld inn í félagsþjónustulögin. Þetta er aðalfrv. og síðan fylgja þrjú fylgifrv. Eitt er um Greiningarstöðina, eitt er um réttindagæslu fatlaðra og eitt sem að vísu er ekki fullbúið enn þá er um starfsþjálfun fatlaðra. Þetta eru verkefni sem eru á landsvísu og eðlilegt að um þau séu sérlög.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði reyndar fyrst og fremst um Framkvæmdarsjóð aldraðra sem ekki er hér á dagskrá. Ég ætla ekki að fjalla um hann í máli mínu því að sá sjóður tilheyrir heilbrrn. og ég skipti mér ekki sérstaklega af honum. Ég get tekið undir með hv. þm. Ég er sammála því að það er vond aðferð að skerða markaða tekjustofna. Reyndar orka markaðir tekjustofnar líka nokkuð tvímælis og eru ekki endilega skynsamleg aðferð við rekstur ríkisins. Einnig má benda á að erfðafjárskatturinn er ákaflega sveiflukenndur tekjustofn. Að því leyti er hann ekki heppilegur. Upphæð erfðafjárskattsins fer eftir því hversu stór dánarbú koma til skipta það og það árið.

Þrátt fyrir það að þessi skerðing verði ákveðin á erfðafjárskattinum, þ.e. að hann renni ekki óskertur í Framkvæmdarsjóð fatlaðra, hefur það ekki önnur áhrif en þau að nota verður leiguhúsnæði í meira mæli að til að sinna þessum verkefnum. Leiguhúsnæði er til reiðu og það hefur tekist að setja upp úrræði bæði til vistunar fatlaðra og eins til vistunar ungmenna í leiguhúsnæði.

Það má líka geta þess í umræðunni að búsetuform fatlaðra er breytingum undirorpið, það sem þótti heppilegt fyrir 20 árum síðan þykir óhæft í dag. Kröfurnar og matið á því hvaða búsetuform er heppilegt eru alltaf að breytast. Fyrst þótti stofnanapólitíkin góð og gild. Frá henni var horfið fyrir allöngu. Við erum mjög glæsileg húsakynni, t.d. í Bræðratungu á Ísafirði og Vonarlandi á Egilsstöðum, stórglæsilegar byggingar sem byggðar voru af miklum stórhug, fórnfýsi og menn töldu sig vera framsýna þegar þeir reistu þessi mannvirki.

[13:45]

Nú þykja þau vera úrelt og svara ekki kröfum tímans. Eins er það með sambýlin að nú er uppi sú kenning að dreifa eigi búsetu fatlaðra sem allra mest og að hver fatlaður einstaklingur búi einn og sér eftir því sem hann hefur framast getu til. Þetta verður til þess að byggingarnar úreldast óvenjufljótt. Bara af þeirri ástæðu getur verið skynsamlegt að byggja fremur á leiguúrræðum en á fjárfestingu í steinsteypu.

Rétt er að halda því til haga að þegar ég kom til starfa í félmrn., var skerðing á Framkvæmdasjóði fatlaðra ekki 25% eins og hv. 5. þm. Reykv. sagði áðan, skerðingin var 25% árið 1994 ef ég man rétt, sem mun vera síðasta árið sem hv. þm. undirbjó fjárlög að þessu leyti. Skerðingin var 40% þegar ég kom í ráðuneytið. Þá voru þau fjárlög undirbúin af hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur eða hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni. Þá voru sem sagt tekin til rekstrar 40% af fjármagni framkvæmdasjóðs. Út af fyrir sig er vond aðferð að sulla þessu saman og mér finnst miklu hreinlegra að nota til framkvæmda það sem fer í framkvæmdasjóð og taka reksturinn úr ríkissjóði. Þess vegna var þessi skipulagsbreyting gerð og fallist á þessar skerðingar á erfðafjárskattinum.

Það sem máli skiptir er að á næsta ári hækkar framlag ríkisins til málefna fatlaðra um 285 millj. milli áranna 1999 og 2000. Nú eru á fjárlögum 3.457 millj. til málaflokksins en voru þegar ég kom í ráðuneytið 1.872 millj., þ.e. á fjárlögum ársins 1995. Þetta hefur sem sagt hækkað um 1.585 millj. eða 85%.

Þess má líka geta í umræðunni að nýbygging sambýlanna er að mínu mati orðin allt of dýr. Það á ekki að þurfa að kosta 10--15 millj. að koma upp búsetuúrræði fyrir hvern einstakling. Þetta er komið út í öfgar jafnvel þó að auðvitað þurfi að hafa aðgengi með góðum hætti o.s.frv. En við stöndum ekki undir því að láta plássið kosta milli 10 og 15 millj. fyrir hvern einstakling.

Menn hafa rætt um sveitarfélögin og hvernig þau geti tekið við málefnum fatlaðra. Það hefur alltaf legið fyrir að ríkið yrði að leggja fjármuni með málaflokknum þannig að sveitarfélögin teldu sig geta rekið málaflokkinn jafn vel eða betur en ríkið gerir og því er óþarfi að hafa áhyggjur af því sérstaklega.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði mig nokkurra spurninga og formann fjárln., hv. 3. þm. Austurl. Ég hef ekki svör á reiðum höndum hér og nú við tölulegum upplýsingum sem hún fór fram á og ég get heldur ekki staðfest eða vil á þessu stigi hrekja tölulegar upplýsingar sem hún var með í ræðu sinni en ég mun beita mér fyrir að þessi svör liggi fyrir í meðferð hv. félmn. þegar hún tekur þetta mál fyrir og mun síðar í dag þegar umræðunni er lokið fara að undirbúa það að þau svör geti verið á reiðum höndum fyrir hv. nefnd.