Ráðstöfun erfðafjárskatts

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 13:56:37 (2957)

1999-12-15 13:56:37# 125. lþ. 46.4 fundur 273. mál: #A ráðstöfun erfðafjárskatts# (greiðslur í ríkissjóð 2000) frv. 111/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[13:56]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. félmrh. talaði einungis um hvað reksturinn hefði vaxið í tíð hans sem ráðherra en gleymdi að geta um þær skerðingar sem hafa orðið á Framkvæmdasjóði fatlaðra sem eru nú nálægt og hátt upp í það sem reksturinn hefur aukist. Bara á næsta ári er aukning í rekstri sem hæstv. ráðherra talar um 285 millj. Aukningin í rekstri er minni en nemur skerðingunni á Framkvæmdasjóði fatlaðra, sem er 340 millj., en aukningin í rekstrinum ekki nema 285 millj. þannig að bara á næsta ári græðir ríkissjóður 55 millj. kr. á fötluðum. Þeir eru ekki að láta neitt til fatlaðra heldur eru þeir að taka af þeim 55 millj. ef maður tekur reksturinn með.

Ég virði það alveg þó ráðherrann hafi ekki töluleg svör við þeim spurningum sem ég beindi til hans og vænti þess að hann sjái til þess að þau komi þá í nefndina. Sérstaklega vil ég spyrja um það svigrúm sem sjóðurinn hefur á næsta ári og hvaða skuldbindingar hann hefur, svigrúm til aukinna og nýrra framkvæmda. Ég vil spyrja hann um leiguhúsnæði sem þarf fyrir fimm sambýli. Liggur það fyrir? Liggur fyrir leiguhúsnæði vegna fimm sambýla sem er til fjármagn í rekstur á næsta ári? Það er rangt hjá ráðherra að skerðingin á sjóðnum komi ekki niður á búsetuúrræðum vegna þess að það sé leyst með leiguúrræðum. Sjóðurinn hefur önnur viðfangsefni. Nefni ég þar aðgengismál fatlaðra, viðhaldsframkvæmdir, vinnumál o.s.frv. Vissulega kemur þetta niður á sjóðnum. Hæstv. ráðherra verður að fara með rétt mál þegar verið er að spyrja hann ýmissa spurninga og hann er að tala um stöðu og hagi fatlaðra. Það er alveg nauðsynlegt.

Í lokin vil ég spyrja hann af því að hann nefndi félagsþjónustu sveitarfélaga og að það eigi að fella málefni fatlaðra inn í þau lög: Er þar tekið tillit til þarfa langveikra barna eins og þingið lagði til með þáltill. fyrr á þessu ári?