Ráðstöfun erfðafjárskatts

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 14:03:52 (2961)

1999-12-15 14:03:52# 125. lþ. 46.4 fundur 273. mál: #A ráðstöfun erfðafjárskatts# (greiðslur í ríkissjóð 2000) frv. 111/1999, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[14:03]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér er lagt til fram frv. til laga um að skerða ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkisins til vinnuheimila, þ.e. sérstakar skatttekjur sem fara til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði mótmælum þessari skerðingu á tekjustofnunum eins og á öðrum sérmerktum tekjustofnum sem eiga samkvæmt lögum að fara til ákveðinna verkefna.

Mér hefur dottið í hug að það megi líkja þessu við tekjustofna sveitarfélaga, þjónustugjöld sem eiga að fara til ákveðinna verkefna.

Hið alvarlegasta er að það er full þörf fyrir allan tekjustofninn. Sú upphæð sem á að renna til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, 235 millj., er ekki áætluð nema um 40% af þeim tekjustofni sem óskertur kæmi til sjóðsins. Eins og fram hefur komið hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er skerðingin á þessu ári 340 millj. og áætluð skerðing á næsta ári 340 millj. einnig. Það munar um 700 millj. til þessa málaflokks.

Eins og hæstv. ráðherra benti á hafa viðhorf okkar til málefna fatlaðra sem betur fer verið að breytast. Það sem þótti góð þjónusta og góður aðbúnaður fyrir 20 árum er óbrúklegt í dag þó að húsnæðið sé gott. Bylting hefur verið gerð í að koma þeim sem fyrir 20--30 árum var komið fyrir á vistheimilum út í þjóðfélagið í eigin íbúðir. Þó þeir eigi þær ekki sjálfir þá eru það íbúðir sem þeir búa í einir. Þetta eru markmiðin í dag og stórt og mikið verkefni. Það á að styðja þetta verkefni.

Tilhugsunin um að verið sé að undirbúa það að málefni fatlaðra fari yfir til sveitarfélaganna og sú vinna sé langt komin eins og hæstv. ráðherra lýsti áðan vekur enn frekari efasemdir hjá mér um að nú sé rétti tíminn til þess að skerða þennan tekjustofn. Við megum ekki brenna okkur á sama hlutnum aftur og ekki gera það sama og þegar grunnskólinn var færður yfir til sveitarfélaganna, þ.e. að byggja væntingar um betri þjónustu sem sveitarfélögin eiga svo að uppfylla. Í dag eru þegar miklar væntingar um meiri þjónustu fyrir fatlaða. Væntingarnar eru þær að fatlaðir einstaklingar búi í eigin húsnæði eða sérbýlum og þær væntingar verða að kröfum þegar málaflokkurinn er kominn yfir til sveitarfélaganna. Því finnst mér enn mikilvægara að ekki komi slaki á þessa uppbyggingu og settur sé í þetta kraftur svo að sveitarfélögin taki þá við góðu búi ef svo má segja.

Við erum að afgreiða fjárlög ríkisins og fram hefur komið að tekjurnar hafa sem betur fer aukist. ,,Sem betur fer`` má hafa innan gæsalappa því að stórar upphæðir koma í ríkissjóð vegna þess að við Íslendingar erum að eyða um efni fram. En hvað um það, tekjur ríkisins hafa vissulega aukist. Því er enn síður ástæða til að skerða þennan sjóð.

Fjárlög hverrar ríkisstjórnar fyrir sig eru í raun það sem markar stefnuna. Það er hægt að setja fram fögur orð á blaði. Það er hægt að gera samkomulag um ákveðna hluti en þegar að alvöru málsins kemur, að ákveða fjárlögin, þá marka þau í raun stefnuna. Því finnst mér sárt að sjá tillögur um skerðingu á afmörkuðum tekjustofnum sem eiga að fara til ákveðinna verkefna þegar verkefnin eru næg. Aðgengismál fatlaðra eru eitt af þeim verkefnum sem sjóðurinn á að styrkja og við þurfum ekki annað en ganga um þetta hús, hið háa Alþingi, til þess að sjá á hverri hæð hver þörfin er. Hið sama má segja um aðrar stofnanir í þjóðfélaginu. Það eru mörg óleyst verkefni til að bæta aðgengi fatlaðra svo hægt sé að segja að við búum við ásættanlegar aðstæður.