Málefni fatlaðra

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 14:29:25 (2967)

1999-12-15 14:29:25# 125. lþ. 46.5 fundur 274. mál: #A málefni fatlaðra# (ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs 2000) frv. 116/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[14:29]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna mjög þeirri yfirlýsingu sem fram hefur komið hjá hæstv. ráðherra. Mér finnst hún mjög mikilvægt innlegg í umræðuna um stöðu fatlaðra. Hér er náttúrlega á ferðinni mikið nýmæli og sem aðstandendur langveikra barna munu örugglega fagna mjög ef niðurstaðan verður sú að langveik börn hljóti þjónustu í samræmi við ákvæði nýrra laga um félagslega þjónustu sveitarfélaga og þar með sambærileg úrræði og lausnir og fötluð börn fá. Ég fagna þessu sérstaklega af því að ég beitti mér fyrir því að þetta ákvæði kæmi inn með þessum hætti og átti frumkvæði að þeirri þáltill., sem ég nefndi og nefnd vann að, um framtíðarstefnumótun í málefnum langveikra barna. Ég fagna þessu mjög vegna þess að ég tel að þetta ákvæði geti valdið straumhvörfum í þjónustuúrræðum fyrir langveik börn ef það verður að veruleika. Ég vænti þess þá, herra forseti, að hagsmunasamtök langveikra barna, eins og krabbameinssjúkra barna og Umhyggja, hafi verið með í ráðum og séu fyllilega sátt við þá niðurstöðu sem ráðherrann kynnti hér.