Brunavarnir og brunamál

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 14:43:46 (2971)

1999-12-15 14:43:46# 125. lþ. 46.7 fundur 244. mál: #A brunavarnir og brunamál# (brunavarnagjald) frv. 127/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[14:43]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Af því að hæstv. ráðherra er búinn með ræðu sína þá kýs ég að koma hér upp í andsvar við hæstv. ráðherra í von um að hún geti svarað örlitlu meira um þessi mál.

Mig kann að bresta minni enda er ég nokkuð hniginn að aldri og jafnvel mæddur af pólitískri elli en ég man ekki betur en að í sumar, þegar umræðan kom upp um miðjan júlí að mig minnir, þá hafi hæstv. umhvrh. sagt í fjölmiðlum að hún mundi gera gangskör að því að settar yrðu sérstakar reglur um brunavarnir í jarðgöngum. Nú kann að vera að það hafi verið einhver embættismaður annar en mig minnti að það hefði verið hæstv. ráðherra. Það veit hún ábyggilega miklu betur en ég.

Ég á sem sagt ekki við endurskoðun laga um brunavarnir heldur átti ég við sérstakar reglur sem ég taldi í undirbúningi af hálfu hins opinbera um brunavarnir í jarðgöngum. Ég ætlaði mér að leggja fram fsp. um þetta mál en vildi ljúka því með þessari stuttu umræðu.

Ég er líka viss um að hæstv. ráðherra er fullkunnugt um að brunamálastjóri og reyndar líka starfsmenn slökkviliðsins í Reykjavík og á Akranesi hafa í fjölmiðlum sagt að tiltekinn búnað vanti, reykköfunarbúnað, reykdælubúnað og ýmsan búnað sem vafalaust kostar talsvert mikið. Þess vegna spurði ég, herra forseti, hvort ekki væri vitlegt að nota þær 13 millj. sem eiga að renna í ríkissjóð til að standa straum af útfærslu þessara reglna. En það blasir sem sagt við að hæstv. ráðherra er ekki kunnugt um að neinar reglur um auknar brunavarnir séu í undirbúningi af hálfu umhvrn. Hún hefur líka upplýst að henni sé ekki kunnugt um að nein áætlun sé í gangi til að afla nauðsynlegs tækjabúnaðar til að koma í veg fyrir að veruleg slys verði. Ég minni á að hræðileg slys hafa orðið í Evrópu og við þurfum auðvitað að vera í stakk búin til að mæta þeim en mér þykja þetta ekki góðar upplýsingar. Ég hélt satt að segja að hæstv. ráðherra væri miklu meira inni í þessum málum en raun ber vitni.