Framleiðsluráð landbúnaðarins

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 14:57:54 (2978)

1999-12-15 14:57:54# 125. lþ. 46.20 fundur 205. mál: #A Framleiðsluráð landbúnaðarins# (breyting ýmissa laga) frv. 112/1999, JB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[14:57]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós þá skoðun að ég er í megindráttum sammála því sem hér er til umræðu, frv. um að leggja niður Framleiðsluráð landbúnaðarins og færa verkefni þess annað.

Það eru sérstaklega tvö atriði, herra forseti, sem ég hefði viljað að skoðuð yrðu betur. Það er annars vegar þau prósentugjöld sem lögð eru á bændur, þ.e. á hvaða framleiðendur er verið að leggja, hvaða framleiðslugreinar. Einnig vek ég athygli á, herra forseti, þessum 190 millj. kr. sjóði sem þarna er látinn standa eftir án þess að gerð sé grein fyrir hvernig honum skuli varið. Mér hefði fundist, herra forseti, að það hefði átt að kanna hvort ekki væri skynsamlegast að láta þennan sjóð t.d. styrkja Lífeyrissjóð bænda eða annað slíkt og láta starfsemina að öðru leyti, sem hér er verið að færa til, standa undir sér á þeim forsendum sem þar eru.