Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 15:39:02 (2983)

1999-12-15 15:39:02# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hræddur um að hv. 7. þm. Reykv. hafi misst einhverja daga úr. Hann er að hefja aftur umræðu um fjáraukalög sem rætt var um hér fyrir nokkrum dögum. Þá tókum við þessi mál til umræðu og þar kom vissulega fram að við áttum við vandamál að etja, að setja í heilbrigðiskerfið fjármuni til að tryggja rekstur þess. Ég tel að það hafi verið nauðsynlegt.

Í framsöguræðu minni var ég að tala um útgjöld og útkomu ríkissjóðs á fjárlögum árið 2000. Við ræddum við 2. umr. fjárlaga einnig um fjármagn í heilbrigðiskerfið næsta ár. Við ræddum líka um fjármagn til byggðamála, við ræddum um fjármagn til fíkniefnamála og ég tel að þetta séu allt saman nauðsynleg útgjöld og beri ekki vott um nein lausatök á ríkisfjármálum. Mér finnst skipta miklu máli að við erum með, þrátt fyrir útgjöld til þessara brýnu mála, verulegan afgang á ríkissjóði. Ef það eru lausatök á ríkisfjármálum, þá veit ég ekki hvað lausatök eru.

En hitt er annað mál að ekki er búið að útrýma öllum vandamálum í framkvæmd fjárlaga. Það fórum við rækilega yfir við 2. umr. fjárlaga og umræðu um fjáraukalög.