Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 16:10:22 (2993)

1999-12-15 16:10:22# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[16:10]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frhnál. 2. minni hluta fjárln. Ég mun fyrst í ræðu minni fara yfir það nál. og síðan mun ég koma inn á einstök atriði í frv. í heild eins og það nú liggur fyrir til 3. umr.

Annar minni hluti fjárln. gagnrýnir harðlega þann losarabrag sem verið hefur á mati á þjóðhagslegum forsendum fjárlagafrv. frá því að það var fyrst kynnt í haust og einnig það að of skammur tími hefur verið gefinn til þess að meta upplýsingar sem nefndinni bárust jafnítarlega og hefði þurft. Þó er rétt að ítreka að þrátt fyrir þennan skamma tíma má greina alvarleg hættumerki í efnahagslífinu af þessum gögnum þar sem boðaðar aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum hafa ekki gengið eftir. Samkvæmt þjóðhagsspá er gert ráð fyrir aukinni verðbólgu og meiri viðskiptahalla.

Tekjur ríkisins mótast allt of lítið af varanlegum virðisauka. Of stór hluti teknanna er til kominn vegna mikillar neyslu í þjóðfélaginu og nú er svo komið að þrátt fyrir mikinn tekjuafgang og fyrirheit um að greiða niður skuldir er það einfaldlega erfiðleikum háð. Annars vegar er gjaldeyrisforði ekki nægur til að greiða niður erlendar skuldir og hins vegar treystir ríkisstjórnin sér ekki til að greiða niður innlendar skuldir í þeim mæli sem nauðsynlegt væri vegna þensluáhrifa. Niðurstaðan er því sú að vaxtalaust fjármagn mun safnast upp í Seðlabankanum ef fer sem horfir. Hér er því lögð áhersla á að nauðsyn er að skila góðum afgangi á fjárlögum en það er ekki sama hvernig hann er fenginn og hvernig honum er varið. Þrátt fyrir að hættumerkin í efnahagslífinu hafi verið ljós undanfarna mánuði sýna endurskoðaðar spár fram á enn meiri viðskiptahalla en áður var gert ráð fyrir og ekki er fyrirsjáanlegt hvenær hægt verði að nýta uppsafnað fjármagn til að greiða niður erlendar skuldir.

Við 2. umr. fjárlaga var mikið rætt um eftirlit með stofnunum og verklagsreglur til að tryggja að þær haldi sér innan ramma fjárlaga. Nauðsynlegt er, herra forseti, að slíkar reglur séu skýrar og algildar, þær taki bæði til stofnana og einnig til framkvæmdarvaldsins alls frá hverju stigi til hins næsta. Eftirlitshlutverk fjárln. er þar ekki undanskilið, það þarf að vera skýrt svo að nefndin sé í stakk búin að sinna hlutverki sínu sem best til þess að reka erindi sitt fyrir Alþingi.

Herra forseti. Ég tel fyllilega ástæðu til þess að kannað verði með hvaða hætti megi styrkja störf fjárln. og Alþingis, m.a. við fjárlagagerð.

Reiknilíkön eru æ meira að ryðja sér til rúms. Í breytilegu þjóðfélagi verður að vera svigrúm til ákvarðanatöku, annars er hætta á ósveigjanleika og stöðnun. Veiku löggjafarvaldi hættir til að skýla sér í blindni á bak við reiknilíkön og horfa fram hjá þörfum þegnanna og velferð. Hér er ekki verið að draga úr nauðsyn þess að sem nákvæmust kostnaðargreining sé gerð á þeirri þjónustu og þeim þáttum sem ráðast þarf í en þar sem annars staðar þarf að gæta hófs, víðsýni og framsýni.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum m.a. lagt til að tekinn verði upp þrepaskiptur tekjuskattur af launatekjum sem hlífi fólki með lægri tekjur við óhóflegri skattbyrði en felur í sér hátekjuskatt. Og við, herra forseti, leggjum til að fjármagnstekjur, þar með talið arðgreiðslur og söluhagnaður af hlutabréfum, umfram vexti af hóflegu sparifé almennings verði skattlagðar á svipaðan hátt og aðrar tekjur.

Herra forseti. Við leggjum til að skattlagning á hreinum hagnaði fyrirtækja taki mið af skattlagningu launatekna og frádráttarheimildir vegna gamalla rekstrartapa og fleiri slíkra atriða verði þrengdar um leið og hvatt verði til nýsköpunar með sérstökum ívilnunum.

[16:15]

Herra forseti. Við viljum að skattkerfinu sé beitt markvisst til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, þ.e. þeir greiði sem hafi til þess efni og burði en þeim sé líka stýrt til að hafa áhrif þróun þjóðfélagsins.

Við leggjum líka til að kannaðar verði búsetutengdar ívilnanir til jöfnunar og leiðréttingar og það beri að skoða allar leiðir þar, m.a. í gegnum skattkerfið því að fátt er jafnhættulegt fyrir efnahagslíf okkar og sú mikla búseturöskun sem nú á sér stað.

Við lítum til framtíðar, herra forseti, og leggjum áherslu á sjálfbæra nýtingu auðlindanna og að teknir verði upp vistvænir eða grænir þjóðhagsreikningar þar sem verðgildi ósnortinnar náttúru er metið og fórnarkostnaður ef á hana er gengið, en aukið verðmæti náttúrunnar jafnframt fært til hagnaðar fyrir næstu kynslóðir.

Herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur áherslu á að stefnumörkun og áherslur í fjármálastjórn ríkisins verða að byggjast á sterkri sýn á það samfélag og umhverfi sem við viljum búa --- ekki aðeins okkur sjálfum heldur miklu frekar komandi kynslóðum.

Herra forseti. Þau atriði sem hér koma sérstaklega fram við 3. umr. fjárlaga eru áhersla á heilbrigðismálin, sem tíðrætt hefur verið um í haust. Þar vil ég vekja athygli á, herra forseti, að gert er ráð fyrir að settar verði verklagsreglur, að settar verði reglur um hvernig forstjórum og einstökum framkvæmdastjórum fyrirtækja er ætlað að starfa, því að þær verklagsreglur liggja ekki fyrir. En þó leyfi ég mér, herra forseti, að vísa til þess sem stendur í nál. meiri hluta fjárln. eins og lagt var til við 2. umr. fjárlaga þar sem verið er að fjalla um annars vegar rekstrarfjárþörf heilbrigðisþjónustunnar og hins vegar aðgerðir til að bæta þar úr og hvernig á þá að beita afarkostum.

Ég les, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að til að rekstur allra sjúkrastofnana verði innan fjárheimilda þarf meira til en fjárframlög úr ríkissjóði. Framlögin eru veitt með þeim skilyrðum að gerðir verði samningar við stjórnendur og að tekið verði á fjármálastjórn stofnana.``

Og ég vek athygli á næstu setningu, herra forseti:

,,Að öðrum kosti er gert ráð fyrir að þessar fjárveitingar verði felldar niður í fjáraukalögum ársins 2000.``

Ég bendi á, herra forseti, að þetta er alveg dæmalaus setning. Fyrst er kostnaðarþörfin og fjárþörfin viðurkennd og hún afgreidd, en síðan ef einhver stendur ekki verklagsreglur sem ekki eru enn komnar í ljós, þá skuli það fé tekið til baka.

Ég tel, herra forseti, að afar mikilvægt sé að fjárln. og Alþingi fylgist mjög náið með og grípi inn í við framkvæmd þeirra ákvæða sem þarna er verið að benda til. Ég ítreka að þær reglur, aðgerðir og þær starfsreglur sem settar verða, hvort sem þær eru fyrir sjúkrahús, heilsugæslustöðvar eða önnur ríkisfyrirtæki, verða að vera algildar. Þær þurfa líka að ná --- ekki aðeins til þessara aðila --- heldur allra annarra stofnana og ekki síst til þeirra sem fara með framkvæmdastjórn í ráðuneytunum sjálfum. Við erum ekki með stéttskiptar reglur um hvernig á að stýra störfum og reka fyrirtæki.

Herra forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa lagt fram tillögur um að styrkja og efla menntun. Fjárfesting í þekkingu og menntun er það brýnasta fyrir framtíðina. Við höfum lagt áherslu á að þar ríki líka jöfnuður og sérstakt átak þurfi til þess að styrkja framhaldsmenntun og starfsmenntun úti um land ekki síður en í þéttbýli og leitað verði allra leiða til að ungt fólk geti sótt nám heiman að frá sér sem lengst og að fjölskyldulíf geti verið eðlilegt með tilliti til aðgangs að menntun. Þetta teljum við, herra forseti, að sé ekki nægilega undirstrikað og alls ekki í þeim fjárlögum sem við nú erum að leggja fram.

Við höfum, herra forseti, lagt áherslu á byggðamálin og bættar vegasamgöngur. Við höfum lagt áherslu á aukin framlög til sveitarfélaganna og að dreifbýlið til sjávar og sveita verði styrkt og þar verði komið á auknum jöfnuði.

Við munum endurflytja tillögur sem voru kynntar við 2. umr. fjárlaga, bæði varðandi einstaka liði, stöðu sauðfjárbænda, varasjóð eignarhaldsíbúða í félagslega íbúðakerfinu þegar sveitarfélögin verða að leysa til sín félagslegar eignar\-íbúðir og sitja síðan uppi með þann mismun sem þau verða að leysa íbúðirnar inn á. Þetta er verulegt vandamál hjá mörgum sveitarfélögum.

Við munum enn og aftur leggja áherslu á umhverfismálin. Herra forseti. Við verðum að horfa til framtíðar, við megum ekki vera svo upptekin af okkar daglega dægurvanda og viðfangsefnum að við gleymum því að við eigum allt undir framtíðinni og hana verðum við að styrkja. Þess vegna leggjum við áherslu á það sem lýtur að umhverfismálum, það sem lýtur að því að við göngum ekki á auðlindir okkar, að við göngum ekki varanlega á þær heldur styrkjum þær og nýtum með sjálfbærum hætti.

Herra forseti. Nokkrir mikilvægir málaflokkar hafa hér orðið út undan og ég harma það. Ég harma að ekki skuli hafa verið minnst á Ríkisútvarpið. Fulltrúar Ríkisútvarpsins komu á fund fjárln. og tjáðu nefndarmönnum veruleg fjárhagsleg vandræði og að þeim væri það þröngur stakkur skorinn og meira en það, þeim væri líka skylt að sækja um afnotagjaldshækkanir, ekki aðeins til menntmrn., sem er nú svo sem ágætt, heldur til fjárln. Ég óskaði eftir því að þetta kæmi upp á borð fjárln. og væri rætt frekar en af því varð ekki.

Það er metnaðarmál okkar, herra forseti, að Ríkisútvarpið fái fjármagn til þess að standa undir þeirri starfsemi og þeirri reisn sem við viljum að það beri.

Hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður fjárln., gat þess einnig í framsögu sinni að mikilvægir málaflokkar úr landbrn. hefðu ekki komið til umfjöllunar nefndarinnar. Ég tek undir það, og um það var rætt og spurt hverju sætti. Ef tekin eru málefni Skógræktar ríkisins, þá horfum við til framtíðar og Skógrækt ríkisins má ekki verða neitt olnbogabarn í fjármögnun, verkefnum, skipulagi eða eftirtekt stjórnvalda. Það var einnig minnst á stöðu loðdýrabænda og loðdýraræktarinnar. Ekki voru gerðar neinar tillögur þar, sem ég veit að brýn þörf er á að gera og hv. þm. gat hér um.

Herra forseti. Það eru því margir mikilvægir málaflokkar sem hafa verið lagðir til hliðar við þessa fjárlagagerð. Við hörmum það en við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munum áfram taka málstað þeirra sjónarmiða og áherslna sem við höfum og við viljum leggja inn í umræður um fjármál og um hvert það mál sem kemur til umfjöllunar Alþingis til framtíðarheilla fyrir land og þjóð.