Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 17:38:16 (3001)

1999-12-15 17:38:16# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[17:38]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom inn á mörg atriði í ræðu sinni. Það er ekki tóm til að svara þeim öllum í stuttu andsvari en ég mun væntanlega gera það síðar í þessum umræðum.

Ég vil eingöngu nefna það sem hann vék að og varðar svokallaðar verklagsreglur að því er varðar eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Það mál hefur verið rætt á vettvangi fjárln. og það hefur komið inn í 2. umr. fjárlaga. Ég vil upplýsa það af minni hálfu að í undirbúningi er í fjmrn. gerð slíkra verklagsreglna sem ég mun leggja fyrir ríkisstjórnina og sem ég mun síðar beita mér fyrir að verði sendar forstöðumönnum og öðrum sem hlut eiga að máli í sérstöku umburðarbréfi og birta. En málið er auðvitað að í lagaákvæðum, sem nú gilda, bæði í lögum um fjárreiður ríkisins og réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, eru alveg skýrar leiðbeiningar um þessi mál. Það sem ég hef hugsað mér að kæmi fram í þessum verklagsreglum væri í fyrsta lagi hlutverk fjmrn., sem er almenns eðlis, hlutverk fagráðuneytanna sem felst að sjálfsögðu í ábyrgð þeirra á undirstofnunum sínum og síðan í þriðja lagi ábyrgð forstöðumanna og annarra sem hafa með höndum og til meðferðar opinbert fjármagn. Það er algjör misskilningur sem kom fram í umræðunni áðan að þetta snúist um að kjöldraga eða hausskera einhverja menn eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson orðaði það svo snyrtilega og smekklega. Þetta snýst ekkert um það. Þetta snýst um það að allir sem hafa það ábyrgðarmikla hlutverk með höndum að véla um opinbera fjármuni hafi alveg skýrt fyrir sér hvernig það á að gera, hvað gerist ef heimildir þrýtur, ef fjárheimildir þrýtur og hvernig brugðist verður við slíku. Ég lít á þetta sem sameiginlegt verkefni ríkisstjórnarinnar, forstöðumanna stofnana, Ríkisendurskoðunar og svo að sjálfsögðu þingsins og fjárln. þess.