Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 17:40:32 (3002)

1999-12-15 17:40:32# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[17:40]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka skýr svör frá hæstv. fjmrh. um þetta tiltekna atriði. Ég er honum sammála um að í rauninni er óþarfi að skerpa sérstaklega ábyrgð forstöðumanna vegna þess að hún liggur fyrir, sér í lagi með þeim lögum sem sett voru um fjárreiður ríkisins 1997. Ég vek hins vegar eftirtekt á því að okkur var lofað því í fjárln. að útfærðar reglur yrðu settar fram um þetta efni, ekki bara um ábyrgð forstöðumanna stofnana, heldur um hvernig ætti að útfæra samninga og ýmislegt fleira. Við áttum að sjá það fyrir 3. umr. og fá til umræðu í hv. fjárln. Hv. þm. Hjálmar Jónsson lýsti því nánast yfir að málið kæmi varla til 3. umr. nema þetta lægi fyrir. Ég spyr, hvar liggur þetta fyrir? Ég fær ekki betur skilið af svari hæstv. ráðherra en hann hafi kveðið hv. þm. Hjálmar Jónsson í kútinn að þessu leyti og þetta liggi ekki fyrir. Af því að hæstv. ráðherra nefndi að það væri alls ekki fyrirhugað að kjöldraga eða fara með öðrum hætti heldur ósmekklega og óþægilega að forstöðumönnum stofnana verður hann auðvitað að gera sér grein fyrir því að það var ekki stjórnarandstaðan sem hóf máls á því heldur hafa tveir hv. þm. Sjálfstfl. beinlínis sagt að það væri nauðsynlegt að láta menn sæta ábyrgð og ef það þýddi að hún þyrfti að láta einhverja fjúka, þá yrði það gert. Í þessum umræðum voru reyndar af hálfu talsmanna Sjálfstfl. nefndar tölur og talið nauðsynlegt til eftirdæmis að láta fjóra til fimm fjúka. Þetta getur hæstv. ráðherra lesið í þingtíðindum ef hann vill. Að öðru leyti fagna ég því að hæstv. ráðherra er þeirrar skoðunar að setja þurfi skýrar reglur. En ég hafði talið af nál. meiri hlutans og ræðum þeirra að þær reglur sem menn eru að ræða um væru miklu yfirgripsmeiri en þær sem mátti ráða af máli hæstv. ráðherra að séu nú í undirbúningi í ráðuneyti hans.