Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 17:51:07 (3009)

1999-12-15 17:51:07# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[17:51]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson flutti í annað sinn sömu ræðuna, en hann flutti hana líka við 2. umr. (ÖS: Þetta er í þriðja sinn.) Og nú jafnvel í þriðja sinn. Mér fannst ræðan ekki hafa breyst mjög mikið milli umræðnanna og ég er dálítið hissa á þessum mikla ræðusnillingi að hann skuli þurfa að tyggja upp sama málið aftur og aftur og bera fram sömu spurningarnar við sömu ráðherrana aftur og aftur. Ég hélt að það væri löngu ljóst að í frv. er náttúrlega verið að gera ýmislegt sem ég er alveg viss um að hv. þm. hefði tekið vel undir ef hann hefði verið ráðherra.

Ég minnist þess að þegar hann var í meirihlutastjórn á sínum tíma tók hann þátt í að fyrsta skóflustungan fyrir nýrri virkjun við Fljótsdal var tekin á sínum tíma. Hann tók einnig þátt í því að Fljótsdalsvirkjun yrði undanþegin umhverfismati til þess að það verk gæti haldið fram. Hann tók einnig þátt í því að línur um hálendið yrðu lagðar þannig að hægt væri að flytja rafmagnið á milli landshluta. Nú er allt í einu allt ómögulegt hjá hv. þm. Það er líka verið að reyna að draga úr þenslu með því að leggja peninga inn í Seðlabankann umfram það sem ríkissjóður hefur þurft að nota. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvað hv. þm. hefur til málanna að leggja sem ábyrgur fulltrúi í minni hluta. Ég hef ekki orðið var við eina einustu tillögu hjá honum til að mæta þeirri rosalegu vá sem hann hefur verið að básúna á undanförnu ári. Sú vá hefur ekki látið sjá sig og ég hugsa að það sé það ergilegasta fyrir hv. þm. að hin mikla vá sem hann talaði um fyrir kosningar hvarf, hún fannst ekki þegar til átti að taka.