Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 17:58:04 (3013)

1999-12-15 17:58:04# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[17:58]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega slæmt þegar fjárlög ganga ekki eftir í einu og öllu eins og raun hefur orðið á þessu ári. Sem betur fer hefur ríkissjóður borð fyrir báru nú um stundir. Við höfum farið yfir það við umræðu um fjáraukalög og fjárlög við 2. umr. hvernig brugðist verði við sjáist merki um alvarlega framúrkeyrslu á næsta ári. Við höfum rætt svo mikið um þetta núna og bréfað það margt að ég er sannfærður um að málin verða tekin öðrum og betri tökum. Ég miða það líka af því sem hæstv. fjmrh. sagði áðan og hv. formaður fjárln. og hv. varaformaður fjárln., verklagsreglurnar eru í undirbúningi, þær eru að koma. (Gripið fram í: Enn þá?) Lögin eru til, í rauninni þarf ekki reglur en útfæra þarf hvernig lögunum verður beitt, það er það sem á vantar. Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson veit þá getur verið svo að góðir hlutir gerist hægt. En góðir hlutir gerast nú sem betur fer.

Ég hef verið fullvissaður um það að lögum um fjárreiður ríkisins og lögum um opinbera starfsmenn verði fylgt þannig að framkvæmd fjárlaga verði eðlileg og rétt á árinu 2000. Lögin eru til eins og ég sagði, þeim þarf að sjálfsögðu að hlíta og ég treysti orðum hæstv. fjmrh. að þannig verði fram gengið. Ég hygg hins vegar að allir aðrir megi taka sig á, við eins og aðrir hér í þinginu og treysti á gott samstarf við hv. minni hluta fjárln. í því að okkur gangi að fylgja eftir okkar mikilvæga eftirlitshlutverki af hálfu löggjafans.