Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 18:00:01 (3014)

1999-12-15 18:00:01# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[18:00]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt hjá hv. þm. að við þurfum öll að taka okkur á nema e.t.v. einn. Ég held að hv. þm. Hjálmar Jónsson þurfi ekki að taka sig á því að enginn hefur skilið þessa hluti betur en hann. Ef ég má, herra forseti, með leyfi lesa eftirfarandi tilvitnun í hv. þm. frá því við 2. umr. um fjárlög, þá sagði hv. þm.:

,,Sú gagnrýni að heilbrrn. hefði átt að grípa fyrr í taumana þegar sýnt var að stefndi í óefni með reksturinn á þessu ári er ekki óeðlileg. Vel má segja að losarabragur hafi verið á stjórnsýslunni, a.m.k. vil ég hvorki né get neitað því. Þess vegna er lagt af stað með nýtt upplegg.``

Loforð hv. þm. til okkar, herra forseti. Eftir að við höfðum verið að ræða viðmiðunarreglurnar sem við vildum fá að sjá í stjórnarandstöðunni, þá lofaði hv. þm. þessu, með leyfi forseta:

,,Viðmiðunarreglur munu liggja fyrir við 3. umr. fjárlaga.``

Þær liggja ekki fyrir. Hv. þm. lofaði að þær lægju fyrir og tók reyndar miklu stærra upp í sig en ég kæri mig um í sjálfu sér að vera að rifja upp. Þetta loforð lá fyrir. Við tókum það gott og gilt og töldum nauðsynlegt að þessar reglur lægju fyrir. Nú liggur það einfaldlega fyrir að þær eru einhvers staðar á floti í ráðuneyti hæstv. ráðherra Geirs H. Haardes og þær kunna að koma einhvern tíma í leitirnar á næsta ári. En það er alveg ljóst að þær mun ekki reka á fjörur fjárln. A.m.k. er ekkert sem hefur enn komið fram í umræðunni sem bendir til þess. Hæstv. fjmrh. gat þess hvert hann mundi senda þessar reglur til umsagnar áður en þeim yrði hrint í framkvæmd en það var átakanlegt að ekki var talað um fjárln. þar. Nú spyr ég hv. þm. Hjálmar Jónsson sem lofaði því að við fengjum þær til umræðu hvort hann muni beita sér fyrir því og leggja hatt sinn að veði fyrir því að við fáum að ræða þetta áður en þær verða að veruleika.