Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 18:02:04 (3015)

1999-12-15 18:02:04# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[18:02]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er fullviss um að hæstv. fjmrh. komi með reglurnar til fjárln. og að sjálfsögðu munum við vera með í ráðum um framkvæmd fjárlaga á næsta ári samkvæmt lögum. Ég er líka sannfærður um að framkvæmd fjárlaga mun verða betri. Að öðru leyti vísa ég til nefndarálita meiri hluta fjárln. um það hvernig við lítum á málin nú um stundir og hvernig við viljum að fjárlögum verði fylgt á næsta ári.

Verklagsreglurnar eru til. Þær eru lög um opinbera starfsmenn og lög um fjárreiður ríkisins. Það sem vantar er hvernig þeim verði beitt. Það er það sem hæstv. fjmrh. er að láta vinna í ráðuneyti sínu og ég efast ekkert um að það verða örugg tök á fjármálum og efnahag ríkisins á næsta ári undir hæstv. ríkisstjórn og meiri hluta Alþingis.